UNICEF segir ekkert réttlæta dráp, limlestingar og brottnám barna
„Ekkert réttlætir dráp, limlestingar og brottnám barna. Þetta eru alvarleg réttindabrot sem UNICEF fordæmir af heilum hug,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu í gær vegna ástandsins í Ísrael og Palestínu.
Innan við 72 klukkustundum eftir að árásir og átök brutust þar út hafa borist óhugnanlegar lýsingar á alvarlegum brotum gegn börnum þar sem fjölmörg börn og aðrir saklausir borgara hafa látið lífið og særst.
Russell segir í yfirlýsingu sinni að UNICEF fordæmi þessi alvarlegu brot og ítrekar að Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kalli eftir því að börnum sem haldið sé í gíslingu á Gaza verði tafarlaust og örugglega sleppt úr haldi svo þau geti sameinast fjölskyldum sínum og forráðamönnum.
„Við krefjum alla aðila máls að vernda börn frá skaða í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Ég lýsi einnig þungum áhyggjum yfir því úrræði að hindra afhendingu rafmagns, matvæla, eldsneytis og vatns á Gaza, sem getur stefnt lífi barna í frekari hættu,“ segir Russell og leggur einnig áherslu á nauðsyn þess að stríðandi fylkingar leggi niður vopn og hætti árásum á innviði almennings.
Russell leggur enn fremur áherslu á að mannúðarstofnanir verði að fá að sinna sínu starfi og fá öruggt aðgengi að börnum og fjölskyldum þeirra svo hægt sé að koma nauðsynlegri þjónustu og hjálpargögnum til þeirra, hvar svo sem þau eru.
„Ég minni alla aðila á að í þessu stríði, eins og í öllum styrjöldum, eru það börn sem þjást fyrst og þjást mest,“ segir Russell að lokum.