Ákall Sameinuðu þjóðanna um 655 milljarða króna til afgönsku þjóðarinnar
Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar kölluðu í gær eftir rúmlega 655 milljarða króna framlögum til mannúðaraðstoðar í Afganistan, fimm milljörðum bandarískra dala, sem jafnframt er hæsta upphæð sem kallað hefur verið eftir í sögu samtakanna fyrir einstakt ríki. Grunnþjónusta við íbúa er í molum og með væntanlegum framlögum ætla Sameinuðu þjóðirnar að koma 22 milljónum stríðshrjáðra Afgana til aðstoðar innan landamæra og 5,7 milljóna utan þeirra.
Martin Griffith yfirmaður samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) sagði að 4,4 milljarða Bandaríkjadala þyrfti til þess eins að greiða laun heilbrigðisstarfsfólks og annarra – og ekkert af því fjármagni færi í gegnum hendur Talíbana. Þá kallaði Filippo Grandi framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eftir 623 milljónum dala – tæplega 82 milljörðum króna – til stuðnings flóttamannasamfélögum í fimm nágrannríkjum.
Afganska þjóðin, tæplega 42 milljónir íbúa, hefur búið við stríðsátök í fjóra áratugi. Eftir að Talibanar tóku völdin í landinu í ágúst á síðasta ári hefur ástandið farið hríðversnandi með vaxandi fátækt og verðhækkunum á matvælum og öðrum nauðsynjum. Rúmlega helmingur þjóðarinnar þarf á alþjóðlegri mannúðaraðstoð að halda.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra úthlutaði í lok desember 200 milljónum króna til mannúðaraðstoðar, meðal annars til Afganistan, og fól Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) að ráðstafa framlaginu.