Yfirlýsing vegna auglýsingar ASÍ sem birtist í Fréttablaðinu í dag og ummæla forseta ASÍ í ýmsum fjölmiðlum í framhaldi af henni
Formenn ríkisstjórnarflokkanna lýsa bæði undrun sinni og vonbrigðum með þær rakalausu fullyrðingar sem settar hafa verið fram í auglýsingu ASÍ um meintar vanefndir ríkisstjórnar á yfirlýsingu sem gefin var út samhliða kjarasamningum í maí 2011. Ekkert þeirra 8 efnisatriða sem þar eru tíunduð sem vanefndir ríkisstjórnarinnar á við rök að styðjast eins og ítarlega verður rakið hér.
Rétt er að minna á að aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum í maí 2011 var umfangsmeiri og kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð en oftast áður og spönnuðu verkefnin sem undir yfirlýsinguna heyrðu flest svið samfélagsins. Á grundvelli yfirlýsingarinnar og þess víðtæka samráðs við aðila vinnumarkaðarins sem þar var kveðið á um hefur verið ráðist í fjöldann allan af mikilvægum þjóðþrifamálum sem hafa skilað miklum og góður árangri og tryggt frið á vinnumarkaði.
Þetta mikilsverða samstarf hefur lagt grunninn að því að hér á landi hefur hagvöxtur verið meiri, kaupmáttur aukist meira, atvinnuleysi dregist meira saman og aðlögun ríkisfjármala hefur gengið betur en í öllum okkar helstu samanburðarlöndum.
Nú, þegar líður að endurskoðun kjarasamninganna, er mikilvægt að menn viðurkenni þann mikla árangur sem náðst hefur. Hann byggist á þeim góða grunni samstarfs sem mótaður hefur verið. Þannig er hægt að vinna í sameiningu og af fullri ábyrgð að áframhaldandi lífskjarsókn íslensku þjóðarinnar.
Ósannar og ósæmilegar ásakanir eins og þær sem fram koma í auglýsingu ASÍ í dag eru ekki heppilegt innlegg í það mikilvæga starf.
Hér að neðan eru orðréttar fullyrðingar ASÍ ásamt svörum formanna stjórnarflokkanna, en í fylgiskjali er ítarlegar farið yfir hvert atriði:
Fullyrðingar ASÍ:
„Við gerð kjarasaminga í maí 2011 gaf ríkisstjórnin loforð um mikilvægar aðgerðir sem innlegg í það að ná sátt á vinnumarkaði. Veigamikil atriði hafa ekki verið efnd. ASÍ hvetur Alþingi til að standa með íslensku launafólki.“
1. „Hækkun atvinnuleysisbóta til jafns við hækkun lægstu launa – ekki efnt“
2. „Hækkun bóta almannatrygginga til jafns við hækkun lægstu launa – ekki efnt“
Svar: Hvort tveggja er rangt. Að fullu hefur verið staðið við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að “endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“
Jafnframt var atvinnuleitendum greidd desemberuppbót sem hvorki er lagaskylda fyrir né getið var um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Fullyrðing ASÍ:
3. „Fyrstu skref stigin í jöfnun lífeyrisréttinda fólks á almennum markaði til jafns við opinbera starfsmenn – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda hvergi gefin fyrirheit um að stigin verði skref á kjörtímabilinu og þvert á móti áréttað að slík skref verði stigin þegar betur árar í ríkisbúskapnum. Umfangsmikið starf hefur verið unnið að samræmingu lífeyrisréttinda í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á grundvelli yfirlýsingarinnar og stendur það starf enn.
Fullyrðing ASÍ:
4. „Afnám laga um skattlangingu á lífeyrisréttindi fólks á almennum markaði – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda er ekkert sagt um þetta atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Fullyrðingar ASÍ:
5. „Gengi krónunnar styrkt – ekki efnt“
6. „Verðbólga í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans (2,5%) – ekki efnt“
Svar: Hvort tveggja er rangt enda er ekkert fjallað um þetta atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Umrædd atriði eru hinsvegar forsendur kjarasamninga á milli ASÍ og SA sem ljóst er að ekki munu ganga eftir. Að kalla það vanefndir ríkisstjórnar er hinsvegar fráleitt.
Fullyrðing ASÍ:
7. „Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng enda ekkert sagt um að rammaáætlun skuli afgreiða í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur áréttað það markmið að afgreiða málið sem fyrst í viðeigandi ferli. Rammaáætlun er nú föst í málþófi stjórnarandstöðunnar í seinni umræðu á Alþingi, sem þegar hefur staðið í fjóra daga.
Fullyrðing ASÍ:
8. „Róttækar aðgerðir í atvinnumálum og auknar fjárfestingar – ekki efnt“
Svar: Fullyrðingin er röng en unnið hefur verið markvisst að öllum þeim atriðinum sem sett voru fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, m.a. í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Á grundvelli þeirra markmiða hefur tekist að draga úr atvinnuleysi, stórauka menntunarúrræði og ráðast í fjölmörg þjóðþrifaverkefni sem skapað hafa atvinnu og bætt mannlíf.
Sannarlega hafa ýmis markmið í atvinnumálum ekki gengið að fullu eftir eða framvinda orðið hægari en vonast var til, Á það ekki síst við um markmið um að auka fjárfestingu, en þar vegur bágborið efnahagsástand í Evrópu og heimsbúskapnum þungt. Í öðrum tilvikum hafa skipulagsferli á vegum sveitarfélaga reynst tímafrekari en gert var ráð fyrir o.s.frv. Fráleitt er að skrifa þau mál á reikning ríkistjórnar, sem er að gera það sem hún getur við erfiðar aðstæður sbr. þá fjárfestingaáætlun sem nú hefur verið tekin inn í fjárlagafrumvarpið eftir 2. umræðu.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra