Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2012

Gengislánin rædd á ríkisstjórnarfundi

Nokkur umræða hefur orðið síðustu daga um endurútreikning gengistryggðra lána og stöðu lánþega með slík lán, m.a. í kjölfar blaðagreinar lögmannanna Lúðvíks Bergvinssonar og Sigurvins Ólafssonar. Lögmennirnir komu á fund ráðherranefndar um efnahagsmál  20. þ.m. Í kjölfarið tók efnahags- og viðskiptaráðuneytið saman minnisblað um endurútreikning gengistryggðra lána.
Stjórnvöld hafa fylgst grannt með því óvissuástandi sem enn ríkir um gengislánin og gefin hafa verið út tilmæli m.a. af Fjármálaeftirlitinu um að fjármálafyrirtæki stilli innheimtu í hóf meðan réttaróvissan ríkir og gengislánamál eru rekin fyrir dómstólum.

Um mögulega lagasetningu

Þótt lög nr. 151/2010 hafi að nokkru tekið á þeirri óvissu, sem var uppi á sínum tíma, verður að teljast ólíklegt að lagasetning nú geti eytt þeirri óvissu sem enn er uppi um endurútreikning gengistryggðra lána. „Í ljósi reynslunnar verður að telja líklegt að einhverjir lánþegar muni láta reyna á ítrustu kröfur sínar ef gripið verður til nýrra aðgerða eða lagsetningar. Því er hætta á að inngrip stjórnvalda áður en niðurstaða er fengin úr þeim dómsmálum sem höfðuð verða myndi eingöngu auka óvissuna og lengja þann tíma sem tekur að greiða úr málum varðandi endurútreikninginn. Því verður að telja ólíklegt að hægt sé að semja löggjöf sem nær því markmiði að ná sáttum í samfélaginu út af endurútreikningi gengistryggðra lána,“ segir í minnisblaðinu.
Ennfremur segir að fari svo að mál dragist fyrir dómstólum þurfi þó að horfa til breytinga á lögum t.d. vegna fyrningarfresta. Þau mál þurfi þá að skoða sérstaklega í samráði við innanríkisráðuneytið.

Beðið niðurstöðu dómstóla

Eftir að hafa metið gögn málsins telja sérfræðingar stjórnvalda nærtækasta kostinn í stöðunni að fá niðurstöðu dómstóla eins fljótt og kostur er og fá þannig heildarniðurstöðu í málinu þannig að hægt sé að ljúka endurútreikningi gengistryggðra lána. Í ljósi sögunnar og þess hversu hratt dómstólar hafa afgreitt mál af þessum toga sem og hins að samstaða er um rekstur 11 dómsmála sem ætlað er að eyða réttaróvissunni sé ekki ástæða til annars en að ætla að niðurstaða í dómsmálunum geti fengist fljótt.
Þá er jafnframt mikilvægt að leggja á það áherslu að þeim dómum sem falla verði framfylgt án tafar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta