Sóknaráætlanir landshluta – 400 milljónir til sveitarfélaga
Ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti í dag, 27. nóvember, úthlutun 400 milljóna króna í sóknaráætlanir landshluta fyrir árið 2013. Fjármagninu var deilt á átta landshluta og er þeim ætlað að ákvarða á grundvelli sóknaráætlana hvernig fjármagninu verður varið. Um er að ræða fé sem ætlað er að fullreyna það skipulag og vinnulag sem stýrinet allra ráðuneyta í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga hafa unnið sameiginlega að síðustu tvö ár. Fjármagnið er hluti af fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og kemur úr veiðileyfagjaldinu. Sóknaráætlanir landshluta byggja á nýju verklagi og er ætlað að skapa traustan vettvang fyrir samskipti ríkis og landshluta og er ný nálgun í svæðasamvinnu og byggðaþróun sem nær til alls landsins.
Þegar fram í sækir er einnig ráðgert að fjármagna sóknaráætlanir landshluta m.a. með því að sameina sértækra samninga og með endurskipulagningu og sameiningu á stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar. Forgangsröðun einstakra verkefna verður á hendi heimafólks. Skilgreindur verður sameiginlegur vettvangur sveitarstjórna og fulltrúa atvinnulífs og stofnana í hverjum landshluta sem koma í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda í núverandi skipulagi. Með skipulagsbreytingunum birtist sú stefna ríkisstjórnarinnar að auka vægi sveitarfélaga og landshlutasamtaka í ákvörðunum sem lúta að málefnum er standa þeim nærri.
Skiptingin
Við skiptingu fjármuna var horft til þess að árið 2013 er reynsluár. Ekki var horft til annarra samninga og ekki gert ráð fyrir fastri grunnfjárhæð fyrir hvern landshluta. Skiptingin var ákveðin á grundvelli fimm viðmiða, þ.e. íbúafjölda, íbúaþróunar, atvinnuleysis, íbúaþéttleika og hagvaxtar. Kvarði allra viðmiðanna er 0-15 og vægi þeirra eftirfarandi: íbúafjöldi 35% , íbúaþróun 20%, atvinnuleysi 15%, íbúaþéttleiki 15%, hagvöxtur 15%. Þessi fimm viðmið endurspegla þær breytur sem ríkisstjórnin taldi helst skipta máli við mat á stöðu landshluta. Þau tvö viðmið sem mest vægi hafa eru íbúafjöldi og þróun hans, samtals 55%. Viðmiðin eru skýr og hægt að mæla með reglubundnum hætti þannig að auðvelt er að fylgjast með breytingum á stöðu þeirra. Viðmið um skiptingu gilda fyrir árið 2013 en verða tekið til endurskoðunar við ráðstöfun fjár 2014.
Smelltu á töfluna til að sjá hana í stærri
Nýtt tímabil í samskiptum ríkis og sveitarfélaga
Vinnan við sóknaráætlanir landshluta innan Stjórnarráðisins, þar sem unnið er með málaflokka þvert á ráðuneyti, endurspeglar þær kröfur sem gerðar eru til nútíma stjórnsýslu. Í málaflokkum eins og byggðamálum þarf stjórnsýslan að koma fram sem ein heild. Máli skiptir að kerfið styðji nýsköpun í vinnulagi og samvinnu eins og í þessu tilfelli stýrinets Stjórnarráðsins og sveitarfélaganna. Vonast er til þess að með tilfærslu á ráðstöfunarvaldi á almannafé og auknu vægi sóknaráætlana landshluta hefjist nýtt tímabil í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.