Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2012

Bjartari horfur um þjóðarhag en víðast hvar

Gluggar á Alþingishúsinu
Gluggar á Alþingishúsinu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að umræða um fyrirhugaða nauðasamninga  við gömlu bankana sé á nokkrum villigötum. Málið sé þó eitt af stóru málunum á borðum ríkisstjórnar, Seðlabanka Íslands og Alþingis.
Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu forsætisráðherra í sérstökum umræðum  á Alþingi í dag um stöðu þjóðarbúsins, en málshefjandi var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki.
Jóhanna sagði einnig að  staða heimila og fyrirtækja héldi áfram að batna og eignir umfram skuldir hefðu aukist um 17% í fyrra frá árinu áður. Skuldir fyrirtækja og heimila væru nú um 280% af landsframleiðslu en hefðu verið 510% þegar þær náðu hámarki haustið 2008.

Ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, má lesa hér í heild sinni:

"Staða þjóðarbúsins er góð miðað við aðstæður og hagvaxtarhorfur hér á landi eru bjartari en á meðal annarra iðnvæddra ríkja, að mati innlendra og erlendra sérfræðinga.

Ný spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 2,5% hagvexti á þessu ári sem fer vaxandi næstu ár og verður  3,7% 2015. Þetta sýnir að verðmætasköpunin í samfélaginu er að aukast.

Allt þetta ár hefur atvinnuleysi verið minnka og starfandi einstaklingum er að fjölga á ný eftir að hafa fækkað töluvert í kjölfar hrunsins.

Á síðasta ári jókst hlutur atvinnuvegafjárfestingar í landsframleiðslu í fyrsta sinn frá árinu 2006, eða um 25%. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir yfir 10 milljarða innspýtingu í fjárfestingar í innviðum samfélagsins og í græna hagkerfið. Ný könnun Seðlabankans um fjárfestingaráform innlendra fyrirtækja bendir einnig til þess að fjármunamyndunin verði meiri í ár en áður var gert ráð fyrir.

Staða heimila og fyrirtækja er jafnt og þétt að batna á ný. Heildareignir að frádregnum heildarskuldum, námu yfir 1,800 milljörðum um síðustu áramót og höfðu aukist um tæp 17% á milli ára.

Skuldir fyrirtækja og heimila eru nú um 280% af landsframleiðslu en voru 510% þegar þær náðu hámarki haustið 2008. Skuldir heimila og fyrirtækja frá hruni hafa því lækkað um næstum helming sem hlutfall af landsframleiðslu.

Brýnt er að ljúka endurskipulagningu skulda fyrirtækja og heimila sem fyrst, ekki síst endurútreikningum ólöglegra gengislána. Ég hef fundað með bankastjórum stóru bankanna að undanförnu um þau mál og sýnist mér að þar á bæ hafi menn tekið vel viðsér. Því ber að fagna.   

Eitt helsta verkefni kjörtímabilsins hefur verið að stoppa í um 300 milljarða fjárlagagat, vegna hallarekstrar og stóraukins vaxtakostnaðar vegna hrunsins. Nú sér einnig fyrir endan á því verkefni og ekkert sem bendir til annars en að rekstur ríkissjóðs verði nánast sjálfbær á næsta ári. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum.

Á sama tíma hefur ríkisstjórnin staðið fyrir stórfelldri hækkun vaxta- og barnabóta, lækkun skattbyrði um 60% allra heimila, auknum útgjöldum til velferðarmála og stórauknum tekjujöfnuði í samfélaginu.

Sé litið til skulda hins opinbera þá er talið að þær hafi náð hámarki á síðastliðnu ári þegar þær námu 101% af landsframleiðslu. Á þessu ári munu þær lækka í um 97% af landsframleiðslu.

Hrein skuldastaða hins opinbera er hinsvegar 66% af landsframleiðslu í ár en gert er ráð fyrir að þær lækki og nemi 53% af landsframleiðslu í lok ársins 2015.

Skuldir hins opinbera eru hérlendis svipaðar og í ýmsum öðrum iðnríkjum. Staðreyndin er sú að íslenska ríkið ræður vel við skuldir sínar og á ekki við skuldakreppu að stríða.

Mikilvægt er að fjármagnshöftunum  verði aflétt eins fljótt og auðið er. Þar verðum við þó að fara með mikilli gát og tryggja með öllum tiltækum ráðum að lífskjör almennings verði varin fyrir mögulegu gengishruni og óðaverðbólgu.  

Umræðan um fyrirhugaða nauðasamninga gömlu bankana  er á nokkrum villigötum.

Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um að þetta mál er og verður eitt af stóru málunum á borði þessarar ríkisstjórnar, Seðlabankans og Alþingis.

Það er hins vegar alveg ljóst að Seðlabankinn fékk yfirráð yfir útgreiðsluferlinu með lögunum frá 12. mars sem er afar mikilvægt .

Seðlabankinn hefur því regluvaldið þegar kemur að útstreymi gjaldeyris og hann mun ekki setja neinar reglur sem gætu ógnað hér lífskjörum eða markmiðum um fjármálastöðugleika eða þjóðhagsvarúð.

Mikilvægt er að vinna málið áfram í sátt og senda erlendum kröfuhöfum þau skýru skilaboð að pólitísk staða á Íslandi breyti engu um meðhöndlun þeirra því einhugur sé um að ganga eins langt í vörn fyrir íslenska hagsmuni og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar leyfa.

Aukin hagvöxtur, minna atvinnuleysi, lægri skuldir, minnkandi verðbólga, jafnari lífskjör og meiri bjartsýni á meðal heimila og fyrirtækja eru allt merki að við séum á réttri leið. Auðvitað er margt enn óunnið en allir helstu hagvísar sýna merki um batnandi hag."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta