Mál nr. 64/2010
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. nóvember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 64/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. apríl 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 26. apríl 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 31. mars 2010. Umsókninni var hafnað samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 28. apríl 2010. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 31. mars 2010 með rafrænum hætti. Hún staðfesti umsóknina þann 12. apríl 2010 og skilaði samhliða inn bréfi til stofnunarinnar þar sem hún óskaði eftir því að tekið yrði tillit til þess starfstíma sem hún hafði unnið áður en hún hóf nám haustið 2005. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var hafnað þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um þriggja mánaða starfstíma eða 3. gr. laganna um lágmarksstarfshlutfall og náði því ekki þeim lágmarksbótarétti sem krafist er.
Kærandi lauk námi í júní 2009 og segir að sér hafi þá verið tjáð að þar sem hún væri námsmaður ætti hún ekki rétt á bótum. Hún kveðst hafa verið í atvinnuleit síðan þá, en hafi í mars 2010 kannað rétt sinn að nýju og þá hafi henni verið tjáð að hún hefði átt að skrá sig strax að loknu námi. Kærandi er óánægð með að hafa verið á vinnumarkaði í hartnær 30 ár og vera réttindalaus. Kærandi óskar að krafa sín verði tekin til greina og að einnig verði litið til skólagöngu hennar síðastliðin fjögur ár.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, kemur fram að mál þetta varði ávinnslutímabil kæranda, sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 15. gr. laganna sé tekið sérstaklega á ávinnslutímabili námsmanna en samkvæmt því ákvæði sé það gert að skilyrði fyrir því að nám teljist sem hluti af ávinnslutímabili að launamaður hafi sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Af gögnum kæranda megi sjá að hún hafi ekkert starfað á vinnumarkaði eftir að hafa lokið námi sínu við Verkmenntaskólann á Akureyri þann 23. maí 2009 og geti því ekki nýtt nám sitt sem hluta af ávinnslutímabili.
Þá kemur fram í greinargerð Vinnumálastofnunar að í 1. mgr. 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um sérreglu sem eigi við um þá sem hverfi af vinnumarkaði til að stunda nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, en þeir geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 72 mánuði frá þeim degi er viðkomandi sannanlega hætti störfum enda hafi hann sannanlega lokið náminu. Með athugasemdum í frumvarpi því sem orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með þessu ákvæði sé leitast við að auka öryggi þeirra er kjósi að mennta sig frekar þegar þeir snúi til baka á vinnumarkað að loknu námi. Í bráðabirgðaákvæði IX við lög um atvinnuleysistryggingar komi síðan fram að ákvæði 25. gr. laganna skuli einungis gilda um þá sem hafi hætt þátttöku á vinnumarkaði til að stunda nám eftir 1. júlí 2006. Kærandi hafi hætt þátttöku á vinnumarkaði í ágúst 2005 til að stunda nám og því eigi sérreglan 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki við í máli kæranda.
Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. október 2010, og var henni veittur frestur til 2. nóvember 2010 til þess að koma frekari athugasemdum á framfæri, en hún nýtti sér það ekki.
2.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um hvern þann sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr. teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar er sett fram sérregla um umsækjanda sem hefur stundað nám áður en hann sækir um greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. 15. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. síðast greinds ákvæðis á umsækjandi sem hefur stundað nám samkvæmt c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar rétt á að nám hans sé metið til ávinnslutímabils „...hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabili...“.
Kærandi nær því ekki að hafa starfað í þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi nær því ekki lágmarki laganna um ávinnslu réttinda og getur ekki talist tryggð innan atvinnuleysisbótakerfisins. Því verður ekki komist hjá því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. apríl um synjun á bótarétti A er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson