Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Byggðajafnvægisstefna á alheimsmælikvarða – 4. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Síðasta pistli lauk með því að tæplega tíu milljónir króna söfnuðust eftir vel heppnað átak Æskulýðssambands Íslands í árslok 1965 undir kjörorðinu: Herferð gegn hungri. Þeir fjármunir fóru til fiskimannasamfélaga á Madagaskar á vegum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Þetta frumkvæði æskulýðssamtakanna vakti almenna athygli á vandamálum þróunarlandanna og jók samhug æskufólks með alþýðu þróunarlandanna. Herferð gegn hungri hefur eftir þessa fjársöfnun, einkum beitt starfskröftum sínum að fræðslu um þróunarlöndin í fjölmiðlum og skólum, jafnframt því, sem unnið hefur verið að því að fá hið opinbera til þátttöku í þróunaraðstoðinni. Þá hefur verið reynt að vekja fólk til umhugsunar um þjáningar alþýðu þróunarlandanna og hvetja til aðgerða íslenzkra aðila m.a. með hungurvökum framhaldsskólanema um páskana,“ skrifa Bjarni Þorsteinsson og Ólafur E. Einarsson í Rétt árið 1971 þegar þeir rifja upp söguna.

Áður en litið er nánar á hungurvökur framhaldsskólanna um páskana 1968 og 1969 er í sögulegu samhengi rétt að nefna áskorun frá ráðstefnu sem Stúdentafélag Háskóla Íslands efndi til í febrúar 1968. „Ísland og þróunarríkin“ var yfirskrift ráðstefnunnar og fyrirlesarar þeir Ólafur Björnsson prófessor og Sigurður Guðmundsson skrifstofustjóri. Í ályktun ráðstefnunnar var skorað á Alþingi og ríkisstjórn „að setja hið fyrsta löggjöf um opinbera aðstoð Íslendinga við þróunarlöndin“ en þegar hér var komið sögu voru tæplega þrjú ár liðin frá því Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Ólafs um að kannað yrði á hvern hátt Íslendingar gætu best skipulagt aðstoð við þróunarlöndin.

Nefndin var eins og áður hefur komið fram skipuð að haustlagi 1965. Hún skilaði bráðabirgðaáliti 11. október 1966 og lagði þá til að skipuð yrði sérstök stjórn til þess að fara með og fjalla um þessi mál af Íslands hálfu en lagði jafnframt til að á fjárlögum 1967 yrðu veittar 15 milljónir í þessu skyni. Ekkert varð úr að Alþingi veitti umbeðna fjárhæð og sagan endurtók sig árið eftir. Haustið 1968 barst hins vegar ný áskorun, að þessu sinni frá 125 einstaklingum, á Degi Sameinuðu þjóðanna 24. október og var svohljóðandi: „Við undirrituð beinum þeirri áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar, að á þessum vetri verði með löggjöf hafizt handa um undirbúning að aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Okkur er ljóst, að Ísland á í efnahagserfiðleikum um þessar mundir, en bendum á, að fjölmargar fjölmennar þjóðir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku eiga við ótrúlega neyð að búa. Við teljum það skyldu íslenzku þjóðarinnar, þrátt fyrir núverandi örðugleika, að hefjast handa og aðstoða þessar nauðstöddu þjóðir.“

Fyrirspurn Magnúsar Kjartanssonar

Í framhaldi af þessari áskorun kom málið til umræðu á Alþingi með fyrirspurn frá Magnúsi Kjartanssyni: Hyggst ríkisstjórnin hafa frumkvæði að því að gerð verði áætlun um skipulega aðstoð Íslendinga við fátækar þjóðir og stefnt að því marki, að aðstoðin verði 1% af þjóðarframleiðslunni árlega? Fyrirspurninni svaraði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra meðal annars með því að segja að eðlilegt sé að bíða með tillögugerð og ráðagerðir þangað til fullnaðarálit þeirrar nefndar sem Ólafur Björnsson stýri liggi fyrir. „Út af fyrir sig gæti ég hugsað mér, að hægt væri að koma af stað stofnun til þess að íhuga þessi mál, jafnvel þó að fjárveitingar væru litlar í fyrstu, eins og þær hljóta að vera til að byrja með, eins og nú standa sakir...,“ sagði forsætisráðherrann. Ólafur Björnsson kom líka í pontu og kvaðst bera höfuðábyrgð á þeim drætti sem orðið hefði hjá nefndinni - og útskýrði ástæður. „Það er tvennt, sem kemur þar til. Í fyrsta lagi mjög breytt viðhorf í efnahagsmálum frá því þessi mál voru til athugunar hjá hv. ríkisstj. veturinn 1966-67 og hjá því verður ekki komizt að taka tillit til þeirra og miða endanlegar till. við það. Í öðru lagi átti ég kost á því í árslok s.l. árs að sitja sem einn af fulltrúum Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna og þá um leið að kynna mér meðferð þessara mála miklu ýtarlegar, en ég hafi átt kost á áður hjá Sameinuðu þjóðunum og viða að mér allmiklu efni um þau atriði, sem mér því miður hefur ekki enn gefizt tími til að ganga alveg frá.“

Og Ólafur sagði að mikið átak þyrfti til að upplýsa þjóðina um þessi mál. „Og eitt af því, sem ég tel nauðsynlegt, að menn geri sér ljósara en nú er, að ekki má blanda saman alþjóðlegri líknarstarfsemi og aðstoð við þróunarlöndin, sem mér finnst, að mjög sé nú gert.“ Síðan gerði hann stuttlega grein fyrir starfsemi FAO og Rauða krossins, en sagði hana ólíka aðstoð við þróunarlöndin. „Aðstoð við þróunarlöndin má að mínu áliti í meginatriðum fyrst og fremst líkja við byggðajafnvægisstefnu á alheimsmælikvarða. Hún er ekki hugsuð eingöngu sem hjálparstarfsemi og sama hugsa ég að gildi raunar um byggðajafnvægisstefnuna hér, að á þá, sem góðs af henni njóta, er ekki litið sem gustukamenn, heldur að það sé í þágu allra...“ Magnús Kjartansson lauk umræðunni og sagði það hafa gengið „óþarflega seint“ að komast að niðurstöðu og ítrekaði áskorun til ríkisstjórnarinnar að hefja skipulegar aðgerðir.

Hungurvökur

Á vordögum, um páska, bæði árið 1968 og 1969 var efnt til „Hungurvöku“ í framhaldsskólum, fyrra árið í Samvinnuskólanum og síðara árið í Menntaskólanum í Reykjavík. Í MR föstuðu nemendur margra framhaldsskóla í borginni í tvo sólarhringa, að frumkvæði framkvæmdanefndar Herferðar gegn hungri, til að „vekja sjálft sig og aðra til umhugsunar um það að ótrúlega stór hópur mannkyns sveltur ennþá,“ eins og sagði í frásögn Morgunblaðsins 9. apríl 1969. Skipulögð dagskrá var á hungurvökunni, sjö umræðuhópar og fræðsludagskrá í umsjón Ólafs E. Einarssonar og Björns Þorsteinssonar. Morgunblaðið ræddi m.a. við Skúla Möller framkvæmdastjóra Herferðar gegn hungri um framlög Íslands til þróunarmála sem sagði: „Okkar tillaga er fyrst og fremst sú, að það verði sett hér löggjöf um íslenskan hjálparsjóð, og til hans verði veitt fé á fjárlögum. En auðvitað er okkar stefnumark það að það eigi að verja 1 prs. af þjóðarframleiðslunni til þessa starfs, eins og gerist hjá öðrum vel stæðum þjóðum.“ Og ennfremur ræddi Mogginn við ungan mann í 4. bekk, Ingjald Hannibalsson, sem segir: „Mig langaði að sjá hvernig þetta væri, en vitanlega höfum við samúð með þróunarlöndunum og viljum hjálpa þeim. Hér á hungurvökunni höfum við fræðst mikið um hag þeirra og hann er jafnvel verri en við reiknuðum með, þannig að við forherðumst í afstöðu okkar með þessum þjóðum. Við munum reyna að vinna almenningsálitið með okkur,“ segir hann.

Í árslok 1969 kom fram frumvarp á þingi um sjóð til aðstoðar við þróunarríkin. Nánar í næsta pistli. – Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta