Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2011 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 21. janúar 2011

Mál nr. 96/2010                   Eiginnafn:     Grimmi

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 96/2010:

Öll skilyrði  5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

1. mgr. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

2. mgr. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

3. mgr. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Í máli þessu reynir á skilyrði 3. mgr. 5. gr. hér að ofan um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.Eiginnafnið Grimmi er leitt af lýsingarorðinu grimmur en meginmerking þess skv. Íslenskri orðabók (2007:330) er: ‚sem veldur öðrum kvalræði, meðaumkunarlaus, óvæginn‘. Lýsingarorðið sem nafnið er leitt af hefur því mjög neikvæða merkingu. Orðið grimmi er einnig þekkt sem viðurnefni, sbr. Ívan grimma og Gottskálk grimma biskup, og var notað til að vísa til harðræðis þeirra. Nokkur önnur eiginnöfn eru einnig leidd af lýsingarorðum, s.s. Helgi af lýsingarorðinu helgur, Tryggvi af lýsingarorðinu tryggur og Fróði af fróður. Lýsingarorðin sem þessi nöfn eru leidd af hafa hins vegar jákvæða merkingu. Þau eru þar að auki ævaforn í málinu.

Þegar svo háttar að fullorðinn maður sækir um að taka upp nýtt nafn er ekki unnt að fullyrða að nafnið verði nafnbera til ama. Hins vegar verður ekki hjá því komist að hafa í huga að með því að setja nafn á mannanafnaskrá er það um leið orðið mögulegt nafn fyrir nýfædd börn. Gera má ráð fyrir að eiginnafnið Grimmi geti hugsanlega orðið barni til ama og því er ekki heppilegt að slíkt nafn sé á mannanafnaskrá. Benda má á að fólki er frjálst að nota nafn, t.d. listamannsnafn, á ýmsum vettvangi þótt það sé ekki hið formlega skráða nafn viðkomandi í Þjóðskrá.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Grimmi (kk.) er hafnað.

 

 

 

Mál nr. 1/2011                      Eiginnafn:     Alida

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 1/2011 en erindið barst nefndinni 31. desember 2010:

Eiginnafnið Alida (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Alidu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Alida (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 2/2011                      Eiginnafn:     Elvis

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 2/2011 en erindið barst nefndinni 31. desember 2010.

Eiginnafnið Elvis (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Elvisar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Elvis (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 3/2011                      Eiginnafn:     Annarr

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 3/2011 en erindið barst nefndinni 31. desember 2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Annarr (kk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem rr er ekki ritað í enda orðs í áherslulausu atkvæði. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru engir skráðir með eiginnafnið Annarr sem uppfylla skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna. Það telst því ekki vera hefð fyrir rithættinum Annarr.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Annarr (kk.) er hafnað.

 

 

 

Mál nr. 4/2011                      Eiginnafn:     Þórbjörn

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 4/2010 en erindið barst nefndinni 11. janúar:

Eiginnafnið Þórbjörn (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Þórbjarnar eða Þórbjörns, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Þórbjörn (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 5/2011           Aðlögun kenninafns:  Nikolaison

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 5/2011 en erindið barst nefndinni 11. janúar:

 

Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 11. janúar 2011, var óskað úrskurðar mannanafnanefndar um beiðni X um að taka upp föðurkenninguna Nikolaison. Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn kemur fram að föður- og móðurnöfn séu mynduð úr nafni föður eða móður í eignarfalli að viðbættu son ef karlmaður er en dóttir ef kvenmaður er. Eiginnafnið Nikolai er í eignarfalli Nikolais. Því getur Nikolaison ekki talist rétt myndað kenninafn.

  

Úrskurðarorð: 

Beiðni um föðurkenninguna Nikolaison er hafnað. Í tilefni af þessu máli er fallist á föðurkenninguna Nikolaisson.

 

 

 

Mál nr. 6/2011                      Eiginnafn:     Mundína

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 6/2011 en erindið barst nefndinni 17. janúar:

Eiginnafnið Mundína (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Mundínu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Mundína (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 7/2011                      Millinafn:       Kjárr

 

Hinn 21. janúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 7/2011 en erindið barst nefndinni 20. janúar:

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn segir að millinöfn skuli dregin af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en megi þó ekki hafa nefnifallsendingu. Þá eru nöfn sem hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn kvenna eða sem eiginnöfn karla óheimil sem millinöfn.

Í nafninu Kjárr er nefnifallsending, -r.  Þá kemur nafnið fyrir í fornum heimildum sem eiginnafn. Af þessum ástæðum er ekki unnt að samþykkja það sem millinafn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Kjárr er hafnað.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta