Hoppa yfir valmynd
18. júní 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra um afskráningu firmaheitisins Innnes-hús ehf. úr hlutafélagaskrá.

Reykjavík 18. júní 2007

Tilv.: FJR07040045/120

Efni: Kæra vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra um afskráningu firmaheitisins Innnes-hús ehf. úr hlutafélagaskrá.

Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 11. apríl 2007, þar sem þér kærið ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 29. mars 2007, um afskráningu firmaheitisins Innnes-hús ehf. úr hlutafélagaskrá. Í bréfinu krefjist þér þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir:

Þann 19. desember 2005 var skráð í fyrirtækjaskrá einkahlutafélagið Innnes-hús ehf., kt. 591205-0130. Þann 15. mars 2007 barst fyrirtækjaskrá athugasemd með tölvupósti frá umboðsmanni fyrirtækisins Innnes ehf., kt. 650387-1399, sem skráð var á árinu 1987 og á lögverndaðan rétt til firmaheitisins ,,Innnes“, þar óskað var eftir upplýsingum um hvort framkvæmd skráningar á firmaheitinu Innnes-hús ehf. væri í samræmi við þá starfshætti sem farið væri eftir þegar skráning félaga færi fram. Í framhaldi þessarar athugasemdar taldi fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra með hliðsjón af 10. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð og 4. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, sbr. og 12. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, að skráning firmaheitisins Innnes-hús ehf. í fyrirtækjaskrá þann 19. desember 2005, bryti í bága við lögverndaðan rétt eiganda firmanafnsins  ,,Innnes ehf.“ til nafnsins. Beindi fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra því þeim tilmælum til stjórnarformanns Innnes-húss ehf., með bréfi dags. 29. mars 2007, að hlutast til um nafnbreytingu á félaginu innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins, ella yrði nafn félagsins afskráð á grundvelli fyrirvara í stofngögnum félagsins.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2007, var fyrrgreind ákvörðun ríkisskattstjóra kærð til ráðuneytisins. Í kærunni er farið fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi, þar sem hún sé röng bæði að efni til og formi. Í kærunni er farið yfir rökstuðning ríkisskattstjóra. Teknar eru upp staðhæfingar úr tölvupósti lögmanns kvartanda um lögverndaðan rétt til nafnsins án þess að staðhæfingar séu kannaðar eða skoðaðar nánar og þá sé verulega íþyngjandi ákvörðun tekin án þess að andmælaréttur Innnes-hús ehf. sé virtur. Þá er því harðlega mótmælt af hálfu kæranda að fyrirtækið Innnes ehf. eigi betri rétt til firmanafnsins Innnes-hús en fyrirtækið Innnes-hús ehf. Nafnið Innnes-hús ehf. hafi verið skráð athugasemdalaust hjá hlutafélagaskrá árið 2005 og sé rekstur félagsins búinn að standa yfir á þremur almanaksárum, þ.e. 2005, 2006 og það sem af er árinu 2007. Kærandi telur því að nafnið hafi öðlast tengsl við rekstur Innnes-húss ehf. og verulegir fjárhagslegir hagsmunir því tengdir. Þá mótmælir kærandi að samsetning heitisins ,,Innnes“ veiti firmaeiganda Innnes ehf. lögverndaðan rétt til nafnsins, enda sé ekkert sem gefi tilefni til að ætla að þetta sé samsetning sem orðið hefur verið fyrir tilstuðlan forsvarsmanna Innnes ehf. þar sem heitið ,,innnes“ hafi verið til í orðaforða landans í gegnum aldirnar. Þá er þess einnig krafist af hálfu kæranda að ákvörðun ríkisskattstjóra verði ógild með vísan til almennra reglna um andmælarétt, einkum 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin.

Með bréfi, dags. 17. apríl 2007, óskaði ráðuneytið umsagnar ríkisskattstjóra í tilefni af kæru forsvarsmanna Innnes-húss ehf. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 1. júní 2007, kemur fram að því sé mótmælt af hálfu ríkisskattstjóra að ekki hafi verið gætt andmælaréttar forsvarsmanna Innnes-húss ehf. í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í niðurlagi fyrrgreinds bréfs, dags. 29. mars 2007, hafi athygli verið vakin á rétti þeirra skv. 21. gr. stjórnsýslulaga til að krefjast skriflegs rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Þar með hafi forsvarsmönnum Innnes-húss ehf. verið gefinn kostur á að koma að andmælum og gögnum til stuðnings kröfu sinni um að nafn félagsins yrði ekki fellt af skrá. Það hafi þeir hins vegar ekki gert, heldur hafi þeir kosið að kæra úrskurðinn beint til ráðuneytisins. Þá ítrekar ríkisskattstjóri þann fyrirvara sem gerður var við stofnun félagsins og hafi forsvarsmenn Innnes-húss ehf. verið upplýstir strax við stofnun félagsins að til þess gæti komið við nánar athugun að nafn félagsins fengi ekki samrýmst betri rétti annarra. 

Rökstuðningur og niðurstaða:

Við meðferð stjórnsýslumála, þar sem taka á stjórnvaldsákvörðun, gildir andmælareglan, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt henni á málsaðili að eiga þess kost að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um efni máls og framkomnar upplýsingar í því og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Andmælareglan á við þegar mál byrjar að frumkvæði annars en aðila máls og hann veit ekki að mál hans er til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga, enda liggi ekki fyrir í gögnum máls afstaða aðila og rök hans fyrir henni eða talið verði augljóslega óþarft að veita aðila færi á að tjá sig.

Í því máli sem hér er til meðferðar liggur fyrir að forsvarsmönnum Innnes-húss ehf. var ekki veittur kostur á að gæta andmælaréttar eftir að kvörtun Innnes ehf. var borin fram og áður en ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin, þó að upplýsingarnar hafi verið fyrirtækinu í óhag og hafi haft verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Á grundvelli framangreindra raka er það mat ráðuneytisins að veita hefði átt kæranda möguleika til að gæta andmælaréttar áður en fyrrgreind ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin, sbr.13. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og málinu vísað aftur til meðferðar hjá ríkisskattstjóra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta