Hoppa yfir valmynd
25. október 2012

Til fyrirmyndar í jafnréttismálum

Kyn

Í hópi 132 þjóða er Ísland enn með hæstu jafnréttisvísitölunaAlþjóða efnahagsráðið ( World Economic Forum ) hefur fjórða árið í röð skipað Íslandi í efsta sætið á lista ráðsins yfir stöðu jafnréttismála í heiminum. Norðurlöndin eru sem fyrr í efstu sætunum meðal 132 þjóða sem athugun WEF tekur til.  Á kvarðanum 0 til 1 hefur Ísland nú 0,86 stig og er því ekki ýkja fjarri fullkomnum kynjajöfnuði.

WEF metur stöðu ríkjanna út frá fjórum lykilþáttum þ.e. aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun og þátttöku í stjórnmálum. Loks er fjallað um efnahagslega stöðu; atvinnuþátttöku, launajafnrétti, atvinnutekjur og hlutfall kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.„Það er athyglisvert að Ísland bætir stöðu sína umtalsvert á milli ára og skorar núna 0, 8640 stig og vantar samkvæmt þessari aðferðarfræði því aðeins 0,1360 stig upp á fullkomið jafnrétti. Þetta er mér sérstakt gleðiefni,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þegar hún ávarpaði gesti á málþinginu Þekking í þágu jafnréttis sem haldið var í Hörpu á Kvennafrídeginum 24. október síðastliðinn.

Áætlun um frekari aðgerðir

Stjórnvöld, samtök atvinnurekenda,  launamanna og sveitarfélaga undirrituðu þennan sama dag viljayfirlýsingu um að koma á fót sameiginlegum aðgerðarhópi til að vinna að launajafnrétti kynjanna. „Markmið slíks samstarfs er að að eyða kynbundnum launamun sem enn er viðvarandi vandi á innlendum vinnumarkaði,“ segir orðrétt  í viljayfirlýsingunni.

  • Þekking í þágu jafnréttis, málþing í Hörpu
    Þekking í þágu jafnréttis, málþing í Hörpu
    Guðbjartur Hannesson, Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri gestir á málþingi

Við sama tækifæri kynnti Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra,  aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynja. Framangreind viljayfirlýsing, sem af hálfu stjórnvalda var undirrituð af velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, er liður í þessari áætlun en hún felur auk þess í sér tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals og að komið verði á fót upplýsingaveitu um launajafnrétti. Þá er ráðgert að efla rannsóknir á fæðingarorlofi, áhrifum þess á verkaskiptingu á heimilum og stöðu foreldra á vinnumarkaði svo nokkuð sé nefnt.
Jafnréttisbaráttan er að sumu leyti glíma við tregðulögmálið og árangurinn verður áþreifanlegri þegar allir stilla saman strengi eins og Jóhanna Sigurðardóttir vék orðum að í ávarpi sínu á málþinginu: „Það er margreynt að við náum ekki árangri í baráttunni gegn þessu djúpstæða vandamáli sem launamunur kynjanna er hvert í sínu horni. Við þurfum samstillt átak og einarðan vilja allra helstu lykilaðila á vinnumarkaði. Reynsla síðustu ára hefur líka kennt okkur að það er ekki til nein ein allsherjarlausn á þessum vanda. Við þurfum að efna til margra aðgerða í senn og beita margs konar verkfærum, afmarka aðgerðir sem hægt er að grípa til strax eða innan mjög skamms tíma  um leið og við mótum sýn okkar á hvernig við getum unnið til langs tíma.“

Stór skref fram á við

En stöðug hreyfing er á jafnréttismálum hér á landi eins og mælingar WEF bera vitni um.  Í sóknaráætlun fyrir Ísland 2020 er stefnt að því marki að jafnréttisvísitala WEF verði komin í 0,9  árið 2020 sem virðist ekki svo fjarlægur draumur miðað við að hafa náð vísitölunni 0,86 árið 2012.

Um þetta markmið sagði Jóhanna í ávarpi sínu. „Við höfum nú þegar lagt góðan grunn að því að þetta verði að veruleika. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða munu að fullu koma til framkvæmda á næsta ári. Við höfum jafnað hlut kynja í ríkisstjórn og í æðstu embættum ríkisins. Eins og hér mun koma betur fram ætlum við að blása til nýrrar sóknar í baráttunni gegn launamun kynjanna...  Jafnréttismarkmiðið í Sóknaráætlun fyrir Ísland 2020 er því að mínu mati algerlega raunhæft.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta