Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi, 6. febrúar 2023

Heil og sæl, 

Föstudagspósturinn heilsar ykkur á fyrsta mánudegi febrúarmánaðar. Eins og venjan er hefur margt drifið á dagana í utanríkisþjónustunni í liðinni viku. Förum yfir það helsta. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsö í upphafi vikunnar. Gestir í pallborði voru sammála um mikilvægi Norðurskautsráðsins sem megin samstarfsvettvangs fyrir málefni norðurslóða. Minntist ráðherra á að grundvallar forsenda þess að alþjóðlegt samstarf af þessum toga gengi upp væri að alþjóðalög og reglur væru virtar og að þegar formennskuríkið gerðist sekt um að brjóta alþjóðalög setti það því miður strik í reikning samstarfsins. Sagt var frá málþinginu í kvöldfréttum RÚV sama dag.

Í sömu heimsókn ræddi hún mikilvægi þess að bæði Finnland og Svíþjóð fengju aðild að NATO sem fyrst við norræna kollega

og heimsótti Kongsberg Sattelite Services í mikilli snjókomu sem hún lét ekkert á sig fá.

Vjosa Osmani, forseti Kósovó heimsótti landið og átti fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, þar sem formennska Íslands í Evrópuráðinu, tvíhliðasamskipti og staða friðarviðræðna milli Serbíu og Kósovó voru efst á baugi.

Málþingið Sækjum fram í breyttum heimi, til heiðurs fyrsta kvensendiherra Íslands, Sigríði Snævarr, var haldið sl. föstudag við miklar og góðar undirtektir. Hér má sjá upptökur af helstu erindum og samræðum sem við hvetjum ykkur öll til að horfa á, enda um afar hugvekjandi efni að ræða.

Þá að sendiskrifstofunum. Sendiráð Íslands í Berlín er þessa dagana að kynna störf kjörræðismanna Íslands í Þýskalandi. Fyrstir í röðinni voru Dr. Roderich Thümmel í Stuttgart

og Friedrich Schwarz í München.

Í Strassborg var íslensk veitingastaðavika, la Semaine Culinaire Islandaise, í fullu fjöri. Viðburðurinn er liður í menningardagskrá formennsku Íslands í Evrópuráðinu og er unninn með Íslandsstofu.

Þar á bæ skrifaði Ragnhildur Arnljótsdóttir einnig undir staðfestingu Íslands á  viðbótarbókun við Búdapest sáttmálann um gyðingahatur og kynþáttahyggju sem á sér stað á netinu.

Auk þess hitti hún mannréttindafulltrúa úkraínska þingsins og fylgdarlið hans og ræddi mannréttindabrot vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem verður til umræðu á komandi leiðtogafundi Evrópuráðsins á Íslandi í maí.

Í Varsjá söfnuðust rúmar 5 milljónir íslenskra króna til heilbrigðisþjónustu fyrir börn og aldraða á uppboði sem rekið er af góðgerðarsamtökum þar í landi sem kalla sig The Great Orchestra of Christmas Charity. Sendiráðið lét ekki sitt eftir liggja til að styðja góðan málstað og meðal þess sem boðið var upp var heimsókn í sendiráðið og fundur með okkar eigin Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Póllandi, sem seldist á 20.000 krónur.

Samstarfsráðherrar Norðurlanda komu saman í Húsi Norðurlanda í Kaupmannahöfn 30. janúar. Í formennskutíð sinni leggur Ísland áherslu á frið og áframhaldandi vinnu að Framtíðarsýn okkar 2030. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra á Íslandi, tók þar fyrir alvöru við stjórnartaumunum og mun leiða Norrænu ráðherranefndina í gegnum árið 2023 ásamt hinum norrænu samstarfsráðherrunum. Sagt var frá þessu á vef Norrænu ráðherranefndarinnar á dögunum. 

Þá var ljósmyndasýningin Icelandic Transcendence opnuð í anddyri sendiráðsins í Kaupmannahöfn 2. febrúar. Stefanía Kristín Bjarnadóttir menningar- og viðskiptafulltrúi opnaði sýninguna í fjarveru sendiherra og ljósmyndarinn Yanlun Peng ávarpaði viðstadda. 

Í Lilongwe hóf Go Fund a Girl Child átakið Empower2Transform með þjálfun leiðbeinenda sem munu tryggja að stúlkur í viðkvæmri stöðu á TA Bwananyambi svæðinu hafi aðgengi að tækifærum til fjárhagslegs sjálfstæðis. Átakið er fjármagnað af íslenskum stjórnvöldum.

Í Stokkhólmi bauð Tobias Billström utanríkisráðherra Svíþjóðar, Bryndísi Kjartansdóttur sendiherra til fundar. Þau ræddu meðal annars um hið góða samband sem ríkir milli landanna. 

Í New York bauð Jörundur Valtýsson sendiherra til vikulegs samráðsfundar í norrænu samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en Ísland tók við formennsku samstarfsins í upphafi árs.

Í París lauk farsælli vinnuferð menningar- og viðskiptamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur á heimsókn á vinnustofu Errós, sem hefur lifað og starfað í borginni frá árinu 1958. 

Í sendiráði Íslands í Tókýó tók Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra á móti kjörræðismanni okkar í Singapore sem leit við í heimsókn, og notaði um leið tækifærið til að minna á það mikilvæga og óeigingjarna starf sem kjörræðismenn okkar um allan heim vinna. 

Í Heimsljósi var sagt frá því að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, lofaði mjög skuldbindingu Íslands til þess að aðstoða og vernda flóttafólk um allan heim, með auknum fjárframlögum Íslands til stofnunarinnar fyrir árið 2022.

Fleira var það ekki í bili. 

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta