Auknar vaxtabætur – aðgerð sem hreif þegar á reyndi
Lækkun ráðstöfunartekna árin 2009 og 2010 vegna gengisfalls krónunnar og verðbólgu lagði mun þyngri byrðar á heimilin í landinu en hækkun skuldanna sjálfra gerði eftir bankahrunið 2008.
Þetta er ein af niðurstöðum höfunda skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif mótvægisaðgerða á skuldavanda, fátækt og atvinnu. Skýrslan er sú síðari af tveimur sem Þjóðmálastofnun gerði fyrir velferðarráðuneytið og var hún birt 27. september síðastliðinn.
Auknar vaxtabætur léttu því verulega undir með heimilunum. Hæstar urðu þær árið 2010 en þá jaðraði við að þriðjungur húsnæðisvaxta heimilanna væri greiddur úr ríkissjóði.
Stuðningur við lágtekjuhópa
Um vaxtabæturnar segir m.a. í niðurstöðum Þjóðmálastofnunar: „Niðurgreiðsla vaxtakostnaðar vegna húsnæðislána með vaxtabótum hafði rýrnað mikið frá 1995 til 2005, eða um meira en helming. Þannig voru vaxtabætur að meðaltali um 27% af vaxtakostnaði húsnæðislána árið 1995 en fóru niður í 12,3% árið 2005 og 15,6% árið 2007. Þessi niðurgreiðsla á vaxtakostnaði heimilanna var verulega aukin eftir hrun og náði hámarki í um 31% árið 2010, en lækkaði svo lítillega í 27,5% árið 2011 vegna lægri skulda og hækkunar ráðstöfunartekna á því ári.“
Vaxtabætur – líkt og barnabætur – rata auðveldlega á réttan stað og koma þeim til góða sem þurfa á að halda. Barnabætur renna t.d. aðeins til barnafjölskyldna burtséð frá jafnandi leiðréttingum vegna mismunandi tekna.
Með sama hætti renna vaxtabæturnar með kerfisbundnum hætti til lægri tekjuhópanna í þjóðfélaginu. „Þannig varð niðurgreiðsla vaxtakostnaðar hjá tekjulægstu 10% heimila nálægt 45% á árinu 2010, um 35% hjá miðtekjuhópum (þeim sem eru í miðju tekjustigans) og tekjuhæstu 10% heimila fengu tæplega 10% vaxtakostnaðar síns niðurgreiddan árið 2010, eftir að hafa ekki notið neinna vaxtabóta 2006-2009,“ segir í skýrslu Þjóðmálastofnunar.
Íþyngjandi neyslulán
Því er ágætlega lýst í kynningarefni Þjóðmálastofnunar á vef velferðarráðuneytisins (glæra 13 – 18) hvernig vaxtabætur hafa mætt vaxtakostnaði af húsnæðislánum með mismunandi hætti eftir tekjuhópum. Mestu munar um þær hjá lægstu tekjuhópunum.
Höfundar skýrslunnar álykta að verulega auknar niðurgreiðslur vaxta af húsnæðislánum árið 2010 hafi gert að verkum að greiðslubyrði þeirra hafi ekki verið stærsti vandi heimilanna eftir hrun heldur hafi greiðslubyrði af öðrum lánum, svo sem bíla- og neyslulánum verið meiri í reynd en byrðin af húsnæðislánum. Greiðslubyrði af húsnnæðislánum var um 5,4% að jafnaði árið 2010. Greiðslubyrði neyslulána hafði aukist mun hraðar eða úr 2,8% af ráðstöfunartekjum árið 2007 í um 6,4% árið 2009.