Hoppa yfir valmynd
26. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 130/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 130/2016

Miðvikudaginn 26. október 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 30. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. mars 2016 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 9. september 2015. Með örorkumati, dags. 2. mars 2016, var umsókn kæranda synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur frá 1. nóvember 2015 til 28. febrúar 2018. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar fyrir ákvörðuninni með tölvubréfi, dags. 14. mars 2016, og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 21. mars 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. apríl 2016. Með bréfi, dags. 4. apríl 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 8. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 12. október 2016, barst læknabréf frá kæranda og var það sent Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. október 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að vera metin til 75% örorku tímabundið þar sem hún geti hvorki sinnt almennilegu heimilishaldi, daglegum athöfnum né vinnu til fulls. Hún hafi verið metin til 50% örorku sem samsvari örorkustyrk. Þessi ákvörðun setji hana í enn verri aðstöðu og setji mikið mark á hennar andlegu og líkamlegu líðan. Því kæri hún ákvörðun Tryggingastofnunar.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingarstofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Við matið sé stuðst við staðal Tryggingarstofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar greiðist þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 2. mars 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 29. september 2015, umsókn kæranda, dags. 25. október 2015, svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 25. október 2015 og skýrsla skoðunarlæknis Tryggingastofnunar, dags. 26. janúar 2016.

Í skýrslu skoðunarlæknis Tryggingastofnunar komi fram að kærandi geti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp, hún geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað, hún geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfi og rétt sig upp aftur, hún geti ekki staðið nema í þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Öll þessi svör gefa þrjú stig hvert, samtals tólf stig í líkamlega hlutanum. Í andlega hlutanum komi fram í skýrslu skoðunarlæknis að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður, geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins, svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf og kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar muni versna fari hún aftur að vinna. Öll þessi svör gefi eitt stig hvert, samtals fjögur stig. Kærandi hafi þannig hlotið tólf stig í líkamlega hluta örorkumatsstaðalsins og fjögur stig í þeim andlega. Þetta nægi ekki til þess að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli, en kærandi hafi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks og hann hafi því verið veittur.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. mars 2016, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 29. september 2015, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreining kæranda sé sem hér greinir:

„Aðrar liðþófaraskanir,

Gigt, ótilgreind,

Mjóbaksverkur

Óvefræn svefnröskun, ótilgreind“

Í læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

„X árs kona með sögu um króníska mjóbaksverki, annars hraust. Nú að verða komin 2 ár síðan hún varð óvinnufær, X. Byrjaði með skyndilegum mjóbaksverkjum, var send suður og gerð acute MRi,sýndi L4-L5 útbungun í hæ. liðþófa sem gaf létta innbungun á mænusekk framan til, var ekki það mikið að gera þyrfti aðgerð á.

Síðan í X hefur hún verið í endurhæfingu, og er núna á endurhæfingarlífeyri. Hún er alltaf með verki og ef hún reynir of mikið á sig, þá verður leiðnin niður í fætur meiri og hún haltrar það sem eftir er dags.

Hún hreyfir sig daglega, eins og hún getur, vinnur klukkutíma á dag við að elda mat, það er erfitt fyrir bakið en bjargar sálarlífinu segir hún. Hún á erfitt með að vera heima, leiðist og langar ekkert heitar en að komast aftur í vinnu. Hún er í sjúkraþjálfun og hjá kiropraktor á C, og stundar æfingar heima af krafti.

Faðir hennar og móðir hans, voru með spondyl-arthrosu. CT af lendarhrygg 2015, sýnir ekki fram á spondyl-arthrosu hjá henni. MRI af lendarhrygg 2013 sýnir lítið brjósklos en engar taugaklemmur.

Þann X sendi ég hana acute […] vegna mikillar versnunar í bakverkjum, eins og gerðist í X. Núna var þvag og hægða-retention og kraftminnkun í báðum fótum. Hún var ósjálfbjarga, gat sest upp frá liggjandi stöðu notandi bómuna yfir rúminu og þurfti að nota hækjur til að geta staðið. Hún gat ekki lagst í rúmið aftur sjálf, því hún hafði ekki fæturnar upp aftur.

Uppvinnsla á LSH sýndi ekki fram á neinn taugasjúkdóm né neitt operativt. Fengið var álit D heila- og taugaskurðlækni sem taldi ekki að brjósklosið klemmdi að rótum né væri að valda mótorbrottfalli. Núna er hún aftur komin á byrjunarreit, síðasta 1,5 ár farið í súginn með tilheyrandi sorg og depurð. Er að rífa sig upp og langar ekkert heitar en að komast í virkni og komast út af heimilinu.

Hún er búin að prófa ýmislegt, 100 daga á sýklalyfi og er núna að prófa naloxon í míní skömmtum, 3-4,5 mg á dag (mixdúra).

Hún var komin í vinnu, 1-2 tíma á

Fyrra heilsufar

Krónískir mjóbaksverkir síðan X. Slæm af grindarlosi með barn nr. 2 og 3, mun verri eftir barn nr. 3.“

Um skoðun á kæranda, sem fram fór 29. september 2015, segir svo í vottorðinu:

„Grönn og samsvarar sér vel í aldri.

Grætur í viðtali, ósátt við ástandið. Depurð og uppgjöf eftir að hafa lent á byrjunarreit aftur. Hugsun og tal eðlilegt að flæði og formi. Innsæi og dómgreind góð.

Bak:

Skert hreyfigeta í baki, við allar hreyfingar, verkir við þreyfingu á mjóbaksvöðvum. Ekki haltrandi né með leiðni niður í fætur í skoðun, hef þó oft séð hana haltrandi, þá mest seinni partinn.“

Í læknisvottorði B kemur fram að hún telji kæranda óvinnufæra frá 27. apríl 2015.

Einnig liggur fyrir starfsgetumat frá VIRK, dags. 23. október 2015. Í niðurstöðu sérfræðings segir svo:

Klínískar niðurstöður: Verið hjá kiropractor, í þjálfun, stundað sund, verið hjá sjúkraþjálfara. Notið stuðnings ráðgjafa.

Staðan í dag og horfur: Hefur fengið endurhæfingu á sínum heimaslóðum eins og best verður á kosið, er hvorki þjökuð af erfiðum félagslegum aðstæðum, né tilfinningalegum erfiðleikum. Verður því að telja þá endurhæfingu sem hún hefur nýtt sér vera viðunandi. Er á bið eftir meðferð á verkjasviði Reykjalundar og sömuleiðis í Stykkishólmi. Ætti að geta nýtt sér verkjaskóla Reykjalundar hugsanlega í fjarnámi svokölluð FMOS braut.

[…]

Samantekt:

Kona sem að er með verkjaheilkenni frá baki ásamt dreifðu verkjaheilkenni sem að hefur fengið greininguna vefjagigt. Þreytt suma daga og veruleg sveifla í líðan hjá henni en jafnt og þétt skánandi. Er metin hér með athafnir daglegs lífs með um 50% starfsgetu til léttari starfa. Jafnframt er búið að ganga frá beiðni um örorkumat og eðlilegast að láta starfsendurhæfingu á vegum VIRK lokið. Henni er bent á að hún geti snúið sér til Sjóðsins síðar ef á þarf að halda. En jafnframt hvött til að nýta sér úrræði hins almenna heilbrigðiskerfis þar með fjarnám á vegum verkjasviðs Reykjalundar.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni barst nýtt læknisvottorð B, dags. 12. október 2016. Þar kemur meðal annars eftirfarandi fram:

„ Stöðugir bakverkir, versna við álag, fær leiðni niður í fætur og haltrar þegar slæm.

[…]

MRI júlí 2016 sýndi Deg. breytingar, mest L4-L5 en ekki sýnt fram á neina taugarótar affection.

Fékk mjög slæm köst bæði 2013 og 2014, motorbrottfall í báðum ganglimum, þvag og hægða retendion, talið vera acute brjósklos, send suður í bæði skiptin, en MRI og einkenni voru ekki samkvæm.

Hún hefur prófað ýmislegt, td 100 daga á sýklalyfi, naloxon í míní skömmtum, 3-4,5 mg á dag (mixdúra), parkódin, íbúfen, gabapentin og fleira. Ekkert virkar í lengri tíma. Er nú með tradolan, virkar vel, má taka max 7 töflur á viku.

Sefur illa vegna verkja, er þá mun verri daginn eftir.

Má lítið reyna á sig, ef þá oft alveg frá í nokkra daga á eftir. Er stöðugt að halda aftur af sér, sérstaklega ef hún á góða verkjalitla daga. Hún er göngudeildarsjúklingur á Reykjalundi, fer þangað annað veifið í 2-3 daga í senn. Búið er að sækja um í Þraut í von um að hægt sé að vinna með hennar vefjagigt meira og bæta líðan.

Hennar aðal vandamál er vefjagigtin. Stýrir hennar lífi og veldur óvinnufærni og minni lífsgæðum. Hún er að gera allt sem í hennar valdi stendur til að bæta sitt ástand.

Vefjagigt er viðurkenndur sjúkdómur, miðlæg verkjanæming, og vel þekkt að erfitt er að eiga við hann, engin ein meðferð virkar á alla. A er að finna hvað virkar fyrir sig, hefur ekki fundið lausnina enn en stefnir að því. Hún sýnir mikla þrautseigju og vilja í verki með að stunda æfingar og hreyfingu daglega. Hún vill komast í vinnu og ætlar sér ekki að vera á örorkubótum framvegis, en eins og staðan er í dag, er hún ekki vinnufær og því ekki um annað að velja. Óska eftir að ákvörðun um að hafna henni tímabundinni örorku verði endurkskoðuð.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 25. október 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með stoðkerfisvandamál, brjósklos og vefjagigt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja þannig að hún geti setið í skamman tíma í senn. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa svarar hún þannig að hún eigi erfitt með að beygja sig niður í gólf til að tína upp dót en dagarnir séu misjafnir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún geti staðið en þó ekki í marga tíma í senn. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga svarar hún þannig að það sé misjafnt eftir dögum, yfirleitt sé allt í lagi en suma daga sé það mjög óþægilegt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að það sé erfitt að teygja sig fram og niður en það sé í lagi að teygja sig upp. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera svarar hún þannig að hún geti ekki borið þungt, oft sé erfitt að lyfta yngsta barninu sem sé X ára. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða neitandi.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 26. janúar 2016. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur og kærandi geti ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi eigi ekki við líkamlega færniskerðingu að etja. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Þá kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Í meðalholdum. Hreyfir sig lipurlega. Beygir sig og bograr án verulegs vanda, kvartar þó um óþægindi í mjóbaki. Hreyfi- og þreifieymsli í mjóbaki og talsverð vöðvaeymsli í herðum. Álagseymsli á mjaðmagrind koma fram í hægri nára. SLR u.þ.b. 70° beggja vegna, stuttir Hamstringsvöðvar, ekki rótarverkur. Ekki óþægindi við álag á SI-liði að því er virðist.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Viss depurðareinkenni. Hefur ekki verið mikið skoðað samkvæmt gögnum málsins og engin meðferð.“

Skoðunarlæknir lýsir atferli kæranda svo:

„Gefur þokkalega sögu. Situr kyrr í viðtali. Grunnstemning virðist vægt lækkuð. Verður meyr í viðtali þegar hún lýsir vandræðum sínum.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að kærandi geti stundum ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals metur skoðunarlæknir því líkamlega færniskerðingu kæranda til tólf stiga. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals er því andleg færniskerðing kæranda metin til fjögurra stiga samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin gerir þá athugasemd við skoðunarskýrslu að í læknisvottorði B, dags. 29. september 2015, kemur fram að kærandi gráti í viðtali og sé ósátt við ástandið. Úrskurðarnefndin telur framangreint gefa til kynna að kærandi ergi sig yfir því sem hafi ekki angrað hana fyrir veikindin en skoðunarlæknir telur svo ekki vera. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þetta atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins þar sem það gefur einungis eitt stig samkvæmt staðlinum. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk tólf stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og gæti að hámarki fengið fimm stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta