Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Forsætisráðuneytið

A-450/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.

A-450/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.


ÚRSKURÐUR

Hinn 24. október 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-450/2012.

Kæruefni og málsatvik
Með bréfi, dags. 27. júlí 2012, kærði [A], f.h. [B], synjun Ríkisútvarpsins ohf., dags. 2. júlí, á beiðni hans, dags. 25. júní, um aðgang að gögnum er vörðuðu þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að kaupa ekki kvikmyndina [...].

Atvik málsins eru þau að með bréfi, dags. 25. júní, óskaði kærandi eftir því að sér yrðu afhent  afrit af öllum gögnum er vörðuðu ákvörðun Ríkisútvarpsins um kvikmyndina [...], þ.e. óskað var eftir lista yfir málsgögn, öllum gögnum er málið vörðuðu, svo sem tölvupóstum, gögnum um leiðbeinandi vinnureglur og gæðastaðla, sbr. 9. gr. laga nr. 50/1996. Þá var óskað eftir dagbókarfærslum, sem lytu að gögnum málsins og sambærilegum málum þar sem við ætti. Að lokum var óskað eftir staðfestingu á móttöku efnis á mynddiski, m.a. frá maí 2010 og janúar 2009.

Í bréfinu segir jafnframt að gerð sé krafa um að upplýsingar komi fram til skýringar á því sem fram komi í tölvupóstum Ríkisútvarpsins til kæranda, dags. 24. febrúar og 18. júní 2012.

Fyrir liggur bréf Ríkisútvarpsins, dags. 2. júlí, þar sem vísað er til beiðni kæranda, dags. 25. júní, um aðgang að nánar tilgreindum gögnum. Kemur fram í bréfinu að engin skjalleg gögn séu til í fórum Ríkisútvarpsins sem falli undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. lög nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið, er varði þá ákvörðun að kaupa ekki myndina [...].

Í kæru málsins kemur fram að óskað hafi verið eftir aðgangi að fleiri gögnum en beinlínis séu talin upp í beiðninni, dags. 25. júní. Eru af því tilefni settar fram þær kröfur að öllum fyrirspurnum í bréfi, dags. 25. júní, sé svarað samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996

Málsmeðferð
Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. ágúst, var kæran send Ríkisútvarpinu til athugasemda. Með tölvupósti, dags. 8. ágúst, frá Juris lögmannsstofu er vísað til bréfs Ríkisútvarpsins, dags. 2. júlí, þar sem tiltekið sé að engin skjalleg gögn séu til í fórum Ríkisútvarpsins sem falli undir gildissvið upplýsingalaga, og varði þá ákvörðun að kaupa ekki myndina [...].

Í tilefni tölvupóstsins sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál framangreindri lögmannsstofu bréf, dags. 10. ágúst, þar sem kom fram að af svari Ríkisútvarpsins, dags. 2. júlí, verði ekki ráðið með fullnægjandi hætti að engin gögn séu til í fórum Ríkisútvarpsins er varði ákvörðunina. Var ítrekað að væru einhver gögn fyrirliggjandi varðandi ákvörðunina, yrðu þau afhent nefndinni í trúnaði, eigi síðar en 20. ágúst.

Kærði svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 31. ágúst. Segir þar orðrétt:

„Einu gögnin í fórum RÚV, sbr. síðara erindi úrskurðarnefndarinnar, er tengjast kæruefninu, eru nokkur tölvubréf milli starfsmanna innanhúss og sem fylgja erindi þessu sem trúnaðarmál. Svo sem þessi tölvubréf bera með sér geta þau trauðla talist til gagna sem varða tiltekið mál í skilningi laga nr. 50/1996, hvort heldur í skilningi 3. eða 9. gr. laganna. Í öllu falli sé ljóst að gögnin myndu, hvað sem öðru líður, alltaf flokkast til „vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota“, sbr. 3. tölul. 4. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna.

Málsmeðferð RÚV, bæði hvað varðar form og efni, er þannig í fullu samræmi við lög nr. 50/1996.

Ber samkvæmt áðursögðu að hafna öllum kröfum kæranda, að því marki sem þeim verður ekki vísað frá nefndinni.“

Með bréfi Ríkisútvarpsins fylgdu eftirfarandi tölvupóstsamskipti starfsmanna stofnunarinnar:
1. Tölvupóstur [C], dags. 31. maí 2012, kl. 10:29, til [D].
2. Tölvupóstur [C], dags. 15. júní 2012, kl. 16:00 til [D].
3. Tölvupóstur [C], dags. 15. júní 2012, kl. 16:39, til [D].
4. Tölvupóstur [D], dags. 18. júní 2012, kl. 12:19, til [C].
5. Tölvupóstur [C], dags. 18. júní 2012, kl. 12:21, til [D].

Allir framangreindir tölvupóstar bera efnislínuna [...].

Með bréfi, dags. 3. september, var kæranda kynnt framkomin umsögn Ríkisútvarpsins og veitt tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, í ljósi umsagnarinnar, til 14. september. Með bréfi, dags. 13. september, bárust athugasemdir kæranda.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Símon Sigvaldason, varamaður Trausta Fannars Valssonar, hefur tekið sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð máls þessa.

Niðurstaða
1.
Ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996 gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf.

Beiðni kæranda um gögn varðar þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að kaupa ekki kvikmyndina [...] sem kærandi bauð fyrirtækinu til kaups. Í því ljósi er vafalaust að beiðni kæranda varðar fyrirliggjandi gögn tiltekins máls sem hefur verið til meðferðar hjá Ríkisútvarpinu. Í beiðni kæranda er einnig óskað eftir dagbókarfærslum í sambærilegum málum, þar sem það eigi við.

Í skýringum Ríkisútvarpsins hefur komið fram að þar séu ekki fyrirliggjandi önnur gögn en þeir fimm tölvupóstar sem tilgreindir eru hér að framan. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að rengja þá fullyrðingu. Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum lýtur einvörðungu að þeim gögnum sem fyrir liggja hjá stjórnvöldum, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna.

2.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Um takmarkanir á rétti skv. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga fer samkvæmt 2. og 3. mgr. sömu greinar.

Ákvæði 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000, A-182/2004, A-283/2008, A-294/2009 og áðurnefndar úrskurð í máli A-421/2012. Um rétt kæranda til aðgangs að hinum umbeðnu gögnum fer því eftir 9. gr. upplýsingalaga.

3.
Ríkisútvarpið hefur til rökstuðnings á synjun um aðgang að þeim tölvupóstum sem fyrir liggja í málinu bent á að um vinnuskjöl sé að ræða sem kærandi eigi ekki rétt til aðgangs að.

Í 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga segir að réttur almennings nái ekki til aðgangs að vinnuskjölum sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Þó skuli veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafi að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verði aflað annars staðar frá. Þessi takmörkun upplýsingaréttar tekur einnig til upplýsingaréttar skv. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. þess ákvæðis.

Í athugasemdum við ákvæði 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum segir m.a. svo:

„Í 3. tölul. er mælt svo fyrir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Margar ákvarðanir, sem stjórnvöld taka, eru svonefndar matskenndar ákvarðanir. Þá hafa lög eða stjórnvaldsfyrirmæli, sem ákvörðun er byggð á, ekki að öllu leyti að geyma þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að ákvörðun verði tekin eða þau veita stjórnvöldum að einhverju leyti mat á því hvert efni ákvörðunar skuli vera. Þegar matskennd stjórnvaldsákvörðun er tekin verða stjórnvöld iðulega að vega og meta mörg ólík sjónarmið. Af þessu leiðir að einatt tekur það einhvern tíma að móta afstöðu stjórnvalds til fyrirliggjandi máls og á því tímabili kunna ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram koma ítarlegri upplýsingar um málsatvik. Gögn, sem til verða á þessum tíma, þurfa því ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Er því lagt til að farin verði sama leið og í stjórnsýslulögunum, og reyndar einnig í dönsku og norsku upplýsingalögunum, að vinnuskjöl stjórnvalds verði undanþegin upplýsingarétti.“

Síðar segir jafnframt svo í tilvitnuðum skýringum:

„Þrátt fyrir að stjórnvald kunni að hafa útbúið tiltekið gagn í eigin þágu og til nota við meðferð máls getur efni þess engu að síður verið slíkt að rök standi til að veita almennan aðgang að því. Í ljósi þessa er í niðurlagi 3. tölul. 1. mgr. lagt til að aðgangur verði veittur í tveimur tilvikum. Annars vegar þegar gögn hafa að geyma upplýsingar um endanlega afgreiðslu máls og hins vegar ef upplýsinga verður ekki aflað annars staðar. Með síðastnefndu orðalagi er einkum átt við upplýsingar um staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa vegið þungt við ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Samsvarandi undanþágu frá upplýsingarétti aðila máls og fram kemur í 3. tölul. er að finna í stjórnsýslulögum.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni þeirra tölvupósta sem Ríkisútvarpið hefur afhent í tengslum við kærumál þetta. Í þeim kemur ekki fram ákvörðun Ríkisútvarpsins um hvort kaupa eigi sýningarrétt á kvikmyndinni [...]. Þar kemur heldur ekki fram hver var endanleg ástæða Ríkisútvarpsins fyrir að hafna kaupum á henni. Það er ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að leggja fyrir Ríkisútvarpið að útbúa slíkan rökstuðning eða formlega staðfestingu þeirrar ákvörðunar sem um ræðir eða ástæður hennar. Af efni þeirra tölvupósta sem um ræðir er hins vegar ljóst að þeir eru aðeins undirbúningsgögn og geyma ekki upplýsingar um ákvörðun eða mikilvægar staðreyndir málsins. Með vísan til þessa ber að fallast á að Ríkisútvarpinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að umræddum gögnum með vísan til 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

4.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga, tekur réttur til aðgangs að gögnum til dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn. Stjórnvöldum er skylt samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt og einnig að varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg. Ríkisútvarpið fellur undir upplýsingalög sem fyrr segir. Beiðni kæranda lýtur að tilgreindu máli sem varðar þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að kaupa ekki kvikmyndina [...]. Kærandi á með vísan til þessa rétt á aðgangi að lista yfir gögn málsins.

5.
Að því er varðar beiðni kæranda um aðgang að dagbókarfærslum í sambærilegum málum þar sem það eigi við, bendir úrskurðarnefndin á að af áskilnaði 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, um að beiðni um aðgang að gögnum varði tiltekið mál, verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Í beiðni kæranda um aðgang að dagbókarfærslum í sambærilegum málum felst beiðni um aðgang að gögnum í ótilgreindum málum af ákveðinni tegund. Ber af framangreindri ástæðu að vísa frá kæru málsins hvað þennan hluta varðar.


 
Úrskurðarorð
Staðfest er synjun Ríkisútvarpsins ohf., dags. 2. júlí, á beiðni kæranda, [A], f.h. [B], dags. 25. júní, um aðgang að gögnum er vörðuðu þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að kaupa ekki kvikmyndina [...], að öðru leyti en því að Ríkisútvarpinu ber að afhenda kæranda lista yfir gögn málsins. Öðrum beiðnum sem fram koma í kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Friðgeir Björnsson
varaformaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                   Símon Sigvaldason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta