Hoppa yfir valmynd
10. október 2012

Staða heimilanna batnar

Ráðstöfunartekjur heimila hækkuðu árið 2011 um 9,6% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,3% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 5,1%.

Þetta kemur fram í nýjum útreikningum Hagstofu Íslands. Ráðstöfunartekjur heimila eru skilgreindar sem samtala launatekna og eignatekna. Undir þetta heyra einnig svokallaðar tilfærslutekjur en það eru greiðslur frá opinbera velferðarkerfinu svo sem barnabætur, vaxtabætur, atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur. Greiðslur úr lífeyrissjóðum o.fl. flokkast einnig sem ráðstöfunartekjur heimila.

Mismunandi gögn vísa í sömu átt

Þessar upplýsingar Hagstofunnar styðja vel gögn sem Seðlabanki Íslands birti nýverið í ritinu Fjármálastöðugleiki 2012/2. Þar er að finna margvísleg talnagögn um þróun mála.

Vanskil halda áfram að lækka

Hlutfall útlána í vanskilum lækkar til að mynda jafnt og þétt. Í lok júlí síðastliðnum voru 16% af heildarútlánum þriggja stærstu viðskiptabankanna og íbúðalánasjóðs til heimila í vanskilum samanborið við 22% í maí 2010. (Hér ber að athuga að öll lán eins viðskiptavinar teljast vera í vanskilum þegasr eitt þeirra er komið í vanskil.). Breytingar til hins betra sjást vel á meðfylgjandi mynd, en hún sýnir stöðuna fyrst í maí 2010 og nú síðast í júlí á þessu ári þegar 84% útlánanna eru komin í skil. Útlán í vanskilum umfram 90 daga voru komin niður í 10 % hjá þremur stærstu viðskiptabönkunum en þau urðu mest 18% í desember 2010.

Reyndin er sú að þótt vanskil séu en æði mikil í sögulegu samhengi hefur dregið mjög úr þeim hér á landi frá því þau urðu mest árið 2010. Samanburðurinn við önnur kreppuhrjáð lönd er að þessu leyti hagstæður. Vanskil hafa t.a.m. vaxið hratt í Grikklandi, Ungverjalandi og á Spáni og Írlandi frá árinu 2010. Vanskil hafa hins vegar minnkað í Litháen frá árinu 2009 þótt enn séu þau nærfellt tvöfalt meiri þar en hér á landi.

Dregur úr vanskilum

Í þessu sambandi  er áhugavert að skoða vanskilaskrá þá sem Creditinfo heldur. Meðfylgjandi mynd sýnir að  tæplega 16 þúsund einstaklingar hafa verið skráðir með árangurslaust fjárnám eða hafa orðið gjaldþrota frá ársbyrjun 2009. Um þetta segir í skýrslu SÍ.: „Ekki er ljóst hversu stór hluti þessara einstaklinga er ennþá skráður á vanskilaskrá, en ef flestir einstaklingar fara af vanskilaskrá sökum þess að fyrningartími er liðinn má gera ráð fyrir að afskráningum af vanskilaskrá fari að fjölga á næstu misserum þegar 4 ár eru liðin frá falli fjármálakerfisins og tvö ár eru liðin frá því að fyrningartími skiptaloka var færður niður úr fjórum árum í tvö.“

Vanskilaskrá

Línurit yfir fjölda og hlutfall einstaklinga sem fara inn á vanskilaskrá og út af henni styður þessa ályktun í stöðugleikaskýrslu Seðalbankans.  Þeim fækkar stöðugt sem komast í vanskil og þeim fjölgar sem fara út af vanskilaskránni.  Enda voru 5.266 árangurslaus fjárnám gerð meðal einstaklinga fyrstu 8 mánuðina í fyra en aðeins 2.327 á sama tímabili nú.  Þetta er um 50% fækkun.

„Staða heimilanna heldur áfram að batna.“

Batamerkin eru fleiri sem benda í sömu átt. Fram kemur í stöðugleikaskýrslu S.Í. að hlutfall framteljenda sem skulda meira en þrefaldar árstekjur lækkar í frysta skipti milli ára í fyrsta skipti frá árinu 1998. „Á árinu 2010 skuldaði tæplega 31% framteljenda meira en þrefaldar árstekjur, en hlutfalli lækkaði í 29% á árinu 2011. Hér er um að ræða vísbendingu um að greiðslubyrði þeirra aðila sem mestar hafa skuldirnar í hlutfalli við tekjur sé að lagast.“

Framteljendum sem skulda meira en þrefaldar árstekjur fækkar loks

Um þennan viðsnúning heimilanna segir loks í skýrslu S.Í. um stöðugleikann. „Staða heimilanna heldur áfram að batna. Lækkun heildarskulda heimilanna sýnir að árangur hefur náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu heimilanna og er líklegt að þær muni halda áfram að lækka næstu misserin. Einkaneysla jókst umtalsvert á árinu 2011 og er áætlað að slík þróun haldi áfram og að vöxtur hennar í ár verði um 3%. Kaupmáttur launa hefur haldið áfram að aukast á árinu 2012 eftir um 3,7% hækkun á árinu 2011.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta