Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í Reykjavík 2022
Samkomulag við Evrópsku kvikmynda akademíuna um Evrópsku kvikmyndaverðlaunin var undirritað í Höfða í dag. Vegna heimsfaraldurs var Evrópsku kvikmyndaverðlaununum 2020 frestað en hátíðin verður haldin í Hörpu 10. desember nk. Viðstaddur undirritunina var Matthijs Wouter Knol forstjóri Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.
Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu og varð Reykjavík fyrir valinu að þessu sinni. Hátíðin laðar að sér fjölmarga erlenda gesti og ljóst er að hún stuðlar að öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Reykjavík sem áfangastað og tökustað fyrir kvikmyndir. Gert er ráð fyrir hátt í 1.200 gestum á verðlaunahátíðina sjálfa frá allri Evrópu auk þess sem von er á tvö hundruð erlendum blaðamönnum til Íslands.
Stuðningur við hátíðina er meðal annars í takt við Kvikmyndastefnu Íslands þar sem lögð er áhersla á miðlun og stuðning við viðburði sem þennan. Bein útsending verður frá verðlaunakvöldinu í Hörpu og mun útsendingin ná til fjölmargra Evrópulanda.
„Svona stórt og margþætt verkefni vinnst ekki nema í góðu samstafi við sterka samstarfsaðila. Markmið okkar er að sýna fram á sérstöðu Íslands og leggja m.a. áherslu á listir, sköpun, hugvit og grænar lausnir í kynningaráherslum“. Þetta er geysilega spennandi tækifæri fyrir íslenska kvikmyndamenningu og kvikmyndageirann hér á landi og við munum nýta það vel, viðburðurinn mun að auki skapa umtalsverðar gjaldeyristekjur“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
„Það er mikill heiður fyrir Reykjavík að taka þátt í þessu stóra verkefni sem evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru. Við hlökkum til að taka á móti erlendum gestum og sýna þeim allt það sem borgin hefur upp á að bjóða. Með glæsilegri hátíð og hliðarviðburðum sem henni fylgja fáum við mikilvægt tækifæri til að markaðsetja menningarborgina Reykjavík, kvikmyndaborgina Reykjavík og skapandi greinar almennt“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.