Batnandi forsendur til að greiða niður skuldir
Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár ber þess vott ríkisstjórninni hefur á kjörtímabilinu tekist að koma ríkisrekstrinum á réttan kjöl. Hallinn á fjárlögum 2008 var um 14% af landframleiðslu en verður nánast enginn á næsta ári eða 0,1%. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á undanförnum árum.
„Vegna þessa árangurs höfum við í ár loksins náð því marki að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru farnar að lækka,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, um fjárlögin í stefnuræðu sinni á Alþingi 12. sepetember síðastliðinn.
Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, hafði skömmu áður kynnt fjárlagafrumvarpið á ítarlegan hátt. Hún fór orðum um það í þættinum Sprengisandi 16. september síðastliðinn og sagði m.a.: „Það er auðvitað það jákvæða við stöðuna að árið 2013 hefur okkur tekist að stöðva skuldasöfnunina og getum farið að gera áætlanir um það hvernig við greiðum þær niður.“
Gert er ráð fyrir að heildartekjur ríkisins muni vaxa úr liðlega 570 milljörðum króna árið 2013 í ríflega 672 milljarða á árinu 2016. Útgjöldin munu á sama tíma vaxa úr 573 milljörðum í ríflega 625 milljarða. Samkvæmt þessari áætlun mun staða ríkissjóðs því batna um rílega 52 milljarða króna.
Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, segir á vefmiðli Vísis að gert sé ráð fyrir að tekjuvöxturinn hangi saman við hóflegan hagvöxt. Að hans mati telst það nokkuð raunhæft:
„Helstu áhyggjurnar snúa að útgjöldunum, og hvort það tekst að halda þeim í skefjum, og eins og áætlanir gera ráð fyrir,“ segir Friðrik Már.
Í aðgengilegu kynningarefni fjármálaráðherra með fjárlagafrumvarpinu er komið inn á þróun tekna og gjalda ríkissjóðs sem og markmið aðgerða í efnahagsmálum.
Skatttekjur sem hlutfall af VLF lækka lítillega milli ára
Án fjármagnstekjuskatts af sölu Landsímans 2005. Leiðrétt fyrir yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga