Átökin á Gasa-svæðinu og afstaða Íslands
Enn hafa viðræður Ísraelsmanna og Palestínumanna um vopnahlé ekki verið til lykta leiddar en mjög er þrýst á að því verði komið á sem fyrst.
„Ísraelsk stjórnvöld hófu umfangsmiklar hernaðaraðgerðir á Gasa 14. nóvember sl. í kjölfar þess að liðsmenn Hamas og skyldra samtaka höfðu dagana á undan skotið eldflaugum á byggðir í suðurhluta Ísraels. Viðbrögð Ísraelshers hafa falið í sér mjög harðar loftárásir á Gasa, bæði tiltekin hernaðarleg en einnig borgaraleg skotmörk. Hafa nú þúsundir slíkra árása átt sér stað, m.a. á borgaralegar byggingar sem hýsa alþjóðlega fjölmiðla. Yfir eitt hundrað Palestínumenn hafa týnt lífi í árásunum, og fjölmörg börn eru í þeirra hópi. Hundruðir óbreyttra borgara hafa særst. Innanríkisráðherra Ísrael, Eli Yishai, hefur í tilefni árásanna lýst yfir að tilgangurinn sé að eyða innviðum á svæðinu og sagt að “markmið aðgerðanna er að senda Gasa aftur í miðaldir.” Þrír Ísraelar hafa dáið og óbreyttir borgarar hafa slasast í eldflaugaárásum frá Gasa og í sprengjutilræði í Tel Aviv, stærstu borg Ísraels í morgun.
Ísraelsk stjórnvöld hafa kallað út 75 þúsund manna varalið og virðast undirbúa landhernað á Gaza. Við blasir að áframhaldandi átök geta aðeins orðið til þess að manntjón verði enn meira og aðstæður aðþrengdra íbúa Gasa-svæðisins enn ömurlegri en þær eru fyrir. Vart þarf að efast um að áhrif loftárásanna á sálrænt ástand barna jafnt sem fullorðinna verða langvarandi,“ eins og segir í minnisblaði Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, sem hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær.
Alþingi fjallar um málið
Átök Ísraelsmanna og Palestínumanna og hörmulegt mannfall á Gasa-svæðinu var til sérstakrar umræðu á Alþingi í gær. Árni Þór Sigurðsson (Vg) , formaður utanríkismálanefndar sagði m.a. í upphafi umræðunnar: „Ísland á að láta málið til sín taka hvar og hvenær sem er, fordæma framferði Ísraela og gagnrýna Bandaríkjastjórn hispurslaust fyrir linnulausan og að því er virðist skilyrðislausan stuðning í verki við ólögmætar og ofbeldisfullar aðgerðir Ísraela. Við eigum að vera sjálfstæð og einlæg í stuðningi okkar við frelsisbaráttu Palestínu.“
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók til máls á eftir formanni utanríkismálanefndar og lýsti því hvernig stjórnvöld hefðu fordæmt árásirnar á Gasa og harmað mannfallið. Hann lýsti ennfremur hvernig hann hefði sem utanríkisráðherra beitt sér í málefnum Palestínu og ráðfært sig við ýmsa um hvernig Ísland gæti best gert gagn. Hann sagði m.a. „Ég ræddi við fjölmarga stjórnmálamenn og kollega mína, utanríkisráðherra, víðs vegar um heiminn, t.d. á Norðurlöndum, en einnig ræddi ég við utanríkisráðherra nágrannaríkja Palestínu, m.a. í Jórdaníu. Ég ræddi einnig við forustumenn Arababandalagsins og Egyptalands á þessum tíma. Ég ræddi málið við Abbas Palestínuforseta á löngum fundi og niðurstaðan var þessi, eins og ég greindi frá á sínum tíma: Enginn þessara taldi rétt að Ísland sliti stjórnmálasambandi við Ísrael, það er rétt að það komi hér fram. Allir, þar á meðal forseti Palestínu, lögðu ríkt á um að við værum í færum til að tala máli þeirra gagnvart Ísrael. Abbas Palestínuforseti sagði: Markmið okkar er ekki að einangra Ísrael heldur að fá aðrar þjóðir til að færa þeim heim sanninn um að þeir verða að semja frið.“
Ófriðurinn og afstaða alþjóðasamfélagsins
Össur sagði ennfremur: „Það útilokar eigi að síður ekki við vissar aðstæður að menn mundu endurmeta stjórnmálasamband við Ísrael en ég tel að það væri fráleitt af Íslandi að gera það eitt og sér. Það verður að gera það með einhverjum hætti í samvinnu og samfylgd annarra ríkja. Þá er rétt að greina frá því að á þessum morgni hafði utanríkisráðuneytið í Palestínu samband við mig og tjáði mér meðal annarra orða að þeir teldu rétt að hvað eina sem Íslendingar gripu til gagnvart Ísrael yrði gert í samvinnu við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Það hef ég kappkostað að gera. Ég hef jafnan haft frumkvæði að því í þeim hópi að taka upp málefni Palestínu. Ég hef líka átt viðræður við hinar Norðurlandaþjóðirnar í tilefni þessara viðræðna. Það er rétt að það komi algerlega skýrt fram sem svar við spurningu hv. þingmanns að Ísland, að því er ég best veit, hefur ein Norðurlandaþjóðanna lýst yfir skilyrðislausum stuðningi við tillöguna um að Palestína verði tekin í hóp þeirra ríkja sem sitja á þingi Sameinuðu þjóðanna, að hún fái aukaaðild að þeim samtökum. Það hefur engin önnur Norðurlandaþjóð gert. Það hefur ekkert ríki í Vestur-Evrópu lýst með þeim hætti, með skilyrðislausum stuðningi.“
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók einnig til máls í umræðunum og kvaðst telja rétt að Íslendingar hefðu áfram frumkvæði í þessum málum og skoðuðu nánar hvaða leiðir væru færar. „Menn hafa hér einkum rætt um stjórnmálasamband, ég tel rétt að við horfum á leiðir á borð við viðskiptaþvinganir, á borð við menningarleg samskipti, á sviði menningar og íþrótta. Rifjum upp að þó að margir hafi talið að viðskiptaþvinganir mundu ekki skila árangri gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og að þær mundu jafnvel bitna helst á hinum þeldökka meiri hluta, skiluðu þær samt árangri á endanum. Ég held að þó að rétt sé að við reynum að beita okkur í hópi annarra þjóða í þessum málum, því að þetta er auðvitað mál sem er fyrst og fremst leyst með þrýstingi þjóða saman, verðum við að gera eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, að skoða allar leiðir því að við getum ekki látið þetta ástand viðgangast.“
Næstu skref
Í áðurgreindu minnisblaði utanríkisráðherra kemur fram að engin teikn séu enn á lofti um að samstaða um aðgerðir á borð við algert viðskiptabann hafi skapast. Hins vegar skoði utanríkisráðuneytið allar leiðir um aðgerðir sem hægt væri að grípa til, til að beita þrýstingi á ísraelsk stjórnvöld til að stöðva loftárásir og landtöku og liðka fyrir friði millum þeirra og Palestínumanna. „Í þessu samhengi er hins vegar rétt að benda á að utanríkisráðuneytið mun í næstu viku sækja fund í Brussel á vegum DanChurchAid og Crisis Action, sem haldinn er með stuðningi danskra stjórnvalda, um varning sem framleiddur er í landtökubyggðum Ísraela á Vesturbakkanum og fluttur út til sölu í Evrópuríkjunum. Verður þar rætt um hugsanlegar leiðir til að stuðla að því að ísraelsk stjórnvöld láti af ólöglegri landtökustefnu sinni en jafnframt má ætla að önnur úrræði af viðskiptalegum toga komi til umræðu,“ segir ennfremur í minnisblaði utanríkisráðherra til ríkisstjórnarinnar.