Hoppa yfir valmynd
29. júní 2001 Dómsmálaráðuneytið

Vígsla á nýju húsi sýslumannsins í Kópavogi

Vígsla á nýju húsi sýslumannsins í Kópavogi 29. júní 2001
Ávarp dómsmálaráðherra



Sýslumaður, alþingismenn kjördæmisins, sveitarstjórnarmenn og aðrir góðir gestir.

Mér er það sérstök ánægja að standa hér með ykkur í dag á tímamótum fyrir embætti sýslumannsins í Kópavogi. Kópavogur er meðal annars vel þekktur fyrir það úr sögu Íslands að hér gengust Íslendingar danska einveldinu á hönd. Á síðustu árum hefur bærinn hins vegar fengið annað og skemmtilegra hlutverk, því hingað hefur fólk streymt í þúsundatali, bæði til að búa og starfa. Hefur verið skemmtilegt að fylgjast með bænum breytast úr úthverfi eða svefnbæ í stórt samfélag með öflugu atvinnulífi auk lista- og menningarlífs.

Við erum hér í dag viðstödd vígslu glæsilegrar byggingar, sem hýsir bæði starfsemi sýsluskrifstofunnar og lögreglunnar. Er hér um mikilvægt framfaramál að ræða fyrir embættið. Í sögu þessa embættis, sem nú spannar næstum því hálfa öld, hefur það nú í fyrsta skipti flust í húsnæði, sem er sérstaklega innréttað fyrir starfsemi þess og sniðið að henni.

Hingað flytur embættið úr húsnæði við Auðbrekku þar sem það hefur verið síðan árið 1978. Þá voru íbúar í umdæminu innan við 13.000 talsins en þeir eru nú tæplega 24.000. Auk þessarar fjölgunar hafa margvísleg verkefni verið færð til embættisins á þeim tíma, sem síðan er liðinn. Þarf því engan að undra að húsið í Auðbrekku var sprungið utan af embættinu. Er óhætt að fullyrða að flutningurinn í þetta glæsilega hús feli í sér byltingu fyrir starfsemi bæði sýsluskrifstofunnar og lögreglu.

Það er til marks um breyttar áherslur í rekstri ríkisins, að það þótti til skamms tíma sjálfsagt að ríkið sæi sjálft um að byggja fyrir eigin reikning allt húsnæði, sem það þurfti á að halda. Í þessu húsi sjáum við dæmi um það hve langt er hægt að ná með því að nýta til fulls þann kraft, sem býr í atvinnulífinu á hverjum stað. Að undangengnu útboði var í apríl í fyrra samið við gamalgróið fyrirtæki hér í bænum, Málningu hf., um að það reisti húsið og innréttaði það fyrir starfsemi embættisins, en jafnframt var samið um leigu á húsinu til 25 ára. Ég tel það hafið yfir vafa, að þessi viðskipti hafa fært embættinu sérlega hentugt og gott hús á hagstæðari kjörum en unnt hefði verið að ná með öðrum hætti.

Það er skoðun mín að mikill árangur hafi náðst í starfsemi sýslumannsembættisins í Kópavogi á þeim uppgangstímum, sem verið hafa í bænum á undanförnum árum. Það ber að hafa í huga að hvergi á landinu eru fleiri íbúar að baki hverjum lögreglumanni en hér í Kópavogi og þarf gott skipulag og samhent lögreglulið til að halda uppi öflugri löggæslu í svo fjölmennu umdæmi. Það sama má segja um sýsluskrifstofuna, að áberandi er hve miklu verki tiltölulega fáir starfsmenn ná að sinna. Hér hafa starfsmenn skrifstofunnar í félagi við sýslumann einnig unnið áberandi gott starf á grundvelli árangursstjórnunarsamnings, sem ráðuneytið gerði við embættið, og nýlega staðfesti ég nýtt skipurit fyrir embættið, sem ég lít á sem afrakstur þeirrar vinnu.

Ég er sannfærð um að sú ágæta aðstaða sem starfsfólki sýslumannsembættisins er búin hér hefur jákvæð áhrif á störf þess. Það er auðvitað ekkert álitamál að vellíðan fólks á vinnustað hefur hvetjandi áhrif og bætir vinnuafköst. Hér er starfsfólkinu búin nútímaleg aðstaða. Hingað sækir fólk í umdæminu margvíslega þjónustu, og það er vissulega ánægjulegt, að Kópavogsbúar geta verið stoltir af því að koma í svo reisulegt hús hér í hjarta bæjarins.

Að lokum langar mig til þess óska sýslumanni, Þorleifi Pálssyni, starfsfólki embættisins og öllum íbúum umdæmisins hjartanlega til hamingju með húsið. Það er von mín, að það starf sem hér verður unnið marki líka gæfuspor í sögu embættisins og að framtíð þess verði björt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta