Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Forsætisráðuneytið

A-451/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.

Hinn 24. október 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-451/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2012, framsendi innanríkisráðuneytið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnsýslukæru [A], sveitarstjórnarfulltrúa í sveitarfélaginu Skagafirði, dags. 29. ágúst, vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á beiðni hans um upplýsingar um öll gögn sem lögð hafi verið fyrir sérstaka byggingarnefnd sem hafði umsjón með viðbyggingu við Árskóla.

Málsmeðferð

Í kjölfar samskipta við sveitarfélagið Skagafjörð og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna umræddrar kæru ritaði úrskurðarnefndin bréf til innanríkisráðuneytisins, dags. 28. september. Þar óskaði nefndin eftir upplýsingum um það, hvort kæran hafi verið eða yrði tekin til meðferðar af hálfu ráðuneytisins á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Með bréfi, dags. 12. október, barst nefndinni svar innanríkisráðuneytisins. Þar segir að ráðuneytið hafi ákveðið að taka erindi [A] til meðferðar sem stjórnsýslukæru á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga.

Símon Sigvaldason, varamaður Trausta Fannars Valssonar, tók sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð máls þessa.

Niðurstaða

Í 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um rétt sveitarstjórnarmanns til aðgangs að gögnum og þagnarskyldu. Segir í ákvæðinu að vegna starfa sinna í sveitarstjórn eigi sérhver sveitarstjórnarmaður rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggi í stjórnsýslu sveitarfélagsins og varði málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn. Samkvæmt IX. kafla sveitarstjórnarlaganna hefur ráðuneyti sveitarstjórnarmála, sem nú er innanríkisráðuneytið, almennt stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum. Hefur ráðuneytið meðal annars úrræði til að knýja sveitarfélögin til að fullnægja lögbundnum skyldum sínum, sbr. 1. mgr. 116. gr. laganna.

Kærandi er sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarfélaginu Skagafirði. Ákvæði 28. gr. sveitarstjórnarlaga veitir sveitarstjórnarmönnum rýmri rétt til aðgangs að upplýsingum en upplýsingalög nr. 50/1996. Beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og kæra hans til innanríkisráðuneytisins byggist á rétti hans skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Kærandi hefur sjálfur valið málinu þann farveg og mál hans er nú til meðferðar af hálfu innanríkisráðuneytisins á þeim grundvelli. Hér ber einnig að hafa í huga að það er meginregla íslensks réttar að skýra beri ákvæði laga um kærurétt í stjórnsýslunni svo að sama efnisatriði í ákvörðun lægra setts stjórnvalds verði ekki kært til tveggja úrskurðaraðila samhliða. Með vísan til þessara atriða ber að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru [A], dags. 29. ágúst 2012, á hendur sveitarfélaginu Skagafirði er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Friðgeir Björnsson varaformaður

Sigurveig Jónsdóttir

Símon Sigvaldason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta