Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur samstarfsvettvangs um öryggis- og varnarmál

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - myndHaraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í gær þátt í fjarfundi varnarmálaráðherra í sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF), samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í öryggis- og varnarmálum sem Bretland leiðir. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í ráðherrafundi samstarfsins, en samkomulag um þátttöku Íslands var undirritað í London 20. apríl sl.

Á fundinum kynnti Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, nýja stefnumörkun breskra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum, en hún er hluti af samræmdri endurskoðaðri stefnu Bretlands sem tekur til utanríkismála, öryggis- og varnarmála og þróunarsamvinnu.

„Sú stefna sem Bretar hafa nú markað til næstu ára hefur það að markmiði að geta séð fyrir framtíðaráskoranir á sviði öryggis- og varnarmála og brugðist við þeim. Öryggisumhverfi Evrópu hefur gerbreyst á undanförnum árum og okkar nánustu bandalags- og vinaríki hafa séð sig knúin til að auka framlög sín til varnarmála, Eystrasaltsríkin og Svíþjóð eru dæmi um það. Þetta skiptir miklu máli fyrir öryggi og varnir Íslands á viðsjárverðum tímum,“ segir Guðlaugur Þór.

Staðan í Úkraínu var einnig til umræðu á fundinum, en hernaðaruppbygging Rússlands  við austurlandamæri Úkraínu og á Krímskaga undanfarnar vikur hefur vakið hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins. „Stöðugleiki í Úkraínu er mikið hagsmunamál fyrir öryggi Evrópu. Þessi ríki eru sammála um að fylgjast verði grannt með því hvað Rússar eru að aðhafast á þessu svæði,“ sagði Guðlaugur Þór.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta