Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2012

Hagvöxtur meiri en áætlað var fyrir þremur mánuðum

Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu 1997–2014
Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu 1997–2014

Landsframleiðsla eykst um 2,8% á þessu ári samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Þetta er nokkur hækkun frá sambærilegri spá í lok mars síðastliðnum, en þá spáði Hagstofan 2,6% vexti á árinu. Hækkunin nær einnig til næsta árs og spáir Hagstofan 2,7% hagvexti í stað 2,5% eins og hún gerði í mars síðastliðnum.

Hagvöxturinn hér á landi er einn sá mesti í Evrópu og tvöfalt meiri en meðalhagvöxtur í aðildarlöndum ESB.

Auknar fjárfestingar

 „Atvinnuvegafjárfesting hefur vaxið frá og með 2011. Mesta umfangið er í stóriðju, en önnur atvinnuvegafjárfesting er einnig vaxandi og er búist við hún aukist talsvert 2013. Stærstu verkefnin í ár og 2013 tengjast stækkun álversins í Straumsvík. Á árunum 2013 og 2014 er reiknað með frekari stóriðjuframkvæmdum en meiri óvissa ríkir um þau verkefni.“ Nánar er fjallað um þetta í spá Hagstofunnar og þess getið að stækkun álversins í Straumsvík sé í fullum gangi sem og framkvæmdir við Búðahálsvirkjun. „Áætlanir um kísilver í Helguvík hafa ekki ræst en nokkrir aðilar hafa lýst yfir áhuga á uppbyggingu í kísiliðnaði og líkur á að kísilver rísi á spátímanum. Reiknað er með að framkvæmdir við kísilver hefjist upp úr miðju ári 2013.“

Við þetta má bæta að með nýjum lögum um veiðigjald hefur fjármögnun ýmissa framkvæmda verið tryggð í samræmi við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Meðal annars er ráð fyrir því gert að vinna við gerð Norðfjarðarganga hefjist næsta sumar. Þá er einnig ljóst að með samþykktum Alþingis verður ráðist í gerð Vaðlaheiðarganga.

Myndin sýnir fjárfestingu sem hlutfall af landsframleiðslu 1997–2014

Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu 1997–2014

Bætt skilyrði heimila og fyrirtækja

Í spá Hagstofunnar segir ennfremur að fjármálaleg skilyrði heimila og fyrirtækja hafi batnað og skuldsetning lækkað í kjölfar afskrifta og endurskipulagningar skulda. Útlán vegna íbúðakaupa fara nú vaxandi en útlán af öðrum toga eru lítil. Búist er við að útlán til fyrirtækja aukist með auknum fjárfestingum innan atvinnuveganna.

Hagstofan segir einkaneyslu og fjárfestingar knýja hagvöxtinn en gert er ráð fyrir vexti allt tímabilið sem spáin nær til.  „Vöxturinn er hóflegur og fjárfestingarstigið lágt ef litið er til sögunnar. Veikt gengi krónunnar stuðlar áfram að afgangi af utanríkisviðskiptum þó að hann minnki.“

Hagstofan áætlar að verðbólga frá upphafi til loka árs verði 5,4% í stað þess að vera nokkuð innan við 5%. Reiknað er með 3,9% verðbólgu á næsta ári en eftir það tekur hún að nálgast verðbólgumarkmið Seðlabankans að mati Hagstofunnar.

Hægt er að lesa þjóðhagsspá Hagstofunnar á vef stofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta