Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 12. - 18. febrúar

Meinatæknar verða lífeindafræðingar samkvæmt lagafrumvarpi

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um meinatækna nr. 99/1980 og lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1980. Með frumvarpinu er komið til móts við óskir meinatækna um að starfsheiti þeirra verði breytt úr meinatækni í lífeindafræðing og að ákvæði um að þeir starfi á ábyrgð og undir handleiðslu sérfræðings verði fellt brott. Í framsöguræðu sinni benti ráðherra á að í lögum um aðrar heilbrigðisstéttir með hliðstæða menntun og meinatæknar séu ekki ákvæði hliðstæð þessu og ,,verður ekki séð að nauðsynlegt sé að hafa sérstakt ákvæði í lögum um ábyrgð á störfum lífeindafræðinga fremur en annarra hliðstæðra stétta.?

Sjóslys seinkar byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar fyrir Heima- og Vogahverfi

Stálgrind í húsnæði nýrrar heilsugæslustöðvar fyrir Voga- og Heimahverfi sökk með Jökulfellinu sem fórst norðaustur af Færeyjum í síðustu viku. Miðað hefur verið við að Íslenskir aðalverktakar afhendi stöðina fullbúna um mánaámótin júlí ? ágúst en af fyrrnefndum ástæðum er ljóst að einhverj seinkun verður á því. Viðræðum milli verksala og verkkaupa vegna málsins er ekki lokið. Nýja heilsugæslustöðin verður í Glæsibæ í húsnæði sem byggt verður ofan á aðra álmu verslunarmiðstöðvarinnar.

 

Verkefnastjóri gæðamála og stefnumótunar ráðinn við FSA

Ráðinn hefur verið verkefnastjóri á sviði gæðamála og stefnumótunar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Unnið hefur verið að mörgum verkefnum á sviði gæðamála hjá sjúkrahúsinu á undanförnum misserum. Stefnumótun sjúkrahússins hefur verið í endurskoðun og unnið er að innleiðingu samhæfðs árangursmats fyrir alla starfsemi þess. Til starfans hefur verið ráðinn Bjarni Jónasson. Bjarni hefur langa reynslu af stjórnun og rekstri og starfaði síðast sem rekstrarráðgjafi hjá IMG ráðgjöf. Bjarni hefur jafnframt verið ráðinn forstöðumaður Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans á Akureyri. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu FSA.
http://www.fsa.is

 

Geðveikir dagar ? söfnun til styrktar byggingarsjóði BUGL

Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi og barna og unglingageðdeild, BUGL standa nú fyrir ,,geðveikum dögum? vikuna 14. ? 21. febrúar. Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar í forvarnarskyni og til að fræða unglinga um allt land um geðheilbrigði. Hins vegar að safna fé til styrktar byggingarsjóði BUGL. Um helgina munu unglingar selja armbönd með áletruninni ,,GEÐVEIKT!?, bæði með því að ganga í hús en einnig verða þeir í stórmörkuðum og á öðrum stöðum þar sem mikið er um að vera.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
18. febrúar 2005.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta