Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2024 Forsætisráðuneytið

1168/2023. Úrskurður frá 20. desember 2023

Hinn 20. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1168/2023 í máli ÚNU 23110009.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 8. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá Valþóri ehf. og Skúmi útgerð ehf. vegna afgreiðslu matvælaráðuneytis á beiðni um gögn.

Í kæru er rakið að árið 2011 hafi verið sett reglugerð um bann við notkun haukalóða við lúðuveiðar, nr. 477/2011. Í 5. gr. hennar hafi komið fram að reglugerðin væri sett samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, og laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Kærendur hafi frá árinu 2008 og þar til reglugerðin var sett gert út báta sem voru á lúðuveiðum með haukalóð. Setning reglugerðarinnar hafi haft veruleg áhrif á rekstur þeirra.

Kærendur hefðu átt í samskiptum við matvælaráðuneytið í þeirri viðleitni að fá svör við þeirri spurn­ingu til hvaða lagagreina í framangreindum lögum reglugerð nr. 477/2011 sækti lagastoð sína, þar sem í reglugerðinni væri aðeins vísað til laganna með almennum hætti. Sendu kærendur ráðuneytinu fyrir­spurn þess efnis hinn 5. apríl 2023. Þeirri fyrirspurn var svarað hinn 2. maí sama ár. Frekari samskipti áttu sér stað í kjölfarið og sendi ráðuneytið kærendum annað erindi hinn 22. júní 2023. Vísaði ráðu­neytið þar til ákvæða í lögum nr. 116/2006 og 79/1997 sem horfa mætti til við mat á því hvert reglu­gerðin sækti lagastoð sína, nánar tiltekið til 8. gr. laga nr. 116/2006 og 1. mgr. 9. gr. og 14. gr. laga nr. 79/1997.

Í framhaldi af því áttu sér stað frekari samskipti milli kærenda og ráðuneytisins auk þess sem aðilar funduðu um málið. Daginn eftir fund aðila hinn 27. september 2023 sendi ráðuneytið kærendum tölvu­póst þar sem fram kom að ráðuneytið gæti ekki gefið upplýsingar um það nú til hvaða ákvæða hefði verið horft þegar reglugerðin var sett árið 2011, sem haft gæti sama gildi og ef reglugerðin hefði vísað til tiltekinna ákvæða. Það hefði tíðkast á þeim tíma að vísa til laga í heild varðandi laga­stoð reglu­gerða.

Frekari samskipti áttu sér stað í kjölfarið og hinn 31. október 2023 óskuðu kærendur enn á ný eftir svörum við spurningu sinni. Ráðuneytið svaraði erindinu samdægurs og vísaði til fyrri svara.

Kæran var kynnt matvælaráðuneyti með erindi, dags. 18. nóvember 2023, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni hinn 27. nóvember 2023. Í henni kemur fram að það sé mat ráðuneytisins að málið snúist ekki um aðgang að upplýsingum, enda hafi ráðuneytið ekki ákveðið að halda neinum upplýsingum frá kærendum. Kærendur vilji að ráðuneytið búi til nýjar upp­lýsingar um það hvaða lagagreinar séu lagastoð fyrir reglugerð nr. 477/2011. Ráðuneytið hafi leiðbeint kærendum um það hvaða ákvæði hafi verið til staðar í lögum nr. 116/2006 og 79/1997 sem eðlilegt væri að vísa til sem lagastoðar. Þá hefði ráðuneytið upplýst að það gæti ekki gefið skriflega staðfestingu á því sem hefði sama gildi og ef vísað hefði verið til greinanna í reglugerðinni sjálfri. Ráðuneytið hafi ekki ákveðið að synja kærendum um aðgang að gögnum í málinu, enda séu ekki til staðar nein gögn sem synjað hafi verið um afhendingu á.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kærendum með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, og þeim veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 4. desember 2023. Óþarft er að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úr­skurð­ar­­nefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að viðleitni kærenda til að fá svör við þeirri spurningu til hvaða lagagreina í lögum um stjórn fiskveiða og lögum um fiskveiðar í landhelgi Íslands reglugerð nr. 477/2011 sæki lagastoð sína, þar sem í reglugerðinni sé aðeins vísað til laganna með almennum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum sam­­kvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af því leiðir að úr­skurð­ar­vald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögn­um samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi.

Matvælaráðuneyti hefur staðhæft að í ráðuneytinu liggi ekki fyrir nein gögn sem svari spurningu kær­enda. Ráðuneytið hafi hins vegar leitast við að leiðbeina kærendum um það til hvaða ákvæða eðlilegt megi teljast að líta til við mat á lagastoð reglugerðarinnar, þótt ekki sé hægt að slá því föstu með end­an­legum hætti að það séu þau ákvæði sem horft hafi verið til þegar reglugerðin var sett. Úrskurð­arnefnd um upplýsingamál telur samkvæmt þessu að kærendum hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Þar af leiðandi hefur í málinu ekki verið tekin ákvörðun sem er kæranleg til nefnd­ar­innar samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga. Telji kærendur að reglugerð nr. 477/2011 skorti lagastoð geta þeir að öðrum skilyrðum uppfylltum leitað til umboðsmanns Alþingis eða dómstóla. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál.

Úrskurðarorð

Kæru Valþórs ehf. og Skúms útgerðar ehf., dags. 8. nóvember 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta