Fréttamolar á föstudegi
Hér fara á eftir stuttfréttir um Flugstoðir ohf., lagafrumvörp í undirbúningi og aldur hópferðabílaflota landsmanna.
Flugstoðir ohf. á leið í loftið
Nýja opinbera hlutafélagið Flugstoðir ohf. er nú að komast í loftið og næstu skref felast í því að undirbúa starfsemina. Flugstoðir ohf. voru sem kunnugt er stofnaðar til að annast rekstur flugvalla landsins og flugleiðsöguþjónustu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ásamt fulltrúum ráðuneytisins og Flugmálastjórnar átti síðastliðinn þriðjudag fund með fulltrúum stjórna starfsmannafélaga stéttarfélaga hjá Flugmálastjórn til að fara yfir ýmis atriði er snerta þessar breytingar á skipulagi flugmála sem verða um næstu áramót. Haft verður víðtækt samráð fulltrúa samgönguráðuneytisins, Flugmálastjórnar og stjórnar hins nýja hlutafélags með fulltrúum starfsmanna við undirbúning breytinganna.
Lagafrumvörp undirbúin
Á hverju ári er nauðsynlegt að breyta ýmsum lögum þeirra málaflokka sem heyra undir samgönguráðuneytið. Í sumar verður farið yfir hvaða lagabreytingartillögur verða lagðar fram þegar Alþingi kemur saman í haust. Sumar breytingar eru minni háttar en í öðrum tilvikum er hugað að endurskoðun heilla lagabálka, til dæmis umferðarlaga. Þeirri endurskoðun verður vart lokið fyrr en á næsta ári. Einnig er undirbúningur samgönguáætlunar fyrir árin 2007 til 2018 nú í fullum gangi en ráðgert er að leggja hana fyrir Alþingi í haust.
Lækkandi aldur hópferðabíla
Fjöldi hópferðabíla í landinu var í lok síðasta árs 1.906 en árið 2000 var fjöldinn 1.673 bílar. Árið 1940 voru 137 slíkir bílar í landinu. Þá hefur meðalaldur bílanna lækkað talsvert eða úr 12,9 árum árið 2000 í 10,2 ár á síðasta ári. Langflestir bílanna eða yfir 1.100 eru skráðir á höfuðborgarsvæðinu en næst flestir á Suðurlandi eða 175.