Hoppa yfir valmynd
10. maí 2024 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 16/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Skipan nefndar. Aðild. Kærufrestur. Frávísun.

Kærandi kærði skipan umhverfis- og samgöngunefndar B og taldi hana brjóta gegn 28. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þar sem kæranda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins var málinu vísað frá nefndinni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 10. maí 2024 er tekið fyrir mál nr. 16/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 29. september 2023, kærði A skipan umhverfis- og samgöngunefndar í B á þeim grundvelli að í nefndinni sætu fjórir karlar og ein kona en það bryti gegn 28. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Kærandi, sem er bæjarfulltrúi í B, hafði gert athugasemd við kosningu nefndarinnar á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní 2022 og skipan annarra nefnda verið leiðrétt í kjölfarið. Skipan umhverfis- og samgöngunefndar hafi ekki verið leiðrétt þrátt fyrir að minnisblað frá lögfræðingi bæjarins, dags. 28. nóvember 2022, staðfesti að hún uppfylli ekki 28. gr. laga nr. 150/2020.
  3. Kæran ásamt fylgigagni var kynnt kærða með bréfi, dags. 16. nóvember 2023, og afstöðu hans óskað til kæruefnis. Í afstöðu kærða, dags. 28. s.m., kom fram að skipan nefndarinnar uppfyllti ekki kröfur 28. gr. laga nr. 150/2020, að skipa þyrfti eina konu í stað karls svo skilyrðum yrði fullnægt, en málið væri til skoðunar hjá sveitarstjórn. Með tölvubréfi hinn 5. janúar 2024 óskaði kærði eftir áliti kærunefndar á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, um aðild og hvort vísa bæri kærunni frá. Jafnframt fór kærði fram á að nefndin tæki ekki ákvörðun í málinu fyrr en að loknum endurkosningum í umhverfis- og samgöngunefnd. Hinn 9. janúar 2024 upplýsti kærði að kona hefði verið kjörin aðalfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd í stað karls og í nefndinni sætu því tvær konur og þrír karlar. Hinn 22. febrúar s.á. var afstaða kærða send kæranda ásamt síðari samskiptum.

     

    NIÐURSTAÐA

  4. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna geta einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem telja að ákvæði laga um jafnréttismál hafi verið brotin gagnvart sér leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna, eftir því sem við á.
  5. Mál þetta beinist að kosningu og skipun fulltrúa í tiltekna nefnd hjá kærða sem fór fram í júní 2022. Af 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2020 leiðir að til þess að einstaklingar geti leitað atbeina kærunefndar vegna brota á ákvæðum laganna verði þeir að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn um efnisatriði kæru. Verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að ákvæði laga nr. 150/2020 hafi verið brotin gagnvart kæranda. Samkvæmt því verður ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þegar af þeirri ástæðu er málinu vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Berglind Bára Sigurjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta