Nýr hlekkur á mál til umræðu
Ákveðið hefur verið að bjóða uppá umræðu á vef samgönguráðuneytisins. Þar verða kynnt mál sem eru til umfjöllunar í ráðuneytinu og leitast við að fá fram viðbrögð einstaklinga sem og hagsmunaaðila.
Er þetta gert í því skyni að fá viðbrögð við málum sem eru nánast á hugmyndastigi áður en frekari vinna er lögð í málin. Einnig er þessi vettvangur liður í þeirri stefnu samgönguráðuneytisins að viðhafa opna stjórnsýslu, að almenningur jafnt sem hagsmunaaðilar geti tjáð sig um mál sem eru til vinnslu í ráðuneytinu og haft áhrif á framvindu þeirra.
Þeir sem vilja geta sent viðbrögð sín með tölvupósti á netfangið: [email protected].
Fyrsta málið af þessum toga sem leitað verður viðbragða við er hvort breyta eigi bílprófsaldri úr 17 árum í 18. Þessari hugmynd hefur skotið upp í umræðu umferðarslys og hlutfall ungs fólks sem á aðild að umferðarslysum.
Hlekkinn Umræður er að finna vinstra megin á forsíðunni á vef ráðuneytisins. Nánar hér.