Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Miðvikudaginn 12. febrúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 31/2013:

 

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar


og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 10. júlí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Kópavogsbæjar, dags. 5. júní 2013, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ sumarið 2013 en umsókn hans liggur ekki fyrir í málinu. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ var litið á tölvupóst kæranda frá 3. júní 2013 sem umsókn um fjárhagsaðstoð. Framangreindur tölvupóstur liggur fyrir í málinu en þar er ekki sérstaklega tilgreint fyrir hvaða tímabil kærandi óskar eftir fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda var tekin fyrir á teymisfundi þann 5. júní 2013 og var eftirfarandi bókun gerð:

Synjað að veita fjárhagsaðstoð skv. 16. gr. þar sem umsækjandi er í lánshæfu námi á tímabilinu.

Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 18. júní 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Félagsmálaráð staðfestir bókun teymisfundar frá 5. júní.

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júní 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 10. júlí 2013. Með bréfi, dags. 11. júlí 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 6. ágúst 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 9. ágúst 2013, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 20. ágúst 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með símtali þann 15. janúar 2013 óskaði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar eftir afriti af umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð og barst hún með tölvupósti frá Kópavogsbæ þann sama dag.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst ítrekað hafa reynt að fá framfærslustyrk frá Kópavogsbæ en fengið synjun í tvígang á þeim grundvelli að hann sé í lánshæfu námi. Það sé ekki rétt þar sem hann sé ekki í neinu lánshæfu námi og hann hafi ekki borgað nein skólagjöld. Hann hafi ekki verið í námi frá og með 15. maí 2013 og sé ekki skráður í nám fyrr en í september 2013. Hann fái enga framfærslu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) en það hafi hann sérstaklega kannað. Kærandi kveðst enn fremur ekki fá lán hjá LÍN þar sem hann sé í vanskilum. Kærandi fái ekki bætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi bendir á að samkvæmt stjórnarskrá eigi allir einstaklingar rétt á lágmarksframfærslu frá viðkomandi sveitarfélagi séu allar aðrar leiðir ófærar. Þar sem allar leiðir hafi verið lokaðar kæranda hafi hann leitað til sveitarfélagsins sem hafi synjað umsókn hans um fjárhagsaðstoð. Hann hafi hvorki getað greitt reikninga né leigu fyrir júní og júlí og muni hann því enda á götunni. Brátt geti hann hvorki séð fyrir sér né fjögurra ára gamalli dóttur sinni.

Kærandi telur að það sem fram komi í bréfi Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. ágúst 2013, eigi ekki við rök að styðjast. Sveitarfélagið haldi fram að hann sé í lánshæfu námi sem sé rétt en hann sé þó ekki skráður í neitt nám frá 15. maí til 19. ágúst 2013. Hann eigi því ekki rétt á neinu námsláni á tímabilinu. Ekki sé rétt að kærandi fái námslán greidd eftir á en í langflestum tilvikum sé það svo að einstaklingar fái námslán greidd fyrirfram í formi yfirdráttar frá viðskiptabanka sínum. Kærandi kveðst því vera launalaus í júní, júlí og ágúst 2013. Kærandi bendir á að samkvæmt gögnum frá LÍN hafi hann fengið 1.265.400 kr. í framfærslulán frá ágúst 2012 til júní 2013. Þar sem hann sé tekjulaus í júní, júlí og ágúst 2013 hafi hann haft að meðaltali 105.450 kr. í tekjur á mánuði síðastliðið ár. Kærandi bendir á að hann sé með sameiginlegt forræði yfir dóttur sinni og greiði meðlag með henni. Fullyrðing Kópavogsbæjar um að hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit eigi heldur ekki við nein rök að styðjast þar sem kærandi hafi bæði verið settur á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun ásamt því að hafa verið í reglulegu símasambandi við Kópavogsbæ varðandi atvinnuleit en lítið hafi þó gengið að fá aðstoð frá sveitarfélaginu. Einnig hafi hann sótt um ótal störf í gegnum heimasíður fyrirtækja, til dæmis hjá Elko og Heimilistækjum, en einnig hafi hann sótt um símleiðis og í eigin persónu. Kæranda hafi því verið synjað um lágmarksframfærslu þrátt fyrir virka atvinnuleit og opinn hug fyrir öllum möguleikum. Kærandi bendir á að lágmarksframfærsla einstaklings hjá Reykjavíkurborg hafi verið 163.635 kr. á mánuði og óskar að upplýst verði hvort fólki sé mismunað á milli sveitarfélaga í því sambandi.

 

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í athugasemdum Kópavogsbæjar vegna kærunnar kemur fram að skv. 23. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð njóti þeir einstaklingar sem stundi nám sem lánshæft sé hjá LÍN ekki fjárhagsaðstoðar. Þetta ákvæði byggi á því sjónarmiði að öllum þeim sem sæki um aðstoð, sé skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæður hamli því, sbr. 3. gr. reglnanna. Hafi einstaklingur sem ljúki vorönn sótt um skólavist áfram að hausti sé litið svo á að hann sé áfram í námi. Einstaklingar í námi teljist ekki vera í virkri atvinnuleit og jafnframt sé talið að framfærsla þeirra sé trygg í formi námslána. Eitt af hlutverkum félagsþjónustunnar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sé að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og í 19. gr. þeirra segi að hverjum einstaklingi sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn. Kópavogsbær bendir á að vorönn telji fimm mánuði frá janúar til maíloka. Námslán séu greidd eftir á. Hafi námsmaður staðist próf á vorönn fái hann greidd námslán vegna annarinnar á tímabilinu í síðasta lagi í júní. Í ljósi aðstæðna kæranda hafi Kópavogsbær þó veitt honum lán sem samsvari framfærslustyrk í júnímánuði til tveggja ára.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

Í upphafi telur úrskurðarnefndin ástæðu til að benda á að í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið skýrt á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda. Ákvörðun sveitarfélagsins í málinu var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júní 2013. Ákvörðuninni fylgdi ekki rökstuðningur sem fullnægir skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga og bar sveitarfélaginu því að leiðbeina aðila máls um heimild til eftirfarandi rökstuðnings. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að tryggja að fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga sé fylgt þegar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins eru ekki rökstuddar.

Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ sumarið 2013 en umsókn hans liggur ekki fyrir í málinu. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ var litið á tölvupóst kæranda frá 3. júní 2013 sem umsókn um fjárhagsaðstoð en þar er ekki sérstaklega tilgreint fyrir hvaða tímabil kærandi óskar eftir fjárhagsaðstoð. Þá er í ákvörðunum sveitarfélagsins ekki tilgreint fyrir hvaða tímabil samþykkt eða synjað er um greiðslu fjárhagsaðstoðar. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemdir við framangreint. Tekið skal fram að ákvörðun um að synja eða samþykkja umsókn um fjárhagsaðstoð er stjórnvaldsákvörðun. Það er óskráð meginregla að stjórnvaldsákvörðun verður að vera efnislega skýr og ákveðin svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvarðanir Kópavogsbæjar frá 5. og 18. júní 2013, sem birtar voru kæranda með bréfum, dags. 5. og 19. júní 2013, hafi ekki verið í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um að vera efnislega skýrar og ákveðnar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að gætt sé að framangreindu þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð en líkt og að framan greinir liggur ekki fyrir hvaða tímabil kærandi óskaði aðstoðar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi óskað fjárhagsaðstoðar fyrir júní, júlí og ágúst 2013. Umsókn kæranda var synjað með vísan til 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi verið í lánshæfu námi á tímabilinu. Í athugasemdum Kópavogsbæjar vegna kærunnar kemur fram að ákvæði 23. gr. reglnanna byggist á því sjónarmiði að öllum þeim sem sæki um aðstoð, sé skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæður hamli því, sbr. 3. gr. reglnanna. Þá kemur fram af hálfu Kópavogsbæjar að hafi einstaklingur, sem ljúki vorönn, sótt um skólavist áfram að hausti sé litið svo á að hann sé áfram í námi. Einstaklingar í námi teljist ekki vera í virkri atvinnuleit og jafnframt sé talið að framfærsla þeirra sé trygg í formi námslána sem séu greidd eftir á. Í ljósi aðstæðna kæranda hafi Kópavogsbær þó veitt honum lán sem samsvari framfærslustyrk í júnímánuði til tveggja ára. Kærandi kveðst ekki hafa verið í námi frá 15. maí til 19. ágúst 2013 og fái því ekki framfærslulán hjá LÍN á því tímabili. Þá fái hann ekki atvinnuleysisbætur. Kærandi bendir á að hann hafi fengið 1.265.400 kr. í framfærslulán frá ágúst 2012 til júní 2013. Þar sem hann sé tekjulaus í júní, júlí og ágúst 2013 hafi hann því haft að meðaltali 105.450 kr. í tekjur á mánuði síðastliðið ár. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi verið á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun, leitað aðstoðar Kópavogsbæjar við atvinnuleit og sótt um fjölmörg störf. Hann hafi því verið í virkri atvinnuleit. Að lokum bendir kærandi á að lágmarksframfærsla einstaklings sé lægri í Kópavogsbæ en hjá Reykjavíkurborg.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að gera athugasemdir við fjárhæð grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hjá Kópavogsbæ.

Í 23. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að einstaklingur er stundar nám sem lánshæft er hjá LÍN nýtur ekki fjárhagsaðstoðar. Í ákvæðinu segir einnig að aðrir námsmenn eigi ekki kost á fjárhagsaðstoð til framfærslu nema fullnægt sé skilyrðum 26. gr. reglnanna um námsstyrki/lán vegna náms. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ í júní 2013 þar sem hann hafði ekki fengið sumarstarf og af gögnum málsins má ráða að hann hafi þurft á aðstoð að halda þar til hann hæfi nám á ný um haustið. Fyrir liggur að kærandi stundaði nám á vorönn 2013 og var enn fremur skráður í fullt nám á haustönn 2013 í frumgreinanámi við Háskólann í Reykjavík. Kærandi kveðst hafa fengið framfærslulán frá LÍN frá ágúst 2012 til júní 2013 en ekki sumarið 2013. Úrskurðarnefndin telur að af ákvæði 23. gr. reglna um félagsþjónustu Kópavogs megi leiða að einstaklingur eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu þegar honum standi önnur úrræði til boða. Ekkert hefur komið fram um að kærandi hafi stundað nám sumarið 2013 og stóðu honum því ekki til boða námslán frá LÍN en þeim er ætlað að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að þegar kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ hafi hann ekki stundað nám sem lánshæft er hjá LÍN og því hafi sveitarfélaginu borið að leggja mat á hvort skilyrðum 26. gr. reglnanna hafi verið fullnægt. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Kópavogsbæ að taka umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júní, júlí og ágúst 2013 til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 19. júní 2013, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar meðferðar.

  

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta