UNICEF á Íslandi opnar UNICEF-Akademíuna
Í gær opnaði UNICEF á Íslandi nýjan rafrænan fræðsluvettvang sem ber heitið UNICEF-AKADEMÍAN. Opnunin fór fram í húsakynnum Akademías í Borgartúni. Í UNICEF-Akademíunni er boðið upp á fræðslumyndbönd og námskeið fyrir börn og fullorðna, ásamt réttindafræðsluefni fyrir skóla. UNICEF á Íslandi hefur það að markmiði að auka þekkingu á réttindum barna og UNICEF-Akademían er því opin öllum og gjaldfrjáls.
„Við höfum einbeitt okkur að réttindafræðslu undanfarin ár með það að markmiði að byggja upp þekkingu á Barnasáttmálanum, jafnt meðal barna og innan stjórnkerfisins, og stuðla þannig að betri ákvörðunatöku þegar kemur að málefnum barna. Þekking er grunnurinn að öllum framförum og lykillinn að árangri í réttindabaráttu,“ segir Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri innanlandsteymis UNICEF á Íslandi.
Á heimasíðu Akademíunnar er að finna námskeið fyrir sveitarfélög og skóla, ásamt áhugaverðu fræðsluefni fyrir börn og fullorðna þar sem sérfræðingar UNICEF fræða um mannréttindi og Barnasáttmálann og Ævari Þór Benediktssyni, sendiherra UNICEF á Íslandi, meðal annars bregður fyrir.
Jafnt aðgengi að réttindafræðslu um allt land
Undanfarin ár hefur UNICEF á Íslandi frætt mikinn fjölda barna og starfsfólks sveitarfélaga í gegnum verkefnin Barnvæn sveitarfélög, Réttindaskóli og -frístund og UNICEF-Hreyfinguna. Verkefnin eru unnin um allt land og mun rafrænn fræðsluvettvangur tryggja jafnt aðgengi barna og fullorðinna að fræðslu sem byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Sérstakur gestur á opnun UNICEF-Akademíunnar var Marie Wernham, sérfræðingur hjá UNICEF í réttindafræðslu, sem brýndi fyrir gestum opnunarinnar hversu mikilvægt það er að allir læri um réttindi barna. Þá fjallaði Hjördís Freyja Kjartandsdóttir, meðlimur ungmennaráðs UNICEF, um mikilvægi þess að sýna börnum þá virðingu sem þau eiga skilið, gefa börnum rödd og að hlusta á hugmyndir þeirra og skoðanir. „Það er svo ótrúlega mikilvægt að þið, fullorðna fólkið, hlustið á okkur og takið þeirri fræðslu sem þið fáið alvarlega og með opnum augum. Við hjá UNICEF sjáum börn sem unga borgara og réttindahafa nútímans sem eru hæf í að taka ákvarðanir í málefnum sem tengjast þeim. [...] Við verðum að vinna saman, bera virðingu fyrir hvort öðru og efla framtíðina,“ sagði Hjördís, og uppskar mikið lófaklapp.
Við hvetjum alla að kynna sér fræðsluvettvanginn UNICEF-Akademían í kynningarmyndbandi HÉR og skoða þá fræðslu sem er öllum opin að kostnaðarlausu á www.unicef.is.
Verkefnið er styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneytinu og áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt og þróað í samstarfi við Akademías.
https://www.unicef.is/thekking-er-lykillinn-ad-arangri-i-rettindabarattu