Fréttapistill vikunnar 29. janúar - 3. febrúar
Á þriðja hundrað manns sóttu ráðstefnu um hegðunarvanda og geðraskanir barna og unglinga.
Ráðstefna á vegum Barnaverndarstofu, Barna- og unglingadeildar LSH, Miðstöðvar heilsuverndar barna og Landlæknisembættisins um hegðunarvanda og geðraskanir barna og unglinga á Grand Hótel í Reykjavík 3. og 4. febrúar var vel sótt. Á þriðja hundrað manns skráði sig á ráðstefnuna og komust ekki allir að sem vildu. Á ráðstefnunni voru m.a. kynntar tillögur verkefnisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings, um samþættingu þjónustu og meðferðarúrræða á þessu sviði. Í ávarpi sem Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra hélt á ráðstefnunni kom fram að tillögurnar hafa verið til umfjöllunar í ráðuneytum heilbrigðis- félags- og menntamála að undanförnu en ekki hefur enn verið tekin formleg afstaða til þeirra. Ráðherra sagði einnig frá því í ávarpi sínu að hann hefði ákveðið að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á landsbyggðinni og hygðist leggja fram hátt í 20 milljónir króna til viðbótar því fé sem bundið er við einstakar stofnanir.
Ávarp ráðherra...
Hátt nýgengi brjósta- og lungnakrabbameins meðal kvenna á Íslandi og í Danmörku
Nýgengi krabbameina meðal kvenna á Íslandi er svipað og í Dannmörku þegar litið er á öll krabbamein. Nýgengi brjóstakrabbameins er hátt í báðum löndum og eins er nýgengi lungnakrabbameins hærra á Íslandi og í Danmörku en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í svari Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn um nýgengi krabbameins á Norðurlöndunum. Hátt nýgengi lungnakrabbameins meðal kvenna er einkum rakið til meiri reykinga kvenna á Íslandi og í Danmörku. Þá veldur einnig miklu að á síðustu öld byrjuðu íslenskar konur fyrr að reykja mikið borið saman við það sem tíðkaðist meðal kvenna á annars staðar á Norðurlöndunum.
Svar ráðherra...
Fyrirspurnir á Alþingi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur svarað 24 fyrirspurnum alþingismanna á yfirstandandi þingi, níu þeirra skriflega og fimmtán munnlega. Svör heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurnum á Alþingi eru aðgengileg á heimasíðu þingsins.
Fyrirspurnir og svör...
Forstjórar lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu funda í fyrsta sinn á Íslandi
Lyfjastofnun hefur tekið að sér að halda einn hinna hefðbundnu funda lyfjastofnana Evrópska efnahagssvæðisins og verður hann haldinn á Íslandi 23. – 24. febrúar n.k. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur fundur er haldinn á Íslandi. Reiknað er með að um 60 manns sitji fundinn. Frá þessu er sagt á heimasíðu Lyfjastofnunar.
Nánar...
Upplýsingar um starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss árið 2004 og biðlista í janúar 2005
Veruleg fjölgun hefur orðið á komum á göngudeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og er það í takt við áherslu spítalans um eflingu dag- og göngudeilda. Komum á dagdeild fækkaði frá fyrra ári, fyrst og fremst á geðsviði. Þetta kemur fram á heimasíðu sjúkrahússins. Komum á slysa- og bráðamóttökur spítalans hefur fjölgað frá fyrra ári. Fjöldi legusjúklinga er óbreyttur en meðallegutími er nú 8,2 dagar en var 8,9 dagar 2003. Fæðingum fjölgar en tíðni keisaraskurða lækkar. Tölulegar upplýsingar má nálgast á heimasíðu sjúkrahússins.
Nánar...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
4. febrúar 2004.