Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 278/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 278/2016

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 29. júlí 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 22. júní 2016, um félagslega heimaþjónustu í formi vikulegra þrifa.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið félagslega heimaþjónustu í formi þrifa tvisvar sinnum í mánuði frá því í febrúar 2009. Með umsókn, dags. 2. júní 2016, sótti kærandi um félagslega heimaþjónustu í formi vikulegra þrifa. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 7. júní 2016, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið samþykkta heimaþjónustu tvisvar sinnum í mánuði. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 22. júní 2016 og staðfesti mat starfsmanna þjónustumiðstöðvar á félagslegri heimaþjónustu með vísan til 7. gr. reglna um heimaþjónustu í Reykjavík.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. júlí 2016. Með bréfi, dags. 2. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 15. september 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 3. október 2016 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé fædd með mikla hryggskekkju og hjartagalla. Undanfarin tvö ár hafi hún átt erfiðara með heimilisþrifin og því hafi hún sótt um hjá Reykjavíkurborg að fá vikuleg þrif í stað hálfsmánaðarlegra. Kærandi tekur fram að umsókn hennar hafi ekki verið svarað fyrr en löngu síðar og að hún hafi mætt miklu skilningsleysi og virðingarleysi hjá starfsmönnum velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar.

Kærandi tekur fram að hún hafi neyðst til að sækja um vikuleg þrif þar sem hún hafi iðulega verið rúmliggjandi í nokkra daga eftir að hafa sjálf þrifið heimili sitt. Kærandi bendir á að hún eigi erfitt með andardrátt vegna ryks sem berist inn til hennar frá byggingarframkvæmdum við húsið. Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar er vísað til læknisvottorðs þar sem fram komi að hún geti ekki unnið erfið heimilisstörf og þurfi því á mikilli heimilishjálp að halda.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að mat á þjónustuþörf kæranda hafi farið fram í samræmi við 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslega heimaþjónustu. Starfsmenn Reykjavíkurborgar, matsfulltrúi og teymisstjóri hafi farið á heimili kæranda og metið aðstæður. Niðurstaða þess mats hafi verið sú að mat á þjónustuþörf kæranda hefði ekki breyst frá fyrra mati og því yrði aðstoð við almenn heimilisþrif áfram veitt aðra hvora viku. Ekki hafi verið talin þörf á að veita undanþágu, í samræmi við 4. gr. reglnanna, frá þeirri almennu reglu að veita aðstoð við almenn heimilisþrif aðra hvora viku. Miðað sé við að sú undanþága sé aðeins veitt ef bein tengsl séu á milli veikinda umsækjanda og þrifnaðar, svo sem ef um lungnasjúkdóm sé að ræða eða ef aðstæður séu þannig að mikil óhreinindi berist inn í húsnæði, svo sem ef umsækjandi sé í hjólastól.

Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri kæranda um félagslega heimaþjónustu í formi vikulegra þrifa á grundvelli 7. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar. Ljóst sé að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um félagslega heimaþjónustu né VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Reykjavíkurborgar um félagslega heimaþjónustu til kæranda í formi vikulegra þrifa.

Fjallað er um rétt til félagslegrar heimaþjónustu í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 25. gr. laganna skal sveitarfélag sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 26. gr. kemur fram að með félagslegri heimaþjónustu skuli stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Með félagslegri heimaþjónustu er átt við hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegan stuðning, gæslu og umönnun barna og unglinga, sbr. 27. gr. laganna. Þá segir í 28. gr. laganna að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki og læknisvottorð skuli liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður sé að ræða.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 er sveitarstjórn gert að setja nánari reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu með reglum um félagslega heimaþjónustu sem samþykktar voru í borgarráði 18. maí 2016.

Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna kemur fram að aðstoð við heimilishald sé veitt þeim sem ekki geti sinnt heimilishaldi án aðstoðar vegna hreyfihömlunar, langvarandi veikinda, skertrar færni eða skertrar andlegrar getu. Aðstoð við heimilishald geti meðal annars falið í sér aðstoð á matmálstíma, við innkaup á nauðsynjavörum og almenn heimilisþrif. Í 4. mgr. 4. gr. reglnanna kemur fram að gert sé ráð fyrir að umsækjandi taki þátt í heimilisþrifum eftir því sem kostur er. Aðstoð við almenn heimilisþrif takmarkist við þau herbergi sem séu í daglegri notkun, svo sem eldhús, salerni, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu. Aðstoðin sé alla jafna veitt aðra hvora viku en heimilt sé að gera undantekningu á tíðni þrifa ef þörf sé á vegna veikinda.

Í 7. gr. reglnanna er kveðið á um mat á þjónustuþörf. Þar segir að mat fari fram á heimili umsækjanda eins fljótt og auðið er eftir að umsókn berist og aðstæður séu kannaðar og metnar. Við mat á þjónustuþörf sé tekið sérstakt tillit til sjónarmiða umsækjanda, færni hans til að sinna athöfnum daglegs lífs, félagslegrar stöðu og fjölskylduaðstæðna. Leitast sé við að veita þá þjónustu sem umsækjandi eða aðrir heimilismenn séu ekki færir um að annast sjálfir.

Þegar metið er hvort sú þjónusta sem deilt er um í málinu uppfylli kröfur laga nr. 40/1991 verður að líta til þess að af hálfu Reykjavíkurborgar hafa verið settar reglur um fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem í boði er. Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar velferðarmála að taka ákvarðanir um þjónustuþörf einstaklinga heldur einskorðast endurskoðun nefndarinnar við að fjalla um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar, sbr. 64. gr. a laga nr. 40/1991. Líkt og að framan greinir gera reglur Reykjavíkurborgar um félagslega heimaþjónustu ráð fyrir að aðstoð við almenn heimilisþrif sé alla jafna veitt aðra hvora viku og hefur kærandi notið slíkrar þjónustu frá febrúar 2009. Heimilt er þó að gera undantekningu á tíðni þrifa ef þörf sé á vegna veikinda.

Samkvæmt gögnum málsins fór fram mat á þjónustuþörf kæranda og niðurstaða þess mats var sú að þjónustuþörfin hefði ekki breyst frá fyrra mati. Því yrði aðstoð við almenn heimilisþrif áfram veitt aðra hvora viku en ekki hafi verið talin þörf á að veita undanþágu, í samræmi við 4. gr. reglnanna, frá þeirri almennu reglu að veita aðstoð við almenn heimilisþrif aðra hvora viku. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að tengsl þurfi að vera á milli veikinda umsækjanda og þrifnaðar, svo sem ef um lungnasjúkdóm sé að ræða eða ef aðstæður séu þannig að mikil óhreinindi berist inn í húsnæði, svo sem ef umsækjandi sé í hjólastól. Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir mat Reykjavíkurborgar og bendir á að undanþáguákvæði ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Að mati úrskurðarnefndarinnar er málefnalegt að líta til tengsla á milli veikinda umsækjanda og þrifnaðar við mat á því hvort veiti eigi undanþágu frá hinni almennu reglu um þrif aðra hvora viku. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á gögn málsins með hliðsjón af framangreindu, þar með talið læknisvottorð B frá 17. apríl 2015 og 29. september 2016, og gerir ekki athugasemd við mat Reykjavíkurborgar á þjónustuþörf kæranda. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 22. júní 2016, um að synja umsókn A, um félaglega heimaþjónustu í formi vikulegra þrifa er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta