Gagnagrunnur sóttvarnarlæknis um bólusetningar verðlaunaður
Nýr gagnagrunnur sóttvarnalæknis um bólusetningar sem verið er að koma á laggirnar, hlaut í dag verðlaun IcePro sem er samstarfsvettvangur ríkis og einkafyrirtækja um eflingu rafrænna samskipta. Verkefnið er eitt margra sem falla undir Íslenska heilbrigðisnetið sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með. Þórólfur Guðnason, yfirlæknis á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins tók við verðlaununum úr hendi Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra. Sóttvarnarlæknir hefur unnið að verkefninu frá því á miðju ári 2003. Safnað er á sjálfvirkan hátt skráningum um bólusetningar frá ellefu heilsugæslustöðvum í Reykjavík og þremur heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Áætlað er að fyrsta áfanga verkefnisins ljúki á næstu 2 - 3 mánuðum en stefnt er að því að síðar muni skráningin ná til alls landsins. Með miðlægri skráningu allra bólusetninga fá heilbrigðisyfirvöld upplýsingar um þær jafnóðum. Þannig er hægt að fylgjast náið með því hve vel börn og eldra fólk er bólusett, meta hættu á alvarlegum faröldrum og fylgjast með öryggi bólusetninga. Talið er líklegt að bólusetningagrunnurinn muni ryðja brautina fyrir önnur verkefni sem snúa að rafrænum flutningi upplýsinga í heilbrigðiskerfinu. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu landlæknis.
|