Samkeppni, þjóðaröryggi og verðmætasköpun lykilþættir í ákvarðanatöku um raforkumál
Við alla ákvarðanatöku í raforkumálum er sérlega mikilvægt að huga að þjóðaröryggi, efnahagslegum tækifærum og verðmætasköpun, auk samkeppni. Gera þarf sérstakan viðauka við almenna eigendastefnu ríkisins um þessa þætti og er sú vinna væntanleg með vorinu. Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar sl. þriðjudag.
Ráðherra sagði í ávarpinu að við okkur blasi við nýr veruleiki á Reykjanesskaga sem hefði mikil áhrif á nauðsynlega orkuinnviði okkar, heitt vatn og raforku og þar með orkuöryggi. Þessi veruleiki hefði kallað á mikil útgjöld – og meira gæti komið til. „Náttúran hefur þannig minnt okkur á í hvaða landi við búum. Við getum hvorki verið værukær gagnvart innviðauppbygginu, orkuframleiðslu né ríkisfjármálum heldur verðum við að vera undirbúin fyrir áföll og högg. Við þurfum að ráða við þau,“ sagði Þórdís Kolbrún.
„Þegar kemur að efnalagslegum tækifærum og verðmætasköpun tel ég að Ísland sé í færi um að vera leiðandi í grænni orku. Við getum þó hæglega glatað forystu okkar ef við höfum ekki skýra sýn og látum ekki hug fylgja máli. Við eigum að keyra Ísland á grænni innlendri orku eins og kostur er, fremur en að kaupa hana með gjaldeyri okkar fyrir 170 milljarða króna eins og við gerðum á síðasta ári. Þetta er augljóst,“ sagði ráðherra einnig.
Ráðherra nefndi að hún hefði áður ávarpað ársfund Landsvirkjunar árið 2019, en þá sem ráðherra orkumála. „Þegar ég fékk að ávarpa fundinn síðast ræddi ég um áformin um Þjóðarsjóð. Áfram - og aftur - ræðum við um að ráðstafa arði af rekstri Landsvirkjunar í áfallasjóð, sem nýttur yrði til að bregðast við óvæntum áföllum í rekstri þjóðarbúsins. Sjóðurinn var í umræðunni þegar ég flutti ávarp á ársfundi Landsvirkjunar fyrir fimm árum síðan og sagðist ég þá styðja stofnun slíks sjóðs. Það geri ég enn - og hann er á þingmálaskrá minni nú á vorþingi.“
„Það er ábyrgðarhluti að byggja upp slíka getu fyrir komandi kynslóðir enda er gert er ráð fyrir að þessum tekjum verði ekki ráðstafað í sjóðinn fyrr en við höfum náð skuldahlutfallinu, eins og það er skilgreint í lögum um opinber fjármál, niður fyrir lögboðin mörk. Og okkur mun takast að koma skuldahlutföllum á ásættanlegan stað innan nokkurra ára,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundinum.
Fór hún jafnframt yfir rekstrarniðurstöður fyrirtækisins, sem kynntar voru á fundinum og lýsti ánægju með þær. „Skynsamlegar ákvarðanir og framkvæmdir varðandi nýtingu á orkuauðlindum landsins á undanförnum árum og áratugum, sem og ábyrg stýring þessara mikilvægu þjóðarhagsmuna af hálfu fyrirtækisins skilar okkur gríðarlegum verðmætum.“