Hoppa yfir valmynd
16. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Samskipti Íslands og Austurríkis í brennidepli utanríkisráðherrafundar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Alexander Schallenberg, utanríkisráðherra Austurríkis. - mynd

Tvíhliða samskipti Íslands og Austurríkis, innrás Rússlands í Úkraínu og samstarf ríkjanna á alþjóðavettvangi voru á meðal umræðuefna á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Alexander Schallenberg, utanríkisráðherra Austurríkis, í Vín dag. 

„Við ræddum mörg sameiginleg hagsmunamál og deilum miklum áhyggjum yfir því erfiða og hættulega ástandi sem skapast hefur vegna innrásar herafla Pútíns í Úkraínu. Evrópuríki standa frammi fyrir erfiðum áskorunum og áhrifa stríðsins í Úkraínu gætir um allan heim. Aldrei hefur verið mikilvægara að vinna saman að friði og bjartari framtíð,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Utanríkisráðherra er stödd í Vín meðal annars vegna þess að sendiskrifstofa Íslands í Vín hefur nú aftur fengið stöðu tvíhliða sendiráðs samkvæmt nýjum forsetaúrskurði um sendiskrifstofur, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og aðalræðisskrifstofur. Þá sækir hún einnig opnunarmóttöku sýningar á verkum sextán íslenskra listamanna í sendiherrabústaðnum. Sendiherra Íslands í Austurríki er Kristín A. Árnadóttir.

„Það er gott að vera komin aftur til Vínarborgar,“ segir Þórdís Kolbrún, sem var sjálf í skiptinámi í borginni á árunum 2005-2006. „Borgin er stundum kölluð menningarhöfuðborg Evrópu og ég held að við getum verið sammála um að hún standi undir því nafni. Mikill fjöldi Íslendinga hefur komið til Austurríkis til náms, margir til að læra listgreinar og það sést í menningar- og listalífi Íslands. Okkur langar til að rækta og þróa samstarf okkar og vináttu.“

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta