Yfirlýsing vegna auglýsingar ASÍ sem birtist í Fréttablaðinu í dag og ummæla forseta ASÍ í ýmsum fjölmiðlum í framhaldi af henni
Formenn ríkisstjórnarflokkanna lýsa bæði undrun sinni og vonbrigðum með þær rakalausu fullyrðingar sem settar hafa verið fram í auglýsingu ASÍ um meintar vanefndir ríkisstjórnar á yfirlýsingu sem gefin var út samhliða kjarasamningum í maí 2011. Ekkert þeirra 8 efnisatriða sem þar eru tíunduð sem vanefndir ríkisstjórnarinnar á við rök að styðjast eins og ítarlega verður rakið hér.
Rétt er að minna á að aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum í maí 2011 var umfangsmeiri og kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð en oftast áður og spönnuðu verkefnin sem undir yfirlýsinguna heyrðu flest svið samfélagsins. Á grundvelli yfirlýsingarinnar og þess víðtæka samráðs við aðila vinnumarkaðarins sem þar var kveðið á um hefur verið ráðist í fjöldann allan af mikilvægum þjóðþrifamálum sem hafa skilað miklum og góður árangri og tryggt frið á vinnumarkaði.
Þetta mikilsverða samstarf hefur lagt grunninn að því að hér á landi hefur hagvöxtur verið meiri, kaupmáttur aukist meira, atvinnuleysi dregist meira saman og aðlögun ríkisfjármala hefur gengið betur en í öllum okkar helstu samanburðarlöndum.
Nú, þegar líður að endurskoðun kjarasamninganna er mikilvægt að menn viðurkenni þann mikla árangur sem náðst hefur. Hann byggist á þeim góða grunni samstarfs sem mótaður hefur verið. Þannig er hægt að vinna í sameiningu og af fullri ábyrgð að áframhaldandi lífskjarasókn íslensku þjóðarinnar.
Ósannar og ósæmilegar ásakanir eins og þær sem fram koma í auglýsingu ASÍ í dag eru ekki heppilegt innlegg í það mikilvæga starf.
Hér að neðan eru orðréttar fullyrðingar ASÍ ásamt ítarlegum svörum formanna stjórnarflokkanna um hvert atriði:
Fullyrðing ASÍ:
„Við gerð kjarasaminga í maí 2011 gaf ríkisstjórnin loforð um mikilvægar aðgerðir sem innlegg í það að ná sátt á vinnumarkaði. Veigamikil atriði hafa ekki verið efnd. ASÍ hvetur Alþingi til að standa með íslensku launafólki.“
„Hækkun atvinnuleysisbóta til jafns við hækkun lægstu launa – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng og að fullu hefur verið staðið við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Úr yfirlýsingu ríkisstjórnar: „Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“
Atvinnuleitendur sem voru að fullu tryggðir í atvinnuleysisbótakerfinu á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 og höfðu staðfest atvinnuleit á tímabilinu fengu auk þessa 50.000 króna eingreiðslu í júní 2011 í samræmi við eingreiðslu til launafólks samkvæmt kjarasamningum.
Jafnframt var atvinnuleitendum greidd desemberuppbót, 50-63 þúsund krónur árin 2011 og 2012sem hvorki er lagaskylda fyrir né getið var um í yfirlýsingu ríkisstjórnar.
Fullyrðing ASÍ:
„Hækkun bóta almannatrygginga til jafns við hækkun lægstu launa – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng og að fullu hefur verið staðið við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Úr yfirlýsingu ríkisstjórnar: „Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“
Síðustu misseri hafa stjórnvöld lagt sérstaka áherslu á að verja stöðu þeirra tekjulægstu í hópi lífeyrisþega sem og tekjulægri hópa á vinnumarkaði. Þrepaskiptur tekjuskattur sem hlýfir hinum tekjulægstu við skattahækkunum og hækkun og síðan full verðtrygging persónufrádráttar skiptir miklu í því sambandi Í júlí 2008 námu óskertar bætur einhleyps ellilífeyrisþega 136 þúsund krónum á mánuði. Í september sama ár var innleidd framfærslutrygging sem tryggði einhleypum lífeyrisþega að lágmarki 150 þúsund krónur á mánuði. Sú lágmarkstrygging lífeyris var hækkuð um 20% í janúar 2009 og fór þá í 180.000 krónur á mánuði. Aftur varð hækkun um 2,3% þann 1. janúar 2010 og þann 1. Júní 2011 í kjölfar kjarasamninga var lágmarkstryggingin hækkuð í rúmar 196.000 krónur á mánuði hjá einstaklingum sem búa einir. Þessi upphæð hækkaði í 203 þúsund krónur þann 1. janúar 2012. Þá höfðu lágmarksbætur hækkað um tæp 50% frá júlí 2008. Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 23%.
Lífeyrisþegar sem fengu greiddan lífeyri á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 fengu auk þessa 50.000 króna eingreiðslu í júní 2011, eins og almennt launafólk samkvæmt kjarasamningum.
Jafnframt var ákveðið að desemberuppbót elli- og örorkulífeyrisþega myndi hækka úr 30% í 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót. Hækkunin nam rúmum 15.000 krónum og var desemberuppbótin um 52.500 krónur hjá lífeyrisþegum.
Fullyrðing ASÍ:
„Fyrstu skref stigin í jöfnun lífeyrisréttinda fólks á almennum markaði til jafns við opinbera starfsmenn – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda eru hvergi í yfirlýsingunni gefin fyrirheit um að stigin verði skref á kjörtímabilinu og þvert á móti áréttað að slík skref verði stigin þegar betur árar í ríkisbúskapnum.
Unnið hefur verið að samræmingu lífeyrisréttinda í starfshópi sem skipaður var á grundvelli stöðugleikasáttmálans með þátttöku allra aðila á vinnumarkaði. Þessu starfi hefur miðað vel og standa viðræður um aðlögun opinbera markaðarins að þessum breytingum yfir.
Þá hafa viðræður staðið yfir frá 2011 milli fulltrúa fjármálaráðherra og samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði (BHM, KÍ, BSRB) um breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála þeirra. Jafnframt hefur frá árinu 2010 verið rætt um breytingar á heildarfyrirkomulagi lífeyrismála við fulltrúa samtaka á hinum opinbera og almenna vinnumarkaði. Almennur stuðningur er við það markmið að sköpuð sé ein heildstæð umgjörð um lífeyrissjóðina þar sem kjör og réttindi séu í meginatriðum sambærileg óháð stéttarfélagaaðild og byggð á aldurstengdum réttindaávinningi. Fulltrúar heildarsamtaka opinberra starfsmanna settu fram „áætlun og leiðarljós“ í yfirstandandi viðræðum á fundi með fjármálaráðherra 15. ágúst sl. Þar var m.a. tilgreint að hafin yrði vinna við að setja mælikvarða eða verklag við að jafna laun opinberra starfsmanna við laun á hinum almenna vinnumarkaði. Í síðustu viku var síðan haldinn fundur starfshópsins um framhald vinnunnar og mun vinnann því halda áfram.
Úr yfirlýsingu ríkisstjórnar: „Áfram verður unnið að samræmingu lífeyrisréttinda í starfshópi sem skipaður var á grundvelli stöðugleikasáttmálans með þátttöku allra aðila á vinnumarkaði. Þessu starfi hefur miðað vel og er stefnt að því að niðurstaða fáist fyrir 1. september nk. og að breytingar verði kynntar Alþingi fyrir þinglok. Þar með verður lagður grundvöllur að nýju samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn. Stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um að ekki verði hróflað við þegar áunnum réttindum opinberra starfsmanna og breytingar á lífeyrismálum unnar í nánu samráði við samtök þeirra.
Við blasir að verulega skortir á að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna fái ráðið við skuldbindingar sínar án sérstakra framlaga úr ríkissjóði. Árlegt viðbótarframlag þyrfti að nema á þriðja tug milljarða króna frá árinu 2021, hafi ekki verið gripið til ráðstafana í tíma. Af hálfu stjórnvalda stendur ekki til að safna þessum vanda upp og fresta því um áratug að takast á við hann. Þvert á móti miða viðræður og starf sem nú er í gangi að því að ná utan um þennan vanda og afmarka hann, semja um viðbrögð og leggja niður áætlun um hvenær inngreiðslur hefjist um leið og betur árar í ríkisbúskapnum. Nýlega var skipaður samráðshópur samtaka opinberra starfsmanna og fjármálaráðherra til að gera tillögu um hvernig það verður gert. Haft verður samráð við ASÍ og sveitarfélögin um breytingar á réttindum þeirra félagsmanna sambandsins sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum.
Jöfnun áunninna lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins er viðamikið og brýnt verkefni, samanber það sem að ofan greinir um samræmt og sjálfbært lífeyriskerfi fyrir vinnumarkaðinn í heild. Gripið hefur verið til almennra skerðinga á lífeyrisgreiðslum í lífeyrissjóðum á samningssviði ASÍ vegna áfalla sem þeir hafa orðið fyrir í tengslum við hrun fjármálakerfisins. Ástæða er til að bregðast sérstaklega við þeim vanda sem hér um ræðir. Það gæti t.a.m. falist í þátttöku ríkisins í inngreiðslum til að jafna uppávið lífeyrisréttindi í almenna kerfinu eftir því sem við á og þegar aðstæður í ríkisfjármálum leyfa og þá á 10 – 15 ára tímabili. Stjórnvöld lýsa sig reiðubúin til skipa þegar í stað starfshóp með fulltrúum ASÍ, SA og fjármálaráðherra til að gera tillögur um hvernig það verði gert og skal hann skila niðurstöðum fyrir lok september 2011 sem verði lagðar fyrir Alþingi.“
Fullyrðing ASÍ:
„Afnám laga um skattlangingu á lífeyrisréttindi fólks á almennum markaði – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda er ekkert sagt um þetta atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í rúmt ár hefur hinsvegar staðið í stappi milli stjórnvalda og lífeyrissjóðanna vegna vanefnda þeirra á undirrituðum skriflegum fyrirheitum forsvarsmanna þeirra um að leggja til 6 milljarða til sérstakra vaxtabóta sem hafa runnið til skuldugra heimila á árunum 2011 og 2012. Þrátt fyrir loforð lífeyrissjóðanna um að fjármagna umrædda 6 milljarða hefur ekki verið við það staðið og nú kalla forsvarsmenn ASÍ 1,5 milljarða skatt, sem var upp í umrætt lofoð, svik stjórnvalda á ótengdri yfirlýsingu þar sem hvergi er um málið fjallað.
Fullyrðing ASÍ:
„Gengi krónunnar styrkt – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda er ekkert fjallað um þetta atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Umrætt atriði er hinsvegar ein af forsendum kjarasamninga á milli ASÍ og SA sem ljóst er að ekki mun ganga eftir. Að kalla það vanefndir ríkisstjórnar er hinsvegar fráleitt.
Fullyrðing ASÍ:
„Verðbólga í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans (2,5%) – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda er ekkert fjallað um þetta atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Umrætt atriði er hinsvegar ein af forsendum kjarasamninga á milli ASÍ og SA sem ljóst er að ekki mun ganga eftir. Að kalla það vanefndir ríkisstjórnar er hinsvegar fráleitt.
Fullyrðing ASÍ:
„Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng, enda er ekkert sagt um að rammaáætlun skuli afgreiða í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur áréttað það markmið að afgreiða málið sem fyrst í viðeigandi ferli. Við þetta hefur að fullu verið staðið, þó sannarlega hafi tafir orðið á ferlinu vegna ágreinings og mikilla athugasemda ýmissa aðila. Rammaáætlun er nú föst í málþófi stjórnarandstöðunnar í seinni umræðu á Alþingi, sem þegar hefur staðið í fjóra daga.
Úr yfirlýsingu ríkisstjórnar: „Stefnt er að því að frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða verði afgreitt á vorþingi. Rammaáætlun verður lögð fram á næstu vikum og fer í viðeigandi ferli. Stjórnvöld stefna að því að hún verði afgreidd á næsta haustþingi.“
Fullyrðing ASÍ:
„Róttækar aðgerðir í atvinnumálum og auknar fjárfestingar – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng en unnið hefur verið markvisst að öllum þeim atriðum sem sett voru fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, m.a. í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Á grundvelli þeirra markmiða hefur tekist að draga úr atvinnuleysi, stórauka menntunarúrræði og ráðast í fjölmörg þjóðþrifaverkefni sem skapað hafa atvinnu og bætt mannlíf.
Sannarlega hafa ýmis markmið ekki gengið að fullu eftir eða framvinda orðið hægari en vonast var til, Á það ekki síst við um markmið um að auka fjárfestingu, en þar vegur bágborið efnahagsástand í Evrópu og heimsbúskapnum þungt. Í öðrum tilvikum hafa skipulagsferli á vegum sveitarfélaga reynst tímafrekari en gert var ráð fyrir o.s.frv. Fráleitt er að skrifa þau mál á reikning ríkistjórnar, sem er að gera það sem hún getur við erfiðar aðstæður sbr. þá fjárfestingaáætlun sem nú hefur að fullu verið tekin inn í fjárlagafrumvarpið eftir 2. umræðu. Með fjárfestingaáætluninni í heild verður á annan tug milljarða króna, í viðbót við það sem fyrir var, varið til fjölbreyttra fjárfestingarvekefna, til að efla rannsóknar- og þróunarsjóði, í uppbyggingu ferðamannastaða og þjóðgarða, stuðning við skapandi greinar og í græna hagkerfið.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra