Áskorun um stuðning við börn sem verða vitni að heimilisofbeldi
Nemendur í Austurbæjarskóla afhentu Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra í dag áskorun Barnaheilla til stjórnvalda um að veita börnum sem orðið hafa vitni að heimilisofbeldi tilhlýðilegan stuðning. Um 8.000 manns hafa skrifað undir áskorun þessa efnis.
Afhending undirskriftalista með áskoruninni fór fram í Austurbæjarskóla. Nemendur tíundu bekkja skólans afhentu ráðherra listann að viðstöddum Helga Ágústssyni, formanni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, og Petrínu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna. Nemendurnir höfðu áður unnið verkefni með Barnaheillum um vernd barna gegn ofbeldi sem þau kynntu á málþingi samtakanna 17. febrúar síðastliðinn.
Nýlega kom út skýrsla Barnaheilla með niðurstöðum rannsóknar sem samtökin gerðu á félagslegum stuðningi og úrræðum fyrir börn í Reykjavík sem orðið hafa vitni að heimilisofbeldi. Rannsóknin var styrkt af Daphne-áætlun Evrópusambandsins og unnin í samvinnu við Barnaheill á Spáni og Ítalíu. Í skýrslunni eru settar fram tillögur samtakanna um hvernig tryggja megi öryggi og velferð barna sem búa við heimilisofbeldi. Meðal annars vekja þau athygli á þingsályktunartillögu Evrópuráðsins þar sem lagt er til að aðildarríkin undirbúi vinnu Evrópuráðssamnings um vernd kvenna og barna gegn ofbeldi og leggja Barnaheill áherslu á að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í þeirri vinnu.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir rannsókn Barnaheilla og ábendingar þeirra mikilvægar enda sé um að ræða málefni sem varði velferð barna miklu.