Hoppa yfir valmynd
5. desember 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2000

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

Mál nr. 32/2000

 

Skipting kostnaðar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 8. september 2000, beindi húsfélagið X nr. 2, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við A og B, báðar til heimilis að X nr. 2, hér eftir nefndar gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 27. september 2000. Áður hafði verið samþykkt að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 26. september 2000, var lögð fram á fundi nefndarinnar 7. nóvember sl. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 2, sem skiptist í 16 eignarhluta. Ágreiningur er milli aðila hver eigi að greiða aukakostnað vegna litabreytinga á gangi 1. hæðar sem nemi rúmum kr. 50.000 krónur.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðilum beri að greiða aukakostnað 50.000 kr.ónur vegna litabreytinga á gangi.

 

Af hálfu álitsbeiðanda er á það bent að samþykkt hafi verið á löglegum húsfundi að mála sameignina í ákveðnum litum og hafi gagnaðilar verið á þeim fundi. Þegar byrjað var að mála ganginn fyrir framan eignarhluta gagnaðila hafi þeir stöðvað verkið og beitt stjórn húsfélagsins þrýstingi á versta tíma til þess að fá litnum breytt. Álitsbeiðandi telur að gagnaðilum beri að greiða þann aukakostnað sem stafi af litabreytingunum og gerðar hafi verið að kröfu þeirra.

Af hálfu gagnaðila er á það bent að þegar byrjað var að mála ganginn hafi komið í ljós að liturinn væri of dökkur en sameignin hafi að öðru leyti verið máluð í ljósum lit. Gagnaðilar hafi því komið sjónarmiðum sínum á framfæri við forsvarsmenn húsfélagsins og hafi litnum verið breytt og gangurinn málaður gulur. Það hafi því komið þeim í opna skjöldu þegar þeir voru krafðir sérstaklega um kostnað við þessa litabreytingu.

 

III. Forsendur

Sú meginregla gildir, samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, að sameiginlegar ákvarðanir ber að taka á húsfundum, sbr. 4. mgr. 39. gr. laganna. Tilgangur þessa ákvæðis er að eigendum gefist kostur á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðunum og atkvæðagreiðslu um sameiginleg málefni.

Í málinu liggur ekki fyrir fundargerð húsfundar þar sem ákvörðun var tekin um lit á málningunni. Hins vegar liggur fyrir óundirritað bréf húsfélagsins, dags. 20. mars 2000, þar sem rakin er forsaga málsins. Þar kemur fram að á aðalfundi húsfélagsins í apríl 1999 hafi verið samþykkt að fela nýkjörinni stjórn að afla tilboða í viðhald innan húss. Á árinu 1988 hafi farið fram samskonar viðhald og hafi þá lit á málningu verið breytt frá upphaflegu útliti sem arkitektar höfðu valið. Á fundinum hafi komið fram hugmynd þess efnis að sameignin yrði færð sem næst upphaflegu útliti hvað lit á teppi og málningu varði. Hugmyndinni hafi verið vel tekið en ákvörðun frestað. Á fundinum hafi 10 eigendur af 16 mætt og þar á meðal gagnaðilar. Á húsfundi 19. október 1999 hafi verið rætt um umræddar framkvæmdir og hafi eigendur 12 eignarhluta mætt og þar á meðal gagnaðilar. Stjórn húsfélagsins hafi lagt til að litur á málningu yrði færður í upphaflegt horf og af því tilefni hafi fundarmenn farið í skoðunarferð um sameignina að X nr. 6 en þar sé útlitið óbreytt. Í kjölfarið hafi allir fundarmenn samþykkt að mála sameignina í upphaflegum litum. Af gögnum málsins verður því talið að rétt hafi verið staðið að ákvarðanatöku varðandi val á málningu.

Sú ákvörðun stjórnar húsfélagsins að breyta litavali í sameign hússins að ósk gagnaðila var ekki borin undir húsfund. Þá virðist ekki hafa verið ljóst áður en hún var tekin að breytingin leiddi til aukakostnaðar. Því hefði stjórn húsfélagsins þurft að gera gagnaðilum það ljóst að þeir myndu þurfa að bera af henni allan kostnað. Það var hins vegar ekki gert. Þykir því ekki unnt nú að krefja gagnaðila um þennan aukakostnað.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðilum er ekki skylt að greiða 50.000 krónur vegna litabreytinga á gangi sameignar hússins.

 

 

Reykjavík, 5. desember 2000.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Benedikt Bogason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta