Skattbyrði á Íslandi nálægt meðaltali Evrópuþjóða
Ísland er í 16. sæti í samanburði á skattbyrði meðal 30 ESB- og EFTA-þjóða samkvæmt nýju yfirliti Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins. Í samanburðinum er tekið mið af tekjuskatti, virðisaukaskatti og launatengdum gjöldum og litið til þess hve hátt hlutfall vergrar landsframleiðslu ríkið tekur til sín í formi skatta í hverju landi.
Eins og meðfylgjandi tafla Eurostat sýnir er Ísland í 16 sæti ef EFTA-þjóðirnar, Noregur, Ísland og Sviss eru tekin með. Íslenska ríkið tekur til sín 35,9% landsframleiðslunnar í formi skatta, en það er álíka mikið og gert er í Portúgal og á Kýpur. Þetta er í góðu samræmi við tölulegar samanburðarupplýsingar sem Norðurlandaráð birti nýverið (sjá t.d. bls. 117). Þar kemur fram að skattbyrði á Norðurlöndum var minnst á Íslandi árið 2011.
Skattar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í þeim 10 löndum þar sem skattbyrðin er mest var sem hér segir árið 2011:
Danmörk 48,6%
Belgía 46,7%
Frakkland 45,9%
Svíþjóð 44,9%
Austurríki 43,7%
Finnland 43,6%
Noregur 42,8%
Ítalía 42,8%
Þýskaland 40,0%
Holland 39,0%
Eins og sjá má eru öll Norðurlöndin ofar á listanum en Ísland. Auk landanna tíu eru líka ofar á blaði Lúxemborg, Bretland, Slóvenía, Ungverjaland og Portúgal. Danir hafa vermt efsta sætið mörg undanfarin ár og hefur skattbyrði sem hlutfall af vergri landsframleiðslu farið þar yfir 50%.
Gular súlur eru meðaltöl EFTA og ESB landa. Neðst eru þrjú lönd EFTA þ.á.m. Ísland
Að jafnaði er skattheimtan sem hlutfall af landsframleiðslu um 40% í löndunum 30 og er Ísland því talsvert undir meðaltalinu. Að jafnaði eru skattar sem hlutfall af landsframleiðslu lægstir í austanverðri Evrópu eins og taflan gefur til kynna.