„Úr kreppu í vöxt“
Viðsnúningur hefur orðið á vinnumarkaði að mati sérfræðinga við Háskólann í Reykjavík sem kynntu í vikunni niðurstöður rannsóknar á mannauði og horfum á nýráðningum hjá fyrirtækjum í landinu. Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi í HR undir fyrirsögninni Úr kreppu í vöxt – viðsnúningur á vinnumarkaði, en rannsóknin var gerð af Arneyju Einarsdóttur lektor og Katrínu Ólafsdóttur lektor. Um niðurstöðurnar sagði Katrín í hádegisfréttum RÚV 18. október:
„Niðurstöður okkar leiða í ljós, að það eru 90 prósent fyrirtækja eða rúmlega það sem eru að ráða til sín starfsfólk. Margir eru að ráða svona á bilinu 1 til 10 en það eru dæmi um það að fyrirtæki séu að ráða yfir 50 og jafnvel yfir 100 manns.“
Helst eru það fyrirtæki í þjónustugreinum sem bæta við sig fólki. Fram kom að langflest fyrirtækjanna telja litlar eða engar líkur á hópuppsögnum á næstunni.
Rannsókn Arneyjar og Katrínar tók til allra fyrirtækja sem hafa yfir 70 starfsmenn, alls liðlega 300 fyrirtæki. Svör bárust frá helmingi þeirra en gagna var aflað á tímabilinu frá febrúar til maí á þessu ári.
Þegar litið er til þess hvenær gagna var aflað í umræddri athugun má ætla að þau falli vel að nýjustu gögnum Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi. Það minnkaði umtalsvert síðastliðið vor eða úr liðlega 7 % í 4,7% í júlí síðastliðnum og mældist 4,9% í síðasta mánuði. Að jafnaði var atvinnuleysið 5,9% frá janúar til september á þessu ári en var 7,5% á sama tímabili í fyrra.
Nýráðningar árið 2011
Heimild: Háskólinn í Reykjavík
Uppsagnir næstu 6 mánuði
Heimild: Háskólinn í Reykjavík
Gögn vísa öll í sömu átt
Sama er upp á teningnum í mælingum Hagstofu Íslands sem birtar voru í vikunni, en þar er atvinnuleysið áætlað 5% eða einu prósentustigi lægra en á sama tíma í fyrra. „Atvinnuleysi í september 2012 var 4,3% á meðal karla miðað við 5,5% í september 2011 og meðal kvenna var það 5,7% miðað við 6,4% í september 2011.“
Jafnframt sýna gögn Hagstofunnar að undanfarna 18 mánuði hafa atvinnuleysistölur jafnt og þétt leitað niður á við.
Alþýðusamband Íslands birti hagspá sína í vikunni og virðist meta fyrirliggjandi gögn um atvinnuástandið með svipuðum hætti og telur að atvinnuleysið verði komið niður í 3,8% árið 2015. Um hagvöxt og atvinnuástand segir ASÍ m.a.: „Hagdeildin spáir því að landsframleiðsla aukist á næstu árum og að árlegur hagvöxtur verði á bilinu 2,5-2,8% fram til ársins 2015. Hagvöxturinn verður drifinn áfram af fjárfestingum en vonir hafa glæðst um auknar fjárfestingar í hagkerfinu á spátímanum. Framkvæmdir eru hafnar við Vaðlaheiðargöng og vaxandi líkur eru á að framkvæmdir við álver í Helguvík hefjist að nýju á næsta ári auk byggingu fangelsis á Hólmsheiði og nýs Landspítala. Samkvæmt spánni dregur úr atvinnuleysi en það verður um 3,8% í lok spátímans. Spáð er að verðbólgan verði 4,5% að meðaltali á næsta ári en fari síðan lækkandi og verði komin í 2,6% árið 2015.“
ASÍ telur fram að verði ekki af nefndum framkvæmdum dragi það úr þeim hagvexti sem almennt er spáð.
Greiningardeild Íslandsbanka fjallaði einnig um atvinnumarkaðinn 17. október sl. og sagði m.a.: „Samkvæmt nýlegri hagspá okkar ætti hagvöxtur að verða nægjanlega hraður á næstu misserum til að bæta atvinnuástandið enn frekar. Spáum við því að úr atvinnuleysi dragi á næstunni og að það verði komið niður í 4,1% í lok spátímabilsins sem er árið 2014.“