Sleppum betur en aðrir við atvinnuleysi
Ný skýrsla Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið, er mikill fengur. Þetta er síðari skýrsla dr. Stefáns Ólafssonar og annarra starfsmanna stofnunarinnar um umfang kreppunnar og efnahagsleg áhrif hennar á heimilin.
Í skýrslunni er kafli um atvinnu, atvinnuleysi og brottflutning. Skýrsluhöfundar bera þar saman atvinnuleysi á Íslandi og í skyldum kreppuríkjum, Finnlandi og Svíþjóð í byrjun tíunda áratugarins og á Íslandi og Írlandi eftir 2008. Skýrsluhöfundar segja m.a.:
„Það sem er sláandi er hversu miklu meira atvinnuleysið varð í Finnlandi uppúr 1990 en á Íslandi nú. Ársmeðaltal Finna varð hæst nærri 17%, en vel undir 8% á Íslandi í núverandi kreppu. Það tók Finna um 18 ár að ná almennu atvinnuleysisstigi áranna fyrir kreppuna á ný, en þá tók það að aukast aftur í núverandi fjármálakreppu, þó hún hafi ekki verið Finnlandi sérstaklega þungbær.
Í Svíþjóð varð atvinnuleysi mest um 10% í kreppunni upp úr 1990, eða vel yfir atvinnuleysisstigi Íslands nú. Það er líka athyglisvert að í núverandi kreppu skuli bæði Finnland og Svíþjóð hafa verið með meira atvinnuleysi en Ísland. Þetta verður sérstaklega merkilegt þegar haft er í huga hversu stórt fjármálahrun Íslands var og hve fjárhagur hins opinbera var illa leikinn hér strax árið 2008. Finnar og Svíar lentu hins vegar ekki í neinni sérstakri kreppu núna.“
Meðfylgjandi samanburðarlínurit, sem fengið er úr skýrslunni, sýnir atvinnuleysisferilinn í öllum löndunum fjórum síðustu 22 árin.
Atvinnuleysi í fjórum kreppuríkjum
Finnlandi og Svíþjóð 1990, Ísland og Írland 2008
Heimild: Þjóðmálastofnun H.Í.
Skýrsluhöfundar segja síðar: „Ferill Íslands er þannig mun hagstæðari, með minni byrðar vegna atvinnuleysis þrátt fyrir að kreppan hafi verið mun stærri og dýrari hér og skuldavandinn meiri, bæði hjá heimilum, fyrirtækjum og stjórnvöldum.
„Hvað olli þessum mun?“
Skýrsluhöfundar svara því ekki beint hvað veldur þessum mun og segja það krefjast nánari athugunar á hverju landi fyrir sig. Þeir benda þó m.a. á mikinn niðurskurð opinberra útgjalda í finnsku kreppunni fyrir 20 árum og segja svo: „Tilgáta okkar er að vernd lægri tekjuhópa og endurdreifing velferðarútgjalda og byrða á Íslandi hafi haft mikla þýðingu fyrir viðhald einkaneyslu og skárra atvinnustigs en hjá öðrum kreppuþjóðum. Lægri tekjuhópar eyða stærri hluta tekna sinna til neyslu og með vernd þeirra er hærra neyslustigi (og þar með hærra atvinnustigi) viðhaldið. Örvandi útgjöld, svo sem auknar vaxtabætur, gegndu mikilvægu hlutverki, sem og niðurfellingar skulda að hluta og heimildir til losunar séreignasparnaðar. Þá höfðu ýmis verkefni sem miðuðu að fjölgun nýrra starfa og virkniaukandi aðgerðir einnig áhrif til farsælli atvinnuþróunar en ella hefði orðið. Dæmi um það eru eftirfarandi verkefni: Allir vinna; Grunngerðarframkvæmdir hins opinber (t.d. í samgöngumannvirkjum); Ungt fólk til athafna; ÞOR-Þekking og reynsla; Nám er vinnandi vegur; og Vinnandi vegur.“
Þetta merkir að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem fólust í því að dreifa byrðum, jafna kjör og vernda kaupmátt lægstu tekjuhópanna hafi almenn eftirspurn haldist meiri en ella hefði verið. Það hafi að sínu leyti komið í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi eins og allar mælingar sýna. Samanburður við önnur lönd, sem glímt hafa við kreppu, varpar einnig ljósi á þetta.