Mál nr. 13/2010
A
gegn
Íbúðalánasjóði
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 11. október 2010, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dagsettri 22. september 2010, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar. Hann er atvinnulaus kvikmyndagerðarmaður en hefur vonir um að kvikmynd byggð á handriti eftir hann verði framleidd og kveður að það muni færa honum tekjur í framtíðinni. Kærandi hefur tvisvar áður, á árinu 2009, fengið synjun um greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu þar sem úrræði Íbúðalánasjóðs dugðu ekki til þess að leysa vanda hans. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Íslandsbanka, dagsettu 23. ágúst 2010, sem liggur fyrir í málinu, dugar greiðsluerfiðleikafyrirgreiðsla ekki til lausnar máls þessa þannig að greiðslubyrði rúmist innan greiðslugetu eftir aðgerðir eins og áskilið er samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dagsettu 25. október 2010, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 8. nóvember 2010. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 9. nóvember 2010, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá honum.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi kveðst vera án atvinnu eins og stendur og ekki hafa fjárhagslega getu til að greiða af íbúðalánum sínum. Það sé þó fásinna að staðhæfa að hann muni aldrei framar hafa tekjur til að greiða af íbúðaláni sínu. Kærandi kveðst hafa fengið frystingu árið 2009 til þriggja ára, eins árs í senn, en nú sé honum synjað um frystingu fyrir annað ár. Aðalforsendur þess að hann sæki um annað ár í frystingu sé sú að hann hafi ekki neina innkomu eins og er, en það þýði ekki að sú staða muni ekki breytast. Kærandi kveðst vera í samstarfi um fjármögnun kvikmyndar byggðri á handriti eftir hann en handritið hafi nýverið hlotið virt erlend verðlaun. Nái sú vinna fram að ganga muni kvikmyndin færa honum tekjur.
IV. Sjónarmið kærða
Kærði bendir á að kærandi hafi tvisvar áður fengið synjun á greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu þar sem úrræði Íbúðalánasjóðs hefðu ekki dugað til að leysa vanda hans. Fjallað sé um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda í reglugerð nr. 584/2001. Það séu einkum fjármálastofnanir sem geri tillögur til Íbúðalánasjóðs um úrræði samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar, en fyrir liggi ljósrit af greiðsluerfiðleikamati kæranda frá Íslandsbanka, dagsett 23. ágúst 2010. Þar komi glöggt fram að úrræði dugi ekki til lausnar þannig að greiðslubyrði rúmist innan greiðslugetu eftir aðgerðir eins og áskilið sé í 4. gr. reglugerðarinnar. Úrræði Íbúðalánasjóðs dugi því ekki til að leysa vanda kæranda.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er m.a. að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum. Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Íslandsbanka yrði greiðslubyrði kæranda umfram getu hans og uppfyllir hann því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kæru A um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.
Ása Ólafsdóttir, formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal