15 milljarða króna vaxtabætur árið 2012
Vaxtakostnaður heimilanna vegna húsnæðisskulda var 10,3 % lægri í fyrra en árið áður. Þetta leiðir til lækkunar vaxtabóta sem greiddar verða út um mánaðamótin.
Helstu ástæður þess að vaxtabætur lækka eru minni vaxtagjöld heimilanna og auknar tekjur þeirra, en þessir tveir þættir ráða mestu um úthlutun vaxtabótanna. Tekjur heimilanna hækkuðu að jafnaði um 8,6% frá árinu 2010 til ársins 2011. Fasteignaverð hækkaði að jafnaði um 10% á sama tímabili.
Reglum um úthlutun bótanna hefur verið breytt að einu leyti frá síðasta ári. Við útreikning vaxtabóta er nú aðeins tekið tillit til þeirra vaxta sem heimilin hafa sannarlega greitt en áður var nægjanlegt að vextirnir væru gjaldfallnir. Ætla mátti að samkvæmt gamla fyrirkomulaginu hefðu einhverjir fengið vaxtabætur án þess að greiða þann kostnað sem verið var að bæta.
Í fyrra nam vaxtakostnaður heimilanna samtals 54,7 milljörðum króna en var 61 milljarður króna árið áður. Í fyrra fengu íbúðareigendur 30% vaxtakostnaðar vegna húsnæðislána endurgreiddan úr ríkissjóði en fá nú tæplega 27% kostnaðarins til baka.
Lækkandi hlutfall ráðstöfunartekna í húsnæðisvexti
Ríkisstjórnin hefur jöfnuð í samfélaginu að leiðarljósi. Þeir sem lægstar tekjurnar hafa fá því hærri vaxtabætur en þeir sem hafa meira handa á milli. Almennar vaxtabætur hjóna skerðast þó ekki að fullu fyrr en samanlagðar árstekjur þeirra verða meiri en 14 milljónir króna á ári. Þá er á það að líta að sérstök vaxtaniðugreiðsla, sem nemur alls tæpum 6 milljörðum króna, er ekki tekjutengd eins og almennu bæturnar, en þær nema 8,8 milljörðum króna. Samtals nema greiddar vaxtabætur því tæpum 15 milljörðum króna á þessu ári.
Með úthlutun vaxtabóta er áætlað að rúmur helmingur fjölskyldna í landinu greiði minna en 8,5% af ráðstöfunartekjum sínum í vexti af húsnæðislánum og tvær af hverjum þremur fjölskyldum í landinu greiði inan við 10,5% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðisvexti.
Velferð heimila í forgrunni
Ljóst má vera að úthlutun vaxtabóta hefur haft umtalsverð jákvæð áhrif í glímu heimilanna við aukna greiðslubyrði húsnæðislána í kjölfar hrunsins. Þær breytingar sem gerðar voru á úthlutun vaxtabóta eftir hrunið og þeir auknu fjármunir sem varið var til að draga úr kostnaði heimilanna bættu stöðu þeirra sem voru í veikastri stöðu.
„Tæplega 18.000 fjölskyldur fá greiddar vaxtabætur sem nema yfir 30.000 krónum á mánuði og yfir 6.000 fjölskyldur fá útborgaðar bætur sem jafngilda yfir 50.000 krónum á mánuði. Þannig hefur verið unnið vel úr áfallinu með því að beina aðgerðum að þeim sem mest hafa þurft á þeim að halda,“ segir Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, í grein í Fréttablaðinu í dag, 25. júlí.
Áfram er gert ráð fyrir almennum vaxtabótum á næsta ári. Með frekari efnahagslegum bata má gera ráð fyrir að þá dragi enn úr almennum vaxtabótum miðað við óbreyttar úthlutunarreglur en um leið gefst færi á að koma enn betur til móts við þá sem mesta þörf hafa fyrir bætur vegna íbúðarkaupa.
Nánari upplýsingar um álagningu og bætur er að finna á vef fjármálaráðuneytisins.
Grein Oddnýjar G. Harðardóttur fjármálaráðherra „Hagur heimilanna“ má lesa hér.