Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Forsætisráðuneytið

A-452/2012. Úrskurður frá 24. október 2012

Hinn 24. október 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-452/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með kæru, dags. 7. júní 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu Persónuverndar á erindi hennar, dags. 2. apríl og ítrekað 1. júní, þar sem hún óskaði eftir tilteknum upplýsingum og gögnum varðandi kæru þriggja einstaklinga sem þeir höfðu beint til stofnunarinnar og varðaði [A]. Erindinu hefði ekki verið svarað.

Aðdragandi málsins er sá að Persónuvernd barst kvörtun í nafni tiltekins húsfélags, dags. 29. nóvember 2011, yfir því að eftirlitsmyndavél hafi verið komið fyrir í bílum sem lagt hafði verið í bílastæði kæranda í máli þessu, [A]. Þessi kvörtun mun vera sú kæra til Persónuverndar sem vísað er til í kæru málsins. Á heimasíðu Persónuverndar kemur fram að málið hafi verið var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 13. júní 2012. Stjórnin hafi hins vegar talið að ekki lægi fyrir sönnun á því að atvik væru með þeim hætti sem greindi í kvörtun og með vísan til þess bæri að fella málið niður. Var skrifstofu stofnunarinnar falið að senda aðilum málsins bréf þess efnis.

Kærandi krefst þess, í erindi sínu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að Persónuvernd verði gert að veita henni aðgang að eftirtöldum gögnum og upplýsingar sem óskað hafi verið eftir í erindi til stofnunarinnar, dags. 2. apríl 2012:

1. Alla tölvupósta og bréf stofnunarinnar til einstaklinga sem að kvörtun standi og er málið varði.

2. Alla tölvupósta og bréf stofnunarinnar til lögmannsstofunnar Lagastoðar sem málið varði.

3. Alla tölvupósta milli starfsmanna stofnunarinnar sem er málið varði.

4. Öll minnisblöð og fundargerðir, að hluta eða öllu leyti, eins og við eigi, sem séu í fórum stofnunarinnar og varði málið.

5. Önnur gögn er málið varði og séu ekki hluti af framangreindri upptalningu.

Í kærunni er vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsingalaga nr. 50/1996, m.a. 14. gr. Þá er vísað til þess að umbeðin gögn varði kæranda sjálfa og að hún hafi af því ríka hagsmuni af því að fá aðgang að gögnunum og upplýsingunum í því skyni að útskýra hvernig tilhæfulaus málatilbúnaður stofnunarinnar sé til kominn og með það að markmiði að binda enda á málið í meðförum stofnunarinnar.

Málsmeðferð

Kæran var send Persónuvernd til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní. Persónuvernd svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. júní. Segir þar að kæran lúti að máli sem Persónuvernd hafi lokið með ákvörðun þann 14. júní. Þá segir að Persónuvernd hafi þegar afhent kæranda gögn málsins með bréfum dags. 20. apríl, 19. mars og 14. júní 2012. Þó hafi ákveðin skjöl ekki verið afhent kæranda. Eru þau skjöl, fjórtán talsins, listuð upp í bréfinu til úrskurðarnefndarinnar, og fylgdu því.

Í tilefni af bréfi Persónuverndar, dags. 26. júní, sendi úrskurðarnefndin Persónuvernd bréf dags. sama dag, þar sem þeirri spurningu er beint til stofnunarinnar hvort kæranda hafi verið afhent þau gögn sem afhent voru úrskurðarnefnd um upplýsingamál með framangreindu bréfi stofnunarinnar. Þann 27. júní barst nefndinni tölvupóstur frá Persónuvernd þar sem segir að umrædd gögn hafi ekki verið send kæranda. Þau hafi aðeins verið send úrskurðarnefndinni vegna óska hennar, dags. 13. júní sl. Þá bendir Persónuvernd á að stofnunin hafi ekki tekið formlega ákvörðun um að synja kæranda um aðgang að gögnum.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Persónuverndar, dags. 2. júlí, var vísað til framangreindra samskipta nefndarinnar við Persónuvernd. Er þar ítrekað að stjórnvaldi beri að taka ákvörðun um það hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má, sbr. 11. og 13. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndinni barst í kjölfarið bréf Persónuverndar, dags. 9. júlí, þar sem fram kemur að kæranda hafi verið afhent afrit af öllum bréfaskiptum, sem og af myndskeiði og ljósmynd sem Persónuvernd hafi borist frá kvartendum, þ.á m. skjölin 14 sem að framan er getið. Segir að stofnunin telji að með þessu hafi kæranda verið veittur fullnægjandi aðgangur að málsgögnum.

Með bréfi, dags. 17. júlí, var framangreind umsögn Persónuverndar borin undir kæranda og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við umsögnina til 24. júlí. Erindið var ítrekað 30. júlí.

Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 3. ágúst 2012, þar sem fram kemur að kærandi telji að afgreiðsla Persónuverndar sé ekki fullnægjandi og að farið sé fram á það við nefndina að hún hlutist til um að Persónuvernd afhendi gögn og upplýsingar um eftirfarandi atriði:

1. Brotthvarf starfsmanns Persónuverndar, [B], frá málinu.

2. Umfjöllun á stjórnarfundi Persónuverndar, dags. 13. júní 2012, þ.e. fundargerð stjórnarfundar Persónuverndar.

3. Vettvangskönnun á heimili kæranda, dags. 31. maí 2012.

4. Fjölmiðlaumfjöllun 25. júní 2012 um niðurfellingu máls. Fram kemur að kærandi fari fram á það við nefndina að hún hlutist til um að Persónuvernd afhendi afrit gagna er sýni samskiptasögu Persónuverndar við Morgunblaðið og vefmiðil blaðsins, mbl.is, í aðdraganda þess að um niðurfellingu máls hafi verið fjallað hjá umræddum miðlum.

Með tölvupósti Persónuverndar, dags. 1. október, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, kom fram að það væri afstaða Persónuverndar að stofnunin hefði afhent kæranda öll gögn umrædds kærumáls hjá stofnuninni. Jafnframt kom fram að með ákvörðun stjórnar Persónuverndar dags. 14. júní 2012 hefði framangreint kærumál verið fellt niður, sbr. það sem áður er rakið í kafla um málavexti.

Símon Sigvaldason, varamaður Trausta Fannars Valssonar, hefur tekið sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð máls þessa.

Niðurstaða

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun stjórnvalds á að veita aðgang að gögnum eða afrit þeirra samkvæmt lögunum. Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, þegar beiðni um gögn er sett fram, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 7. gr. upplýsingalaga.

Í máli þessu er til úrskurðar afgreiðsla Persónuverndar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum, dags. 2. apríl 2012. Í beiðni kæranda fólst ósk um aðgang að öllum gögnum tiltekins máls sem var til meðferðar hjá Persónuvernd sem nánar er tilgreint í upphafi úrskurðar þessa. Af framanröktum bréfum Persónuverndar og samskiptum nefndarinnar við stofnunina að öðru leyti telur úrskurðarnefndin ljóst að Persónuvernd hafi afhent kæranda öll gögn þess máls sem beiðni dags. 2. apríl varðar. Afgreiðslu þeirrar beiðni sem liggur til grundvallar kærumáli þessu var því lokið með fullnægjandi hætti samkvæmt upplýsingalögum með bréfum Persónuverndar til kæranda og afhendingu gagna, síðast með bréfi, dags. 9. júlí 2012, að undanskilinni fundargerð stjórnar stofnunarinnar frá 13. júní 2012, þar sem fjallað var um mál kæranda, enda lá hún þá fyrir hjá stofnuninni. Umrædda fundargerð ber því að afhenda kæranda, að því leyti sem ákvæði laga, þar á meðal undantekningarákvæði upplýsingalaga standa því ekki í vegi. Að öðru leyti liggur ekki fyrir synjun Persónuverndar á aðgangi að gögnum samkvæmt þeirri beiðni sem kærandi lagði fram 2. apríl og endanlega var afgreidd 9. júlí 2012, með hliðsjón af þeim gögnum málsins sem þá lágu fyrir.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar þann 3. ágúst 2012, jók hún við kröfur sínar um aðgang að gögnum hjá Persónuvernd. Úrskurður þessa máls getur hins vegar ekki tekið til þeirra krafna, sbr. 14. gr. upplýsingalaga, enda liggur ekki fyrir afgreiðsla Persónuverndar á þeim, þó að undanskildum lið nr. 2 í þessari nýju kröfu, sbr. framangreint.

Á grundvelli framangreinds ber í máli þessu að fallast á kröfu kæranda um aðgang að fundargerð stjórnar Persónuverndar frá 13. júní 2012, þar sem fjallað er um mál kæranda hjá stofnuninni, enda sé þar ekki að finna upplýsingar sem leynt eiga að fara samkvæmt ákvæðum laga. Að öðru leyti liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds á aðgangi að gögnum. Ber því að vísa öðrum þáttum málsins frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu kæranda, [A], um aðgang að fundargerð stjórnar Persónuverndar frá 13. júní 2012, þar sem fjallað er um mál hennar hjá stofnuninni, enda sé þar ekki að finna upplýsingar sem leynt eiga að fara samkvæmt ákvæðum laga. Að öðru leyti er kæru málsins vísað frá.

Friðgeir Björnsson
varaformaður

Sigurveig Jónsdóttir

Símon Sigvaldason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta