Verkefni kjörstjórna og sveitarstjórna
Meðal verkefna yfirkjörstjórna eru móttaka framboðslista og úrskurðir um gildi þeirra. Þá sjá þær um gerð kjörseðla sem notaðir eru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og dreifingu þeirra til undirkjörstjórna, þær úrskurða um gildi vafaatkvæða og hafa umsjón með talningu atkvæða og uppgjöri kosninga.
Kjörstjórnir í hverju sveitarfélagi eru kosnar af viðkomandi sveitarstjórn og skulu bæði aðal- og varamenn eiga kosningarétt í sveitarfélaginu. Kjörstjórnir skipta sjálfar með sér verkum og eru óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar í störfum sínum. Sé fulltrúi í kjörstjórn á framboðslista í viðkomandi kosningum skal hann víkja sæti. Kjörstjórnir eru yfirkjörstjórnir, undirkjörstjórnir og hverfiskjörstjórnir.
Yfirkjörstjórn hefur yfirumsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í viðkomandi sveitarfélagi en þar sem sveitarfélagi er ekki skipt upp í kjördeildir gegnir hún jafnframt hlutverki undirkjörstjórnar.
Sjá upplýsingar um formenn yfirkjörstjórna í öllum sveitarfélögum landsins hér.
Sveitarstjórnir hafa meðal annars því hlutverki að gegna að gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofns frá Þjóðskrá Íslands og þær taka til meðferðar athugasemdir við kjörskrár. Sveitarstjórn tekur ákvörðun um skiptingu sveitarfélagsins í kjördeildir og um kjörstaði. Sjá nánar um hlutverk sveitarstjórna hér. Upplýsingar um skrifstofur sveitarfélaga má nálgast hér.