Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarpaði árlegt þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Fulltrúar Íslands á árlegu þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, sótti í gær árlegt þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fram fór í Genf. Ráðherra ávarpaði þingið og talaði hann í ræðu sinni um mikilvægi vinnumarkaðar fyrir öll og mikilvægi þess að viðkvæmir hópar fái tækifæri til þess að þroska hæfileika sína, mennta sig og finna sér starf við hæfi.

Á þinginu fundaði Guðmundur Ingi með Guy Ryder, framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ræddu þeir stöðuna á Íslandi og þær áskoranir sem lönd heimsins hafa staðið frammi fyrir vegna Covid-19 faraldursins, og ástandið sem hefur skapast vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu. Þá ræddu þeir um mikilvægi samfélags fyrir öll og sagði ráðherra frá endurskoðun almannatryggingakerfisins og áherslum sínum varðandi opnari og sveigjanlegri vinnumarkaði fyrir öll. Guðmundur Ingi fundaði einnig með Gilbert F Houngbo, sem tekur við sem framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í október á þessu ári. Ræddu þeir um sýn Houngbo og áherslur á mikilvægi félagslegs réttlætis og að koma á og styrkja umgjörðina um störf innan „harkhagkerfisins“.

Þá fundaði ráðherra einnig með fulltrúum frá skrifstofum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um málefni fatlaðs fólks og hæfni og færnimála þar sem hann fór yfir áherslur stjórnvalda á Íslandi í málefnum fatlaðs fólks og málefni tengd vinnumarkaði á borð við framtíð vinnunnar, sanngjörn og græn umskipti og framhaldsfræðslu.

Að endingu fundaði ráðherra með fulltrúum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) þar sem staðan á Íslandi var rædd. Fór Guðmundur Ingi yfir þær ákvarðanir sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið hvað varðar móttöku á kvótaflóttafólki og sérstökum aðgerðum er miða að móttöku á flóttafólki frá Afganistan og Úkraínu. Þá fór ráðherra yfir aukna þjónustu við fólk á flótta og fyrirhugaða stefnumótun ráðuneytisins í málefnum útlendinga.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta