Norrænir ráðherrar vilja að aukið samstarf um netöryggi verði forgangsmál
Norrænn ráðherrafundur um almannaöryggi var haldinn í Reykjavík í dag í boði Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Ráðherrarnir ræddu um ýmis svið öryggismála svo sem um almannavarnir, netöryggi og um viðbrögð og lærdóma sem draga mætti af hryðjuverkunum í Noregi 22. júlí í fyrra.
Auk innanríkisráðherra og ráðuneytisstjóra sátu fundinn innanríkisráðherra Finnlands, ráðuneytisstjóri norska dóms- og almannaöryggisráðuneytisins, skrifstofustjóri danska varnarmálaráðuneytisins og ráðuneytisstjóri sænska varnarmálaráðuneytisins auk sérfræðinga landanna á þessum sviðum.
Í yfirlýsingu ráðherra almannaöryggismála eftir fundinn segir að þeir vilji sjá enn nánara og skýrara samstarf landanna á sviði almannaöryggis og nefna þar norrænt samstarf á sviði viðbragðs og björgunar vegna hamfara.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði fundinn hafa verið mjög gagnlegan. ,,Við ræddum mikið um samstarf Norðurlandanna í netöryggismálum enda steðja sams konar vandamál og áhætta að öllum löndunum á þessu sviði. Við lögðum grunn að áframhaldandi samstarfi og það er einhugur um að styrkja það og Norðurlöndin vilja koma fram sem eitt ríki á þessu sviði,” segir Ögmundur. Í yfirlýsingunni eftir fundinn segir að Norðurlöndin leggi áherslu á samstarf um mat á ógn og áhættu, að skiptast á reynslu og að viðhalda gæðum á sviði netöryggis og segja þeir aukið samstarf á þessu sviði vera forgangsmál.
Fundinn sátu af hálfu Íslands, frá vinstri: Svana Margrét Davíðsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir, Ögmundur Jónasson, Þórunn J. Hafstein og Margrét Kristín Pálsdóttir.
Gæta þarf að undirstöðum lýðræðissamfélagsins
Jafnframt ræddu ráðherrarnir skýrslu 22. júlí nefndarinnar í Noregi um viðbrögð við hryðjuverkunum í fyrrasumar og þann lærdóm sem Norðmenn hafa dregið af þeim atburðum. Segja ráðherrarnir í yfirlýsingunni að mikilvægt sé að deila þessari reynslu og lærdómi sem dreginn hefur verið af slíkum atburðum. ,,Þetta var mjög fróðleg frásögn hjá Norðmönnunum og það sköpuðust miklar umræður í framhaldi af henni. Við ræddum hvernig eigi að feta þennan veg áfram þar sem tekið er á öryggismálum en jafnframt gætt að undirstöðum lýðræðissamfélagsins. Ég hrósaði Norðmönnum fyrir góða frammistöðu þeirra hvað þetta snertir og við erum sammála um að það megi ekki undir neinum kringumstæðum fórna lýðræðisþættinum í baráttunni við hryðjuverkamenn.”