Fréttapistill vikunnar 15. - 21. janúar
Sambýli og dagvist fyrir aldraða í Kópavogi
Nýtt sambýli og dagvist fyrir aldraða tók formlega til starfa í Roðasölum í Kópavogi í vikunni. Húsnæðið er sérstaklega hannað til að mæta þörfum einstaklinga með minnissjúkdóma. Þar er sambýli fyrir átta einstaklinga og dagvist fyrir tuttugu manns.
Rannsókn á meðgöngu- og fæðingarþunglyndi íslenskra kvenna
Þrír starfsmenn á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) hafa fengið styrk úr Rannsóknasjóði til viðamikillar rannsóknar á meðgöngu- og fæðingarþunglyndi íslenskra kvenna, félagslegum aðstæðum þeirra, notkun á geðvirkum efnum og tengslum þess við þroska barna þeirra. Þetta er verkefnisstyrkur til þriggja ára og nemur uppbæðin á þessu ári 3,3 milljónum króna. Með rannsókninni munu fást upplýsingar um þörf á þjónustu fyrir konur með meðgöngu- og fæðingarþunglyndi, mótaðar verða skimunar- og greiningaraðferðir og þar með lagður grunnur að árangursríkari íhlutun og þjónustu af hálfu mæðraverndar og geðheilbrigðiskerfisins, að því er fram kemur á heimasíðu LSH.
Frestur til að sækja um framlög út Framkvæmdasjóði aldraðra rennur út 1. febrúar.
Minnt er á að frestur til að skila inn umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóð aldraðra rennur út 1. febrúar nk. Upplýsingar um umsóknarferlið ásamt eyðublöðum eru aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins.
Umsóknareyðublöð o.fl....
Læknablaðið 90 ára
Um þessar mundir eru 90 ár frá því að Læknablaðið kom fyrst út og er blaðið eitt fárra tímarita hér á landi sem hafa svo langa samfellda útgáfusögu. Óskar Einarsson fylgir nýjasta tölublaði Læknafélagsins úr hlaði með grein þar sem hann rifjar upp útgáfusögu blaðsins. Þar kemur fram að upphaf útgáfunnar megi rekja til félagsfunda í Læknafélagi Reykjavíkur sem stofnað var árið 1909. Þóttu upplýsingar um það sem markverðast var á Íslandi í læknisfræðinni komast illa til skila, einkum til lækna utan Reykjavíkur sem sjaldan áttu heimangengt úr héröðum sínum. Því hafi skapast þörf fyrir sameiginlegan miðil um læknisfræði og félagsmál meðal íslenskra lækna. Í tilefni 90 ára afmælis blaðsins er í blaðinu að þessu sinni rifjuð upp útgáfusaga blaðsins með því að endurbirta fræðigrein frá hverjum áratug frá því það kom fyrst út. Þar má t.d. lesa grein um radíumlækningar eftir Gunnlaug Claessen sem birtist í Læknablaðinu árið 1918 og greinina ,,Glæpir og geðveiki” eftir Helga Tómasson sem birtist í læknablaðinu 1932. Þá er einnig fróðleg grein um heilsuverndarstarfsemi og skipulag heibrigðismála eftir Júlíus Sigurjónsson frá árinu 1939. Læknablaðið er aðgengilegt í heild sinni á slóðinni: http://www.laeknabladid.is