Fréttapistill vikunnar 22. - 28. janúar 2004
Ályktað um alheimsógn af völdum sýklalyfjaónæmis
Á fundi framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar (WHO) í Genf 22. janúar síðastliðinn var einróma samþykkt ályktun vegna alheimsógnar af völdum sýkla sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum (Antimicrobial resistance; a threat to global security). Ályktunin var borin fram af Davíð Á. Gunnarssyni, forseta framkvæmdastjórnarinnar og verður hún borin undir allsherjarþing WHO sem haldið verður í maí næstkomandi.
Nánar...
Áhrif reykinga á tannheilsu er viðfangsefni nýhafinnar tannverndarviku
Hin árlega tannverndarvika verður haldin 31. janúar til 6. febrúar. Að þessu sinni er lögð áhersla á áhrif reykinga á tannheilsu. Lýðheilsustöð hefur gefið út veggspjald með leiðbeiningum um tannheilsu og tóbak í samstarfi við Tannlæknafélag Íslands og er því m.a. dreift til grunnskóla, íþróttamiðstöðva, sundastaða, á tannlæknastofur og heilsugæslustöðvar. Langvarandi reykingar eða notkun á munntóbaki getur haft mikil áhrif á munnheilsu, aukin hætta er á ýmsum munnsjúkdómum og tannskemmdum. Talið er að notkun munntóbaks hafi aukist verulega á undanförnum árum, sérstaklega hjá ungu fólki.
Nánar...
Hátt nýgengi lungnakrabbameins á Íslandi og í Danmörku
Nýgengi krabbameina meðal kvenna á Íslandi er svipað og í Danmörku og er nýgengi hátt í báðum löndunum. Nýgengi lungnakrabbameins er hærra á Íslandi og í Danmörku en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta má rekja til meiri reykinga kvenna í þessum löndum og hvað Ísland varðar skiptir miklu að á síðustu öld byrjuðu íslenskar konur fyrr að reykja mikið borið saman við það sem tíðkaðist annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari heilbrigðisráðherra við fyrispurn um nýgengi krabbameins á Norðurlöndunum.
TR hefur útgáfu evrópskra sjúkratryggingakorta 1. maí
Tryggingastofnun ríkisins (TR) mun frá 1 maí næstkomandi gefa út evrópsk sjúkratryggingakort sem koma í stað sjúkratryggingavottorðanna E-111 og E-128. Frá þeim tíma hættir TR að gefa þessi vottorð út á pappírsformi. Gert er ráð fyrir að öll ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) hefji útgáfu á slíkum kortum í síðasta lagi í janúar 2006.
Nánar...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
28. janúar 2005