Hoppa yfir valmynd
11. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Sjöfn Vilhelmsdóttir nýr forstöðumaður Landgræðsluskólans

Sjöfn Vilhelmsdóttir - mynd

Dr. Sjöfn Vilhelmsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns Landgræðsluskólans sem er einn fjögurra skóla sem reknir eru undir merkjum GRÓ – þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu í samstarfi við Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Hlutverk skólans er að þjálfa sérfræðinga frá þróunarríkjum sem glíma við land- og jarðvegseyðingu og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga.

Frá stofnun skólans árið 2007 hafa 139 sérfræðingar útskrifast úr námi Landgræðsluskólans hér á landi, en jafnframt hafa 124 sérfræðingar tekið þátt í og útskrifast úr námskeiðum sem haldin hafa verið á vettvangi í samstarfslöndum skólans í Afríku og Asíu.

Sjöfn Vilhelmsdóttir hefur víðtæka starfsreynslu á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Hún hefur bæði starfað í Afríkuríkjum og á Íslandi og unnið fyrir stjórnvöld og félagasamtök.

Hún starfaði sem forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands á árunum 2015 til 2020. Hún er með doktorspróf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MA í alþjóðlegum fræðum frá Háskólanum í Denver og BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Sjöfn hefur kennt og leiðbeint fjölda nemenda við Landgræðsluskólann frá árinu 2008 og verið fulltrúi í fagráði skólans frá árinu 2016. Hún tekur við starfinu af dr. Hafdísi Hönnu Ægisdóttur sem gegndi starfi forstöðumanns frá 2008.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta